05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2633 í B-deild Alþingistíðinda. (2107)

241. mál, starfsemi húsmæðraskóla

Karvel Pálmason:

Herra forseti. Hér er vissulega hreyft miklu máli, því að eins og hér hefur komið fram og raunar var löngu ljóst, þá er staða húsmæðraskóla í landinu, a.m.k. sumra hverra, mjög slæm. Og hvað sem vilja hæstv. núv. menntmrh. líður í þeim efnum benda fjárveitingar undangenginna ára í fjárlögum ekki til þess að þeir sem ráðið hafa ríkjum í menntmrn. undangengin ár hafi haft þungar áhyggjur af slæmri stöðu sumra þessara stofnana. Sumar byggingar húsmæðraskólanna eru svo úr sér gengnar að stórar upphæðir þarf til þess að koma þeim í þokkalegt horf. Ég tala nú ekki um að finna þeim eðlilegan stað í menntakerfinu miðað við núverandi aðstæður. Það er kannske meginmálið.

Ég hjó eftir því að hæstv. menntmrh. nefndi héraðsskólana. Ekki tekur nú betra við ef horfið er yfir á þann vettvang. Margir þeirra, m.a. tveir í mínu kjördæmi og ég þekki þar til, eru þannig settir að það er aðeins tímaspursmál, og það stutt, verði engar breytingar gerðar, hvenær þær stofnanir hætta kennslu og verða lagðar niður. Og það væri að mínu viti afskaplega slæmt ef til þess kæmi að þessum ágætu stofnunum, sem hafa sýnt á undangengnum árum að þær eiga fullan rétt á sér, yrði ekki fundinn eðlilegur staður í menntakerfinu við breyttar þjóðfélagsaðstæður.

Ég legg mikla áherslu á það bæði varðandi húsmæðraskólana og héraðsskólana að stjórnvöld, og þá fyrst og fremst hæstv. menntmrh., kanni gaumgæfilega hvað hér er hægt að gera. Ég tek undir orð hv. þm. Guðrúnar Helgadóttur. Mér finnst, ekki bara núna í þessum umr. heldur yfirleitt alltaf, vanta í svör við fsp. hvaða skoðun viðkomandi ráðh. hefur á málunum. Það er ekki nóg að lesa hér upp samda skýrslu embættismanna úr ráðuneytum. Það vantar það sem við á að éta, þ.e. skoðun þeirra sem eiga að ráða ferðinni í þessum málum. Í þessu tilfelli á það við hæstv. menntmrh.

Ég vænti þess eindregið að hæstv. menntmrh. íhugi enn betur eftir þessar umr. hvort ekki er þegar orðin ástæða til að gaumgæfa frekari aðgerðir til að styrkja stöðu þessara menntastofnana í landinu. Að minni hyggju mega þær alls ekki hverfa. En ég ítreka: fjárveitingar undangenginna ára til húsmæðraskóla og héraðsskóla hafa ekki borið þess merki að stjórnvöld á hverjum tíma hafi viljað veg — eða öllu heldur endurreisn sumra hverra þessara stofnana eins og málum hefur verið háttað. (Forseti hringir.) Ég er alveg að ljúka, herra forseti. — Því sem hv. þm. Friðjón Þórðarson sagði hér áðan, að vel færi á því að kvenmenn hér á hv. Alþingi ryddu brautina í þessum efnum og karlmenn kæmu sennilega á eftir til að styðja það, vísa ég algerlega á bug. Ég vil vera í fararbroddi með þeim.