05.02.1985
Sameinað þing: 45. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2663 í B-deild Alþingistíðinda. (2148)

17. mál, Skipaútgerð ríkisins

Stefán Valgeirsson:

Herra forseti. Það væri raunar ástæða til þess að halda nokkuð langa ræðu um þetta mál vegna þess að þetta mál segir í sjálfu sér töluvert um það hvernig hv. flm. hugsar í sambandi við þetta mál og ýmis önnur sem hann hefur hér flutt í Sþ. Ég ætla ekki að eyða löngum tíma vegna þess að hér er fátt inni og áliðið dags. En ég vil bara undirstrika það að allir gömlu stjórnmálaflokkarnir komu sér saman um það og gáfu út tilkynningu um það að þeir ætluðu að reyna að minnka aðstöðumuninn í þjóðfélaginu með ýmsum hætti. Þó að lítið hafi enn þá verið gert svo ég viti til að rannsaka það með hvaða hætti á að gera þetta, þá liggur þetta fyrir og hlýtur að verða krafist af þm. að þessi könnun fari fram, hvernig eigi að fara að þessu.

Ef þessi till. hefði verið á þann hátt að Alþingi ályktaði að skora á ríkisstj. að gera könnun á því hvort hægt væri að inna þessa þjónustu af hendi á ódýrari hátt en með Skipaútgerð ríkisins, það væri allt annað mál. En ég sé ekki betur — sérstaklega ef maður athugar þann málflutning sem flm. till. hafði í frammi — að það sé hans skoðun að leggja eigi Skipaútgerð ríkisins niður án þess að þessi könnun fari fram. Að vísu er í till. komist svo að orði: „til að leggja megi niður starfsemi Skipaútgerðar ríkisins,“ hvað sem það táknar nú. En miðað við hans túlkun á málinu gat ég ekki skilið annað. Mér fannst það ákaflega merkilegt sem hann sagði um það að Skipaútgerðin borgaði flutninga á landi, t.d. frá Reyðarfirði í Egilsstaði. Þetta er alveg nýtt fyrir mér. Ég held að þetta sé svo mikill misskilningur sem mest má vera — (StB: Hjá þér?) — hjá hv. flm. Ég held nefnilega að Ríkisskip greiði þetta ekki niður nema ef þeir fara fram hjá höfn, fella niður að koma við í einhverri höfn, það er engin höfn á Egilsstöðum. Ég veit ekki til þess að strandferðaskipin hafi siglt upp Lagarfljótið. Ég skil ekki rökin fyrir því að þetta sé gert á þennan hátt, mér er ómögulegt að skilja það.

Hitt veit ég að ef Skipaútgerðin hefur talið sig hafa hag af því að fara fram hjá höfn og koma vöru með öðrum hætti á milli staða þá er það ekki nema eðlilegt að þeir beri kostnað af því. Ég er alveg til með að athuga alla þá möguleika sem eru fyrir hendi til að kanna það hvort hægt er að annast þjónustu á þennan hátt með ódýrari hætti en gert er. En að ætla sér að leggja niður t.d. Skipaútgerð ríkisins áður en þessi könnun fer fram, það er alveg fráleitt, það er svo fráleitt að maður er eiginlega undrandi yfir því að slíkt skuli koma hér fram á Alþingi á árinu 1985.

Ég held að þjóðin standi nú frammi fyrir því og ekki síður stjórnvöld að gera sér grein fyrir því að við höldum ekki landinu í byggð með öðrum hætti en að minnka þann mun á lífsaðstöðu í landinu. Hvernig við eigum að fara að því er langt mál og geta líka verið skiptar skoðanir um það hvernig eigi að gera þetta. En ef menn á annað borð hafa þá skoðun að þetta sé þjóðinni nauðsynlegt, — sem ég efa ekki að sé, þá verður að fara þær leiðir sem eru ódýrastar en ná þeim markmiðum sem við ætlum að ná og það ber að gera það. Ég treysti því og raunar veit það að svona till. verður ekki samþykkt hér á hv. Alþingi, enda væri illa komið fyrir þessari stofnun ef slíkt væri gert.