05.02.1985
Sameinað þing: 45. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2660 í B-deild Alþingistíðinda. (2146)

17. mál, Skipaútgerð ríkisins

Flm. (Stefán Benediktsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. á þskj. 17, þáltill. sem flestum þdm. á að vera kunnugt um hvað fjallar. Hún er ein af mörgum í röð tillagna um aðgerðir af hálfu ríkisvaldsins til þess að leggja niður eða hætta þátttöku í starfsemi sem ríkið er aðili að í dag.

Skipaútgerð ríkisins hefur í gegnum árin og þá kannske sérstaklega á seinustu 10 árum sætt þó nokkurri gagnrýni og þá af misjöfnu tilefni. En undir niðri hefur þó sjálfsagt mestu máli skipt að menn sáu ekki fram á það að hún næði tilætluðum árangri eða settum markmiðum. Tekjur og rekstrargjöld Skipaútgerðar ríkisins voru árið 1982 eins og hér segir:

Gjöld 169 millj. 657 þús. 159 kr. Af því var rekstrarkostnaður 122 millj., en vextir og afskriftir um 47 millj. Tekjur fyrirtækisins urðu af skipum, vöruafgreiðslu og fleiri póstum endanlega 83 millj. 925 þús. Halla varð því að mæta sem nam 85 millj. 731 þús. Skuldir Skipaútgerðarinnar þann 31.12.1983 voru 470 millj. og voru skuldirnar 15 millj. rúmar umfram endurmetnar eignir. Skuldirnar jukust um nærri 100% á árinu 1983, en hallinn jókst um 151%.

Skipaútgerðin, sem var rekin með 85 731 300 kr. halla á árinu 1983, á ekki fyrir skuldum og hefur ekki getað og mun ekki geta greitt afborganir lána öðruvísi en með nýjum lánum og er því í raun gjaldþrota. Væri um venjulegt fyrirtæki að ræða bæri stjórn fyrirtækisins að gefa það upp til gjaldþrotaskipta. En því er ekki til að dreifa í þessu tilviki, heldur er hér um eina af mörgum gömlum stofnunum ríkisins að ræða sem er á framfæri skattþegna.

Í umr. sem farið hefur fram um hallann á rekstri Skipaútgerðar ríkisins vill gleymast að ræða það veigamikla atriði hver tilgangurinn sé með Skipaútgerð ríkisins. Svarið við þeirri spurningu tengist náið spurningunni um það hver ríkisafskipti eigi að vera almennt. Það er almenn skoðun meginþorra landsmanna að ríkið eigi að tryggja sem jafnasta velferð þegnanna í landinu með því að sjá um heilbrigðis- og félagsþjónustu, menntun landsmanna og stór samfélagsleg verkefni eins og t.d. vegalagningu. Jafnframt því á ríkið að sjá svo um að landsmönnum sé kleift að reka atvinnugreinar sínar, hvort heldur þær eru á samvinnugrundvelli eða á grundvelli einkarekstrar, án of mikilla ríkisafskipta, en rétta fram örvandi hjálparhönd þegar með þarf án þess að fara út í beina samkeppni við framkvæmdavilja þegnanna.

Það er öllum ljóst að landsmenn sitja ekki allir við sama borð að því er varðar samgöngur. Samgöngur á landi til margra byggðarlaga eru oft ekki mögulegar mánuðum saman og þá er einungis um að ræða samgöngur á sjó eða í lofti. Flugvellir eru gjarnan fáir í slíkum héruðum og veður oft válynd og henta ekki til flugferðar. Eina lausnin er þá sú að nota sjóleiðina. Þegar þannig stendur á er eðlilegt að mínu mati að ríkið aðstoði þessi byggðarlög og tryggi þeim nauðsynlegar samgöngur. En það mun hafa verið upphaflega markmiðið með Skipaútgerð ríkisins og líka með styrkveitingum til flóabáta. Því miður virðist raunin hins vegar vera orðin sú að þetta markmið Skipaútgerðarinnar hefur gleymst. Ef marka má nýjustu fregnir frá Skipaútgerð ríkisins telur hún jafnvel hlutverk sitt felast í allt öðru en því að tryggja öryggi þegna einhverra ákveðinna landssvæða sem búa við samgönguörðugleika.

Það má t.d. minna á það að nýtt fyrirtæki, sem rís á Norðurlandi, á Sauðárkróki, og mikil bjartsýni er bundin við, byggir að mestu leyti rekstrarafkomuáætlanir sínar á því að væntanleg viðskipti þess við Skipaútgerð ríkisins fari fram á þannig verðlagi á flutningum að það er ekki nokkur leið að Skipaútgerðin geti nokkurn tíma staðið undir kostnaði með þeim tilboðum sem hún hefur gert í flutningana frá Steinullarverksmiðjunni.

Ég vil leggja áherslu á það að ég tel, eins og ég sagði áðan, eðlilegt að ríkið gegni ákveðnu þjónustuhlutverki hvað erfiðar samgöngur snertir til ákveðinna byggðarlaga. Ef menn eru sammála um það að þetta skuli gerast þannig að ríkið reki skipaútgerð, þá hljómar oft á tíðum dálítið annarlega í eyrum manns sú fullyrðing eða krafa jafnvel að slíkt sé hægt að gera hallalaust. Ég á við það að réttlætingin á rekstri Skipaútgerðar ríkisins, sérstaklega á stórkostlegum fjárfestingum sem áttu sér stað fyrir nokkrum árum þar, fólst í því að verið væri að koma Skipaútgerð ríkisins á hallalausan grundvöll. En jafnframt átti að sinna því þjónustuhlutverki sem upphaflega var markmiðið með stofnun fyrirtækisins. Ég tel að það verði að líta á hlutverk eða þjónustuhlutverk ríkisins í þessum málum þannig að samgöngur, hvort heldur eru á lofti, á láði eða á legi, verði sem jafnastar til allra hluta landsins og að ríkisvaldið hlutist til um, að svo miklu leyti sem því er fært og vilji er fyrir hendi, að slíkt verði.

