05.02.1985
Sameinað þing: 44. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2651 í B-deild Alþingistíðinda. (2135)

264. mál, framhaldsskólar og námsvistargjöld

Fyrirspyrjandi (Þórður Skúlason):

Herra forseti. Á þskj. 442 hef ég borið fram fsp. til hæstv. menntmrh. um kostnaðarhlutdeild sveitarfélaga í byggingu og rekstri framhaldsskóla og innheimtu námsvistargjalda. Ástæðan er auðvitað hið mikla misrétti sem þessir þættir, kostnaðarhlutdeildin og námsvistargjöldin, valda milli sveitarfélaga og byggðarlaga í landinu eftir því hvers konar framhaldsskólar eru reknir í byggðarlögunum. Hinu mætti þó eflaust leiða rök að að þau byggðarlög búi við skarðastan hlut sem enga aðstöðu hafa til framhaldsnáms. Því má búast við spurningum sem þessum hér á hv. Alþingi þar til þetta misrétti hefur verið leiðrétt með löggjöf.

Báðar þessar spurningar tengjast fyrirkomulagi á framhaldsmenntuninni í landinu sem nú er stýrt eftir mismunandi og ólíkum lagabálkum, m.a. eftir því hvort um er að ræða bóknám eða iðnnám. Fyrrv. menntmrh. munu ítrekað hafa lagt fyrir Alþingi frv. til laga um framhaldsskóla sem ekki fengust afgreidd. Þar mun hafa verið gert ráð fyrir að samræma þessa þætti og eflaust hafa þessi frv. batnað við ítarlega yfirferð og endurskoðun. Þó virðist svo sem núverandi hæstv. menntmrh. hafi gefist upp við að ná fram samræmingu á málefnum framhaldsskólans með einni heildarlöggjöf, sem þó er mjög aðkallandi, bæði að áliti skólamanna og annarra. Það er að sjálfsögðu ekki síst mikilvægt að samræma námið og tryggja nemendum sem opnastar leiðir að lokamarki þó þeir kunni að flytjast af einni námsbraut á aðra, frá bóknámi í verknám eða öfugt eða þó þeir þurfi að skipta um skóla á meðan á námi stendur. Trygging verður að vera fyrir því að námsáfangar nýtist frá einum skóla til annars.

En fram bornar spurningar eru ekki eingöngu bornar fram til að vekja athygli á nauðsyn þess að komið verði á samræmdri löggjöf um framhaldsskóla vegna kennslufræðilega þáttarins. Samræming á kostnaðarþættinum er ekki síður mikilvæg og hún er nauðsynleg til að leiðrétta það mikla misrétti sem nú er við lýði milli sveitarfélaga og byggðarlaga eftir því hvers konar framhaldsskólar eru reistir og reknir í byggðarlögunum. Til að rökstyðja það nánar vil ég nefna örstutt dæmi.

Ef ákveðið er að reisa menntaskóla á tilteknum stað þá kostar ríkissjóður þá framkvæmd 100%. Á það jafnt við um byggingu skólahúsnæðis og heimavistar. Menntaskólarnir eru einnig reknir alfarið af ríkinu. Sé hins vegar í næsta byggðarlagi tekin um það ákvörðun að byggja og reka fjölbrautaskóla gilda um það allt aðrar reglur. Þá geta sveitarfélög þurft að greiða allt að 50% af byggingarkostnaði og verulegan hluta af rekstrinum.

Þrátt fyrir þessa gífurlegu og óeðlilegu mismunun hafa sveitarfélög víða um land tekið þá ákvörðun að reisa og reka fjölbrautaskóla. Fyrst og fremst hefur það verið gert til að mæta brýnni þörf fyrir framhaldsnám á svæðinu, en auðvitað hefur hugsunin einnig verið sú að færa námið heim í byggðarlagið. Mönnum hefur sem sagt verið ljós sú staðreynd að uppbygging og rekstur skóla hefur gríðarlega mikla þýðingu fyrir byggðarlagið og sá kostnaður, sem út er lagður, skilar sér á margan hátt aftur með beinum og óbeinum hætti.

Það er fyrst og fremst þessi staðreynd sem dreifbýlismenn hafa haft í huga þegar þeir mótmæla harðlega innheimtu Reykjavíkurborgar á námsvistargjöldum. Það hefur gegnum tíðina verið hlutverk allra landsmanna að byggja upp góða menntunaraðstöðu hér í höfuðborginni, sem auðvitað er ekki nema sjálfsagður hlutur. En það hefur gjarnan gleymst að tíunda þann ávinning sem borgin sem slík hefur haft af þeirri sérstöðu að vera skólabær fyrir allt landið. Þess vegna er það óréttlátt að skuldbinda önnur sveitarfélög til þátttöku í rekstrarkostnaði skóla hér á höfuðborgarsvæðinu vegna þeirra nemenda er hingað þurfa að sækja nám vegna aðstöðuleysis í heimabyggðum.

Sveitarstjórnir og landshlutasamtök þeirra hafa ítrekað mótmælt því mikla misrétti milli byggðarlaga, sem stutt er núgildandi lögum og reglum um framhaldsmenntunina og fer eftir því hvort um er að ræða menntaskóla eða fjölbrautaskóla, jafnframt því sem gerð hefur verið krafa um að hætt verði að innheimta námsvistargjöld, enda lagastoð þeirrar innheimtu hæpin að ekki sé meira sagt. Þetta misrétti þarf að leiðrétta sem fyrst með samræmdum reglum um þátttökukostnað sveitarfélaganna í allri framhaldsmenntuninni og afnámi námsvistargjaldanna. Það er fullkomið réttlætismál. Hins vegar mun það hafa komið áður fram hjá hæstv. menntmrh. að ekki sé á döfinni að leggja fram samræmda heildarlöggjöf um framhaldsskóla á næstunni. Þess vegna spyr ég hæstv. ráðh.:

1. Má vænta þess að menntmrn. beiti sér fyrir samræmingu laga um kostnaðarhlutdeild sveitarfélaga í byggingu og rekstri menntaskóla annars vegar og fjölbrautaskóla hins vegar?

2. Er breytinga að vænta á afstöðu rn. til innheimtu svokallaðs námsvistargjalds?