05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2632 í B-deild Alþingistíðinda. (2106)

241. mál, starfsemi húsmæðraskóla

Helgi Seljan:

Herra forseti. Mér þykir það mjög miður, jafnorðvar og hæstv. menntmrh. er að jafnaði, að hæstv. ráðh. skyldi sjá ástæðu til þess að hafa uppi svo hæpnar fullyrðingar um afstöðu Alþb. til heimilisfræða eins og hér komu fram áðan. Ég ætla nú ekki að fara að vitna neitt hér, en ég kannast ekki við að þessar ásakanir gildi um mig. Og ég bendi á að enn síður gilda þær um hinn þm. Alþb. á Austurlandi, hv. þm. Hjörleifur Guttormsson, sem sjálfur gekk í húsmæðraskóla á sinni tíð og hefur alla tíð síðan af eðlilegum ástæðum borið mikla virðingu fyrir heimilisfræðum og því námi sem í húsmæðraskólum hefur verið stundað. Mér þóttu þetta vægast sagt undarleg orð og tel að þau hljóti að vera á einhverjum misskilningi byggð, m.a. því að hér hafi verið umræður áður um sérgreinda skóla án allrar réttindasköpunar, án allra tengsla við annað skólastarf í landinu, sem sumir gagnrýndu með réttu, svo þýðingarmikinn þátt hins eðlilega skólastarfs sem hér er um að ræða.

Ég hef tekið nokkurn þátt í umræðum um þessi mál, m.a. í tengslum við grunnskólalögin, og ég minnist þess einmitt mér til ánægju núna, þegar svona ásakanir eru hér á borð bornar, að ég lagði áherslu á þennan þátt þar og gerði það vegna þeirrar reynslu sem ég hafði sjálfur af skólastarfi. En af því að þessar ásakanir eru fram komnar hlýt ég að biðja hæstv. ráðh. að tilgreina þá hv. þm. Alþb. sem hafa farið svona niðrandi orðum um heimilisfræði og nauðsyn þeirra í skólastarfinu og um leið að upplýsa mig um það hvar þessi sérstaki áhugi Sjálfstfl. hafi birst hér á Alþingi, fyrr en þá með ágætum tillöguflutningi hv. þm. Salome Þorkelsdóttur í fyrra. Og verð ég þá að segja að sú áhugasaga, sem hv. þm. lét svo mikið af hér áðan, er býsna stutt.