Í því samhengi tel ég eðlilegt að ríkisvaldið veiti þeim stöðum þjónustu sem ekki njóta eðlilegra samgangna í lofti eða á láði. Aftur á móti er ég alls ekki sannfærður um að það þurfi endilega að gerast með því að ríkið reki skipaútgerð til þeirra hluta og mun ég kannske koma aðeins að því síðar. Ég tel að rekstur ríkisins á skipaútgerð sé ekki markmið í sjálfu sér, heldur leið að því markmiði að jafna aðstöðumun landsmanna með tilliti til samgangna. Það kann því í því samhengi, þó að það kannske heyri ekki hér beint til, að vakna sú spurning hvort ekki sé rétt að leita fleiri leiða svo sem þeirra t.d. að þjóna frekar færri stöðum en styrkja þess í stað með öðrum hætti flugsamgöngur eða aðrar samgöngur á landi þar sem slíkt hentar.

Það er af mörgum hlutum að taka þegar fjallað er um núverandi rekstur Skipaútgerðar ríkisins og kannske ekki ástæða til — vegna þess að þessi mál eru mönnum hér að mörgu leyti kunnug — að tína allt til. En ég vildi þó gjarnan nefna eitt atriði sem dæmi um það hvað ég tel litla skynsemi ríkja í rekstri þessa fyrirtækis. Á seinni árum hefur komið upp sú staða að Skipaútgerð ríkisins rekur til hliðar nokkurs konar bifreiðaútgerð ríkisins. Til þess að hagræða í rekstri, eins og það var kallað, fækkuðu þeir viðkomustöðum víðs vegar um landið en bjóða þess í stað upp á landflutninga til þessara viðkomustaða og frá og til móttakenda. Nú er það komið svo langt að það skiptir engu máli hvort þú býrð t.d. á Reyðarfirði eða á Egilsstöðum, það er jafn dýrt eða jafn ódýrt að fá vörur frá Reykjavík á báða staðina, þ.e. það kostar þig ekki sem viðtakanda neitt meira að taka á móti vörunni á Egilsstöðum en á Reyðarfirði.

Þetta þýðir að Skipaútgerð ríkisins greiðir þeim verktaka, sem í þessu tilfelli mun held ég vera kaupfélagið, kostnaðinn af flutningunum og tekur hann á sig algjörlega. Þetta er eins konar niðurgreiðsla fyrirtækisins á landflutningum. Hvað mega íbúar svæða t.d. eins og hérna á Suðurlandsundirlendi segja, sem ekki eiga þess raunar kost að fá neitt flutt til sín með skipum, um þá mismunun sem ríkið stundar með þessum hætti? Eiga þeir ekki beinlínis kröfu á því — ef þetta er skv. yfirlýstum vilja ríkisvaldsins — að flutningar til þeirra — ef þeir búa á Hvolsvelli eða í Vík í Mýrdal — séu niðurgreiddir með sama hætti og þeir flutningar sem ég var að lýsa áðan?

Það er hægt að benda á það að stór fyrirtæki í verslun gera beinlínis út á þennan lága flutningskostnað Skipaútgerðar ríkisins. Samband ísl. samvinnufélaga, sem býður upp á sama verð á nauðsynjavörum um allt land, gerir í raun og veru út á þessa jöfnun flutningskostnaðar sem gerist í gegnum flutninga Ríkisskips því að þeir flytja þetta með ríkisskipum, ekki með sínum eigin skipum. Þess eru mýmörg dæmi að þau skipafyrirtæki sem hér starfa umskipa vöru sinni, sem er á leiðinni annaðhvort að eða frá landinu, hér í Reykjavík beinlínis í þeim tilgangi að lækka endanlegan flutningskostnað vegna þess að Ríkisskip býður lægsta verð allra á flutningum frá Reykjavík milli hafna út um landið.

Það má nefna t.d. það dæmi að frá Húsavík er fluttur kísilgúr til Reykjavíkur í skipum Ríkisskips og honum umskipað þar yfir í skip annarra flutningsaðila. Í því tilfelli mun það vera þannig að sá flutningsaðili, sem tekur við hérna í Reykjavík, var hinn upphaflegi bjóðandi í verkið, bauð það síðan út til Ríkisskips og hirðir í milli um 50% af upprunalegu tilboði.

Ég held því fram að sá halli, sem skattgreiðendur verða að greiða af þessum rekstri Ríkisskips eða Skipaútgerðar ríkisins eins og ég hef verið að lýsa honum, auki endanlega heildartilkostnað á flutningum á nákvæmlega sama hátt og stærð fiskiskipaflotans eykur heildartilkostnað við öflun þess fiskjar sem við erum að veiða til að afla okkur tekna. Þess vegna tel ég að heilbrigðasta leiðin í þessari stöðu væri sú að leggja niður rekstur Skipaútgerðar ríkisins, selja eignir þessa fyrirtækis og þjóna því hlutverki sem ríkið telur sér skylt að þjóna einfaldlega með beinum framlögum til þeirra byggðarlaga sem á þessari þjónustu þurfa að halda.