05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2642 í B-deild Alþingistíðinda. (2120)

269. mál, niðurskurður og sparnaður í ráðuneytum og stofnunum

Björn Dagbjartsson:

Herra forseti. Aðeins örstutt um fsp. hv. 1. landsk. þm. Í því tilfelli sem ég ræddi um var ekki um neina aukafjárveitingu að ræða, heldur en sú stofnun, Rannsóknastofnun fiskiðnaðarins, með nokkra sérstöðu að því leyti, eins og reyndar fleiri stofnanir, að hún getur aflað sér tekna frá þeim atvinnuvegi sem hún þjónar í meira mæli en gert hefur verið. Í þessu tilfelli var það svo, að milli áranna 1983 og 1984 uxu tekjur frá því að vera um 26% af fjárveitingu upp í það að vera um 33% af fjárveitingu á árinu 1984. Þannig var, hvort sem það telst, eins og ég orðaði það, að fara í kringum þessi fyrirmæli eða ekki að starfsmönnum fækkaði ekki við þetta, en reksturinn varð að sjálfsögðu í krónutölu þó nokkru hærri en á fjárlögum stóð.

Það eru svo mörg vel þekki dæmi um það, að þegar stofnanir standa frammi fyrir því að eiga ekki fé til að standa undir sínum rekstri upphefst leit að aðilum til að þrýsta á kerfið vegna skorts á þjónustu. Þetta tekst iðulega, enda eru þess mýmörg dæmi að látið er undan kvörtunum og þrýstingi um skort á þjónustu sem stafar af því að stofnanir telja sig ekki hafa eða hafa ekki fjárveitingu til að standa undir þeirri þjónustu sem þeim er ætlað að sinna skv. lögum, sem einhver hefur sett einhvern tíma og ekki hugsað hvernig ætti að fjármagna.