05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2644 í B-deild Alþingistíðinda. (2122)

270. mál, aukafjárveitingar

Fyrirspyrjandi (Kristín S. Kvaran):

Virðulegi forseti. Í umr. um fjárlagafrv. 1984, svo að ég vitni aftur í hana, sem fram fór í okt. 1983, kom fram í máli hæstv. fjmrh. að við undirbúning fjárlaga hefði meginmarkmið við fjárlagagerðina verið að gera fjárlögin að raunhæfu marktæku plaggi á ný, eins og það var kallað, gagnvart þeim aðilum sem fjárveitingu njóta skv. fjárlögum. Orðrétt sagði hæstv. fjmrh.:

„Á síðustu árum hefur því farið víðs fjarri að fjárlögin hafi verið raunhæf, þótt í ár hafi tekið út yfir allan þjófabálk að þessu leyti, þegar margar stofnanir og ráðuneyti voru búnar með fjárveitingu alls ársins löngu fyrir mitt ár.“

Áfram, með leyfi hæstv. forseta: „Hefur þetta ástand leitt til þess að hjá einum manni, fjmrh., hefur safnast mikið óeðlilegt geðþóttavald. Þetta vald birtist í aukafjárveitingum sem fjmrh. hefur vald til að heimila. Með þessu valdi er Alþingi í raun svipt hluta fjárveitingavaldsins þótt seint um síðir sé flutt frv. til aukafjárlaga sem í raun er ekki hægt að gera breytingar á. Í þessu efni er mál til komið að spyrna við fótum og takmarka þetta óþingræðislega vald. Áhrifaríkasta leiðin til þess er að setja ríkinu raunhæf fjárlög, eins og stefnt er að með þessu frv.“

Ég efast ekki um góð áform og vegna framangreindra upplýsinga um hve raunhæft og marktækt þetta plagg, fjárlögin, átti að vera og að hæstv. fjmrh. ætlaði að afsala sér því sem hann nefndi óeðlilegu geðþóttavaldi, sem birtist í aukafjárveitingum hæstv. forvera hans í embættinu, og síðast en ekki síst vegna ummæla hans um að vilja flytja þennan hluta fjárveitingavaldsins til baka inn á Alþingi til þess að takmarka sitt eigið óþingræðislega vald, þá spyr ég eftirfarandi spurninga:

„Hafa ráðuneyti eða stofnanir fengið aukafjárveitingar árið 1984? Sé svo, hve miklar eru þær samtals og hvernig skiptast þær á ráðuneyti og stofnanir?“