05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2640 í B-deild Alþingistíðinda. (2115)

269. mál, niðurskurður og sparnaður í ráðuneytum og stofnunum

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. fjmrh. svörin, sem reyndar voru engin, ef svo má að orði komast, vegna þess að eins og hann gat um verða svörin ekki tilbúin fyrr en A-hluti ríkisreiknings liggur fyrir. Hins vegar finnst mér fróðlegt að heyra frá því sagt hér að þó að að raungildi væri ráðgert að það yrði um 95 millj. kr. sparnaður, en þau sparnaðarfyrirmæli voru lögð fyrir, skuli ekki finnast fyrir því hvort sá sparnaður hafi náðst eða ekki og vera nokkurn veginn á hreinu. En við fáum sem sagt að heyra um þetta þegar gerð verður grein fyrir A-hluta ríkisreiknings fyrir þinglok.