05.02.1985
Sameinað þing: 45. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2656 í B-deild Alþingistíðinda. (2142)

97. mál, heimaöflun í landbúnaði

Flm. (Páll Pétursson):

Herra forseti. Á þskj. 101 höfum við Björn Dagbjartsson og Steingrímur Sigfússon leyft okkur að flytja till. til þál. um heimaöflun í landbúnaði. Tillgr. hljóðar svo:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að skipa nefnd er geri um það tillögur hvernig koma megi við aukinni heimaöflun og hagkvæmni í landbúnaði.

Nefnd þessi skal sérstaklega gera tillögur um eftirfarandi þætti:

1. Hvernig komið verði á auknum hagfræðileiðbeiningum og bændur aðstoðaðir svo sem verða má við það að lækka reksturskostnað búanna og lækka framleiðslukostnað landbúnaðarafurða.

2. Hvernig staðið verði að áætlanagerð um bætta ræktun þar sem það er talið nauðsynlegt og að bætt verði aðstaða til fóðurverkunar.

3. Hvernig heppilegast verði staðið að hagnýtingu hlunninda þar sem þau er að finna, svo sem veiðiskapar, jarðhita, reka, æðarvarps og skógarnytja.“

Þessi till. er flutt í framhaldi af ályktun síðasta Búnaðarþings, 1984, en þar sagði m.a. í ályktun: „Nú þegar framleiðslutakmarkanir hafa verið settar á helstu afurðir landbúnaðarins er mikilvægt fyrir afkomu búanna að bæta heimafengið fóður og bæta gæði þess og verkun. Jafnframt því er brýnt mál að leita allra leiða til þess að draga úr rekstrarkostnaði og um leið að nytja öll þau hlunnindi sem hver bújörð hefur möguleika á að hagnýta.“

Þessi ályktun var gerð á Búnaðarþingi í tilefni af till. er Gísli Pálsson bóndi á Hofi, Sveinn Jónsson bóndi á Kálfskinni og Sveinn Jónsson bóndi í Flatatungu fluttu þar á þinginu.

Höfuðþættir heimaöflunar eru þrír, þ.e. nýtanlegar auðlindir á viðkomandi jörð ásamt vinnuafli því og þeirri þekkingu sem til staðar er. Því eru að sjálfsögðu takmörk sett að hve miklu leyti er hægt að nýta verðmæti búsins án aðkeyptra fanga, véla, áburðar, kjarnfóðurs og byggingarefnis, en æskilegt er að nýta sem best þá möguleika sem á búinu eru til framleiðslu, en spara fremur aðkeypt aðföng.

Íslensk bændastétt á við mikla erfiðleika að etja. Samdráttur í framleiðslu hefðbundinnar búvöru vegna markaðserfiðleika er mikill og efnahag margra bænda er stefnt í tvísýnu þar sem ekki kemur í mörgum tilfellum neitt í staðinn fyrir þann samdrátt sem verður í hefðbundinni búvöruframleiðslu. Þess vegna er það brýnt að ýtrustu búmennsku sé gætt í hvívetna og er eðlilegt að stjórnvöld veiti bændum aðstoð við að finna leiðir til þess að brjótast út úr yfirstandandi erfiðleikum.

Því er oft haldið fram að Ísland sé erfitt landbúnaðarland. Þetta er ekki rétt. Hér er kjarnmikið fóður og grasrækt er auðveld. Búfé landsmanna er eðlisgott og talsvert ræktað og á að geta þrifist og skilað góðum afurðum á hóflega nýttum beitilöndum ásamt heimafengnu og vel verkuðu fóðri. Þannig ætti framleiðslukostnaður að geta lækkað og gjaldeyrir mundi sparast ásamt því sem nýttir yrðu möguleikar til hagkvæms útflutnings iðnaðarvara úr búvöru og hugsanlegir sölumöguleikar á dilkakjöti.

Þá eru á mörgum jörðum ónýtt eða lítið nýtt verðmæt hlunnindi sem gætu mjög treyst búsetu með skipulegri og hagkvæmri nýtingu, en til þessa þarf auknar leiðbeiningar, bæði hagfræðilegar og tæknilegar. Nokkuð hefur verið unnið að hagfræðileiðbeiningum í landbúnaði, en þar er mikið verk óunnið sem nauðsynlegt er að hefjast handa um. Á vegum Búnaðarfélagsins hefur verið unnið árangursríkt leiðbeiningarstarf með atbeina stjórnvalda, en betur má ef duga skal.

Landbúnaðurinn hefur, eins og menn vita, mjög mikið þjóðhagslegt og menningarlegt gildi og mun hafa það áfram þrátt fyrir tímabundna erfiðleika. Við flm. teljum að heimaöflun og hagkvæmni búanna sé farsælasta leiðin til þess að skapa sveitafólki góða afkomu og trú á framtíð landbúnaðarins.

Við flm. höfum kosið að einskorða till. þessa við heimaöflun í landbúnaði, en heimaöflun getur víðar átt við en þar. Sú hugsun að nýta þá möguleika sem fyrir hendi eru á hverjum stað fremur en að kaupa dýr aðföng getur átt fyllsta rétt á sér og stuðlað framar flestu öðru að því að tryggja efnahagslegt sjálfstæði og velmegun.

Eitt af því sem mjög hefur farið úrskeiðis á síðustu árum hér í þjóðfélaginu er hve ójafnvægi hefur aukist í byggð landsins. Fólk hefur flutt frá framleiðslusvæðunum í kjölfar minnkandi afla og samdráttar í landbúnaðarframleiðslu til suðvesturhornsins. Fólkið sem hafði atvinnu sína af því að vinna úr sjávarfangi og landbúnaðarframleiðslu hefur ekki lengur sömu verkefni og fyrir fimm árum úti á landsbyggðinni og það flytur hingað á suðvesturhornið og á þátt í þeirri óheilbrigðu þenslu sem hér geisar. Það má einskis láta ófreistað til þess að snúa þessari þróun við. Heimaöflun, það að búa að sínu, getur stuðlað að því að fleiri hendur hafi hagkvæm verkefni um hinar dreifðu byggðir.

Herra forseti. Ég læt máli mínu nú lokið, en ég óska eftir því að þessi till. fái að lokinni umr. hér í dag umfjöllun í atvmn.