05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2641 í B-deild Alþingistíðinda. (2117)

269. mál, niðurskurður og sparnaður í ráðuneytum og stofnunum

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil endurtaka að þó að tölulegar upplýsingar séu ekki að fullu tilbúnar, eins og ég gat um, er þegar vitað að verulegur árangur hefur náðst af aðgerðunum, enda væri annað óeðlilegt þar sem ríkisendurskoðandi leiðir nefnd sem er ný nefnd í fjmrn. og í þeirri nefnd er forstöðumaður gjaldheimtudeildar, forstöðumaður hagsýslu og bæði formaður og varaformaður fjvn. og þeir hafa í sameiningu og sem nefnd fylgst nokkuð vel með útgjaldalið fjárlaga. Þó að tölur liggi ekki endanlega fyrir er vitað að þetta hefur borið árangur.

Hitt er svo annað mál að hægt er að deila um hvort tillögur um sparnað í ríkisrekstrinum eru framkvæmanlegar eða ekki, hvort þessar hugmyndir um flatan niðurskurð á rekstri um 5% og sparnað í launahaldi um 2.5% eru raunhæfar tilraunir. Ég held að svo sé. Ég held að sé tiltölulega auðvelt, miðað við þær viðræður sem ég hef átt við forstöðumenn ýmissa ríkisstofnana og það var útreiknað fyrir fram af hagsýslunni, að ná sparnaði í mannahaldi á kostnað þjónustu yfir sumarfrístímann, að ráða helst ekki starfsfólk eða ráða það seint, ráða ekki fyrr en veruleg þörf knýði á. Svo er líka fólk að hætta hjá ríkinu. Það er alltaf margt fólk sem hættir. Þá ætti að draga ráðningu í staðinn á langinn og reyna helst að komast hjá ráðningu í staðinn. Þetta hefur verið gert og þetta hefur borið árangur. Og það vita allir þm. að þeir sem skipa þessa eftirlitsnefnd með útgjöldum ríkissjóðs hafa allir mjög gott yfirlit og gott vit á þessum hlutum. Það er auðvelt fyrir þá að fylgjast með, auðvelt að fara í stofnanir og auðvelt að sjá á tölum þegar þær nálgast það að mánaðarlegur skammtur, skulum við segja, sé fullnýttur.

Ég tek fyllilega undir að erfitt er að fækka starfsfólki, en það verður að gera það. Kannske að leiðin sé, eins og kom fram hjá hv. síðasta ræðumanni, að ríkið beini meira af starfsemi sinni til einstaklinga. Það hefur nú verið gerð tilraun til þess og við skulum sjá hvort það ber ekki meiri árangur en hingað til. Við verðum að viðurkenna að borið hefur einhvern árangur t.d. salan á þeim fyrirtækjum sem iðnrh. hefur selt o.s.frv. En það er annað með þetta stóra fyrirtæki sem íslenska ríkið rekur, þjóðfélagið. Það eru alltaf að komast á laggirnar nýjar og nýjar stofnanir. Það er verið að taka í notkun viðbót við sjúkrahús. Það er verið að taka ný heimili í notkun fyrir hina og þessa þarfa starfsemi. Þar fjölgar náttúrlega starfsliði. Því er afskaplega erfitt að segja nákvæmlega á þessu stigi hvort um fækkun eða fjölgun hefur verið að ræða. Ég hugsa að það hafi frekar fjölgað en fækkað í ríkisgeiranum. En ég mun gefa nánari upplýsingar þegar tölulegar upplýsingar liggja fyrir og af meiri nákvæmni en ég treysti mér til á þessu augnabliki.