05.02.1985
Sameinað þing: 45. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2662 í B-deild Alþingistíðinda. (2147)

17. mál, Skipaútgerð ríkisins

Páll Pétursson:

Herra forseti. Ég get verið stuttorður um þessa till. Á dagskrá þessa fundar eru einar 10 till. frá sama hv. þm. Stefáni Benediktssyni um það að leggja niður ríkisstofnanir. Þetta eru flestar slæmar till. og fylgja þeim snubbóttar grg. því að það hefur ekki verið lögð mikil vinna í að setja þær saman. Mér finnst það vafamál hvort ekki sé með þessum till.-flutningi verið að misnota þingsköpin. Það hefði verið eðlilegra að flytja þetta sem eitt þingmál. Hefði ég verið forseti hefði ég hugleitt það vandlega hvort ekki mætti koma því þannig fyrir eða hvort ástæða væri til að heimila málflutninginn í þessu formi.

Að sjálfsögðu tekur þetta mikið af fundartíma þingsins. Við þurfum að hafa í heiðri málfrelsi og tillögurétt en ég held að hér sé alveg farið á ystu nöf.

Ég er á móti þessum till. öllum. Sumum þessum stofnunum þarf að breyta verulega og ég get vel staðið að því að leggja það til. En allar sinna þessar stofnanir nauðsynlegum störfum og þjóðfélagið gengur ekki eðlilega nema með tilvist slíkrar starfsemi. Ég tel að það þurfi að endurskipuleggja Skipaútgerðina og það sé mjög brýnt verkefni að endurmeta stöðuna og endurskipuleggja þessa starfsemi. Þessi starfsemi þarf að vera fyrir hendi og ég sé ekki að henni væri betur fyrir komið en með því að ríkið hefði þar hönd í bagga. Þetta fyrirtæki, Skipaútgerðin, er ákaflega mikilvægt fyrir þær byggðir sem aðrir þjóna ekki. Það er ósköp þægilegt að standa hér í ræðustól og segja að hægt sé að annast flutninga með öðru móti og það væri hægt að fara á bílum á milli staða, það háttar bara ekki alls staðar svo til — (Gripið fram í: Það sagði ég ekki.) — að það sé hægt að fara með öðrum hætti en sjóleiðina þannig að öryggi sé í flutningi. Hv. flm. gerði mál úr því að þetta fyrirtæki yrði til jöfnunar á flutningskostnaði. Mér finnst það vera af hinu góða að flutningskostnaður sé sem jafnastur og ég vil stefna að sem jafnastri lífsaðstöðu þegnanna hvar sem er á landinu. Ég er sem sagt á móti þessari till.