23.10.1984
Sameinað þing: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 385 í B-deild Alþingistíðinda. (212)

34. mál, fjáröflun til íbúðalánasjóða

Félmrh. (Alexander Stefánsson):

Herra forseti. Svör við fsp. á þskj. 34 frá hv. 8. landsk. þm. vil ég gefa á eftirfarandi hátt:

1. Hver er staða Byggingarsjóðs ríkisins nú varðandi fjáröflun, sundurliðað á þann hátt sem hér kemur fram? Vegna framlaga og skatttekna. Skv. þeim upplýsingum sem liggja fyrir frá Húsnæðisstofnun er búið að greiða Byggingarsjóði ríkisins 181 millj. kr. af 200 millj. framlagi í gildandi fjárlögum.

Frá lífeyrissjóðunum: Skv. lánsfjárlögum eiga lífeyrissjóðir að kaupa skuldabréf af Byggingarsjóði ríkisins að fjárhæð 525.4 millj. kr. Í lok sept. s.l. höfðu sjóðirnir keypt fyrir 251.2 millj. og eiga því eftir að kaupa fyrir 274 millj. til áramóta.

Í sambandi við skyldusparnaðinn sem er c-liður fsp.: Skv. lánsfjárlögum átti framlag skyldusparnaðar til Byggingarsjóðs að vera 45 millj. kr. Í endurskoðaðri áætlun Húsnæðisstofnunar í byrjun ársins var skyldusparnaður hins vegar áætlaður neikvæður um 30 millj. kr. og skv. lögum nr. 43/1984, um ráðstafanir í ríkisfjármálum o.fl., var Byggingarsjóði veitt erlent lán í stað skyldusparnaðarframlagsins að fjárhæð 75 millj. kr.

Úr Atvinnuleysistryggingasjóði: Skv. lánsfjárlögum átti Atvinnuleysistryggingasjóður að veita Byggingarsjóði lán að fjárhæð 115 millj. kr., en vegna fjárhagsvanda Atvinnuleysistryggingasjóðs var Byggingarsjóði skv. lögum nr. 43/1984 veitt erlent lán að upphæð kr. 115 millj. kr. Auk þessa hefur Atvinnuleysistryggingasjóður keypt skuldabréf af Byggingarsjóði fyrir 15.6 millj. umfram lánsfjárlögin. Hins vegar vil ég geta þess hér að skyldusparnaður er áfram neikvæður og má reikna með að ríkissjóður verði að aðstoða Byggingarsjóð, ef svo heldur fram sem horfir til áramóta, um 50–60 millj. kr.

Vegna annarra lána vil ég geta þess að skuld Byggingarsjóðs ríkisins við Seðlabanka Íslands, sem myndaðist vegna yfirdráttar í byrjun árs, var breytt yfir í langtímalán í júnímánuði s.l, samtals 195.6 millj. kr., sem eykur þar með útlánagetu sjóðsins í ár.

Spurning nr. 2: Hver er staða Byggingarsjóðs verkamanna nú varðandi fjáröflun a) vegna framlaga og skatttekna? Svar: Af 200 millj. framlagi úr ríkissjóði skv. fjárlögum eru komnar inn í sjóðinn í lok septembermánaðar 162 millj. kr. B) frá lífeyrissjóðum: Fyrstu níu mánuði ársins hafa lífeyrissjóðirnir keypt skuldabréf af Byggingarsjóði verkamanna fyrir 104.2 millj. af þeim 164.6 millj. sem eru áætluð heildarkaup lífeyrissjóðanna í lánsfjárlögum.

Þriðja spurning: Hefur verið staðið við fyrirhugaðar lánveitingar úr íbúðalánasjóðunum það sem af er þessu ári? Ef svo er ekki, hvaða áform eru uppi um úrbætur?

Skv. hefðum og venjum, eins og Húsnæðisstofnun orðar það, ættu þeir sem gerðu fokhelt í júlí að vera búnir að fá sín frumlán. Í dag er búið að afgreiða fyrsta hluta til þeirra sem gerðu fokhelt í apríl og eru að skipta um íbúð og frumbyggjar sem gerðu fokhelt í júlí hafa fengið sinn fyrri hluta. Rúmlega mánaðar dráttur hefur verið á lánum til þeirra sem eiga að fá annan og þriðja hluta. Þær umsóknir um lán til kaupa á notaðri íbúð sem bárust á tímabilinu frá 1. jan. 1984 til 30. mars 1984 hefðu átt skv. venjum að koma til afgreiðslu í þessum mánuði, októbermánuði, en það hefur ekki orðið enn. Hins vegar vil ég geta þess hér, þó að það komi ekki beinlínis fram í þessum spurningum og kemur væntanlega frekar fram í svörum við spurningum frá hv. 5. þm. Reykv., sem ég mun svara hér á eftir, að heldur hefur lagast ástandið í peningamálum. Ríkisstj. hefur ákveðið að standa við gefin fyrirheit um fjármagn skv. lánsfjárlögum og af sérstakri fjárútvegun skv. lögum, 200 millj. sem var búið að greiða af á fyrri hluta ársins 40 millj. úr ríkissjóði, hefur fjmrn. nú greitt Byggingarsjóði ríkisins 160 millj. sem verða til lánaafgreiðslu strax og verkfall leysist. Eins og hv. þm. vita hefur yfirstandandi verkfall gert það að verkum að allar afgreiðslur og bréfaskriftir frá þessari stofnun eins og öðrum hefur stöðvast.

Fjórða spurning hv. þm. er þannig: Er tryggt að fyrrnefndir lánasjóðir hafi nægilegt fjármagn til eðlilegra fjárveitinga það sem eftir er ársins?

Það er erfitt að svara þessari spurningu beint, en eins og ég áður sagði hefur verið gert ráð fyrir að sjóðirnir fái fjármagn til útlána það sem eftir er ársins, þannig að við lánsfjárlögin verði staðið. Það er það sem að okkur snýr í dag. Að sjálfsögðu er fjárþörfin talsvert miklu meiri, sem allir geta séð miðað við að umsóknir um lán hafa farið langt fram úr þeim áætlunum sem Húsnæðisstofnun gerði á sínum tíma, og þýðir það að hluti af umsóknum fá ekki afgreiðslu fyrr en á næsta ári.