05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2650 í B-deild Alþingistíðinda. (2131)

270. mál, aukafjárveitingar

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Ég vil með leyfi forseta upplýsa hv. 8. landsk. þm. að þær tölur sem hún minntist á voru annars vegar framlag, eins og lög gera ráð fyrir, frá Fríhöfninni til ferðamálaráðs, hins vegar kostnaður vegna samninga við Alusuisse. Ég vona að þetta séu þá nægjanlegar skýringar. (KolJ: Sem ekki var gert ráð fyrir áður.)

Vegna þess að hér hafa komið fram fsp. frá hv. 3. þm. Reykn. vil ég biðja forseta að leyfa mér að svara þeim eins og ég get. Ég skal vera stuttorður. Fyrst spyr hv. þm. hve margar afgreiðslur í aukafjárveitingum hafi átt sér stað 1983. Því get ég ekki svarað hér en að upphæð nálguðust þær 3000 millj. Hve margar afgreiðslur voru 1984, ef það er það sem hv. þm. átti við, þá er ég ekki með það að sjálfsögðu, ég er ekki undirbúinn undir það að svara því. En ég gaf þær upplýsingar áðan úr þessum ræðustól að ég hef á þriggja mánaða fresti gefið þingflokksformönnum eða fulltrúum þeirra, sem hafa komið á minn fund og átt þar góða fundi með hagsýslustjóra og forstöðumönnum gjaldadeildar, öll þau gögn sem þarf til að telja þetta saman, þannig að það liggur hjá þingflokkunum eins og er. Ég get útvegað það, ef óskað er eftir því sérstaklega, en að sjálfsögðu gerir hv. fyrrv. ráðh. ekki ráð fyrir því að ég standi hér með þær upplýsingar.

Og hvernig skiptist það á ráðherra? Ég veit ekki hvort hæstv. forseti gefur mér tíma til að lesa aftur upp þau svör sem ég gaf hér í upphafi. En ég skal láta taka afrit af svörum mínum, því að þar er bæði sundurliðað á rn. og svo aftur eftir flokkun. Þetta las ég upp hér áðan og ef hv. þm. gerir sig ánægðan með það að ég gefi honum afrit af þessu þá skal ég með ánægju gera það, nema forseti leyfi mér að lesa það upp aftur. (Forseti: Ég hygg að það sé nægilegt að hafa farið með þessar upplýsingar einu sinni á fundinum og með tilliti til þess að það er í raun og veru komið út yfir tímamörk sé ástæðulaust að fara yfir það aftur.) Já, ég gerði ráð fyrir því, virðulegur forseti. Ég hef þá lokið máli mínu og vona að ég hafi svarað þeim fsp. sem til mín var beint.