05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2642 í B-deild Alþingistíðinda. (2119)

269. mál, niðurskurður og sparnaður í ráðuneytum og stofnunum

Stefán Benediktsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt. Í sambandi við það að fara í kringum áform ríkisstj. í sparnaði í ríkisrekstri langaði mig til að spyrja hæstv. fjmrh. hvort hann telji það krók eða beina leið til lausnar í sparnaðaráformum að hækka þjónustugjöld sín um 50%, eins og framkvæmdadeild Innkaupastofnunar ríkisins gerði, úr 2% í 3% til að mæta áformum í sparnaði.

Ég held annars að í síðustu orðum hæstv. ráðh. hafi hugsanlega verið lagður á borðið sá vandi sem ráðamenn þessarar þjóðar ekki geta leyst þegar talað er um sparnað í ríkisrekstri. Hæstv. ráðh. sagði að þótt lagðar væru niður stofnanir kæmu aðrar í staðinn. Ég held nefnilega að menn þurfi að byrja á að hugsa hlutverk ríkisins að nokkru leyti upp á nýtt með það fyrst og fremst í huga að leita allra færra leiða til að leysa það þjónustuhlutverk sem ríkið hefur og vill taka sér á hendur án þess að farið sé út í kostnaðarsamar fjárfestingar eða mikið mannahald, þ.e. þjónustan, markmiðið, skipti höfuðmáli en ekki það að byrja á því að byggja stofnun sem síðan verður vandamál að fylla.