05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2626 í B-deild Alþingistíðinda. (2100)

241. mál, starfsemi húsmæðraskóla

Salome Þorkelsdóttir:

Herra forseti. Ég vil við þetta tækifæri þakka hv. 10. landsk. þm. fyrir að bera fram þessa fsp. til hæstv. menntmrh. um starfsemi húsmæðraskóla, eða hússtjórnarskóla. Það var vissulega fróðlegt að fá fram upplýsingar um þessi mál hér á hv. Alþingi. Og þó að ég væri nú ekki nógu fljót að gripa allar þær tölur sem hæstv. ráðh. las upp rösklega hér til að firra menn löngum ræðum með þurrum upptalningum miðað við það sem komið hafði hér fram í ræðum hv. þm. áður á þessum fundi þá var það mjög gagnlegt að fá þær upplýsingar fram hér á hv. Alþingi.

Heimilisfræði eða hússtjórnarkennsla er þýðingarmikil námsgrein, eins og hér hefur komið fram, ekki síst í nútíma þjóðfélagi. Heimilisfræði varð fyrst skyldunámsgrein með grunnskólalögum 1974 og eins og kom fram hjá hv. 2. þm. Austurl. hefur víða gengið illa að framfylgja lögunum um þessa kennslu vegna aðstöðuleysis og/eða kennaraskorts. Heimilisfræði mun nú vera valgrein í Kennaraháskólanum. Hlýtur því að vera brýnt að efla þá valnámsgrein við Kennaraháskólann sem mætti þá verða til að auka möguleika á kennslu í heimilisfræðum t.d. úti á landsbyggðinni þar sem henni er mjög ábótavant.

En jafnframt því að þessi kennsla nýtur mikilla vinsælda hjá öllum hlutaðeigandi þá er mikil þörf fyrir hana, þ.e. sérstaklega varðandi næringar- og hollustuhætti, ekki hvað síst í nútíma þjóðfélagi þar sem ungmennin þurfa oft og tíðum að sjá sjálf um fæðuval sitt mikinn hluta dagsins, eins og flestum okkar mun vera kunnugt.

Það kom fram í neyslukönnun meðal skólabarna, sem Manneldisráð Íslands gerði á árunum 1977 og 1978 í fjórum grunnskólum í Reykjavík, að mataræði barna væri í mörgu ábótavant og röskun á venjum heimilanna hefði leitt til þess að börn og unglingar neyti sælgætis og gosdrykkja, sem svokallaðar „sjoppur“ bjóða, og þannig fái þau allt að einum fjórða hluta orkuþarfarinnar fullnægt án þess að mikilvæg næringarefni fylgi.

Það er augljóst að í nútíma þjóðfélagi verða allir að hafa undirstöðuþekkingu í næringar- og neytendafræðum, í algengri matreiðslu og heimilisstörfum, og ekki síst í að skipuleggja vinnu sína. Að þeim markmiðum stefnir nám í heimilisfræði jafnframt því sem grunnur er lagður að verkmenntun við ýmis störf.

Ég gat ekki látið hjá líða, herra forseti, að koma hér upp og taka til máls í umr. varðandi þennan mikilvæga málaflokk sem af mörgum virðist ekki vera talinn svo mjög þýðingarmikill. Hann lætur lítið yfir sér en er kannske ein af þeim þýðingarmestu námsgreinum sem börn fá kennslu í í grunnskóla í nútíma þjóðfélagi.

Hv. 10. landsk. þm. minntist á að konur hefðu væntanlega mikinn áhuga á kennslu í þessari námsgrein, dró í efa áhuga karla, sem er kannske ekki óeðlilegt. Þó má minna á að nú fá nemendur í grunnskólum, bæði drengir og stúlkur, þessa kennslu þar sem henni verður við komið á annað borð, og þetta mun vera mjög vinsæl námsgrein, ekki síður hjá drengjunum.

En mér dettur í hug, með leyfi forseta, að lesa hér ályktanir frá landsþingum Kvenfélagasambands Íslands varðandi þessi mál um leið og ég þakka hv. 10. landsk. þm. fyrir að minna á þá till. til þál. sem ég flutti hér á hv. Alþingi, 105. löggjafarþingi, en þar var í fskj. með þeirri till. — (Forseti hringir.) Nú, tími minn er liðinn. En ætli mér leyfist ekki að lesa þessar tvær, þrjár setningar, herra forseti? (Forseti: Jú, það er bara vakin athygli á tímamörkum.)

Þar segir: „Kvenfélagasamband Íslands hvetur ungt fólk til að hagnýta sér sem best alla fræðslu um heimilisstörf og hússtjórn svo að það geti beitt verkhyggni og hagsýni er það stofnar eigið heimili. Landsþingið skorar á menntmrn. á að sjá um að lögum um heimilisfræðslu grunnskóla verði framfylgt og ætlað enn meira rúm í námsskrá en nú er. Þingið leggur áherslu á nauðsyn þess að koma upp eða bæta aðstöðu slíkrar kennslu í grunnskólum.“

Ég ætla að sleppa að lesa upp fleiri ályktanir vegna tímaskorts, þær eru nokkrar til viðbótar, en endurtaka þakkir mínar til hv. 10. landsk. þm. fyrir að leggja fram þessa fsp.