06.02.1985
Efri deild: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2671 í B-deild Alþingistíðinda. (2156)

243. mál, Veðurstofa Íslands

Heilbr.- og trmrh. (Matthías Bjarnason):

Virðulegi forseti. Frv. það sem hér liggur fyrir til nýrra laga um Veðurstofu Íslands er samið af starfsmönnum samgrn. og veðurstofustjóra. Gildandi lög um stofnunina eru nr. 17 frá 1958 og því meira en aldarfjórðungsgömul. Leiðir því af sjálfu sér að full ástæða er til þess að endurskoða lögin og færa þau til samræmis við nútíma aðstæður.

Um s.l. áramót voru 65 ár liðin síðan Veðurstofan tók til starfa, en það var 1. jan. 1920. Þá höfðu hefðbundnar veðurathuganir verið gerðar um langt árabil, en þær hófust 1845 eða fyrir 140 árum. Eins og að líkum lætur hefur aukin tækni og þá ekki hvað síst í fjarskiptamálum gerbreytt starfsemi og starfsaðstæðum Veðurstofunnar gegnum árin og nú síðast hefur tölvutækni rutt sér til rúms við vinnslu veðurspádóma. Með þessu frv., sem aðeins er sex greinar ásamt ákvæði til bráðabirgða, er stefnt að setningu rammalaga um stofnunina. Nánari fyrirmæli um málefni hennar og starfsemi verða síðan sett í reglugerð.

Varðandi einstakar greinar vil ég sérstaklega leggja áherslu á eftirfarandi atriði:

Í 2. gr. frv. er ákvæði um að veðurstofustjóri verði skipaður til fimm ára í senn. Þetta ákvæði er sett í frv. í samræmi við almenn viðhorf um endurnýjun í æðstu stöður, en heimilt er engu að síður að endurskipa veðurstofustjóra svo oft sem verða vill. Í bráðabirgðaákvæði með frv. er tekið fram að núverandi veðurstofustjóri haldi þó ótímabundinni skipun sinni.

Í 3. gr., sem er efnismesta grein frv., eru verkefni Veðurstofunnar skilgreind í tíu liðum. Helstu breytingar frá gildandi lögum eru þær, að gerð eru skil á þeim tæknibreytingum sem orðið hafa og Veðurstofan hefur tekið í þjónustu sína, svo sem möguleika á sjálfvirkum veðurstöðvum og upplýsingaöflun frá gervihnöttum.

Í 6. lið er um að ræða nýtt verkefni, þ.e. að gera athuganir á loft- og úrkomumengun. Mikið hefur verið leitað undanfarin ár til Veðurstofunnar um upplýsingar varðandi mengun í andrúmslofti og úrkomu, magn hennar og dreifingu. Með nýjum iðjuverum og áformum um fjölgun þeirra hefur þessi starfsemi farið vaxandi og hefur Veðurstofan starfrækt eina stöð þar sem gerðar eru mengunarathuganir svo og tekið þátt í mengunarrannsóknum að beiðni ríkisstofnana og nefnda á vegum ríkisins. Þá er rétt að geta þess að Alþjóðaveðurfræðistofnunin fer með athuganir á mengun lofthjúpsins á alþjóðavettvangi og tengist Veðurstofan því starfi skv. 9. lið 3. gr. þar sem segir að eitt af verkefnum Veðurstofunnar sé að annast samskipti við Alþjóðaveðurfræðistofnunina svo og önnur milliríkjasamskipti innan verkahrings Veðurstofunnar.

Á síðustu árum hafa augu manna opnast fyrir nauðsyn þess að fylgjast eins nákvæmlega og unnt er með snjóflóðahættu, jafnframt því sem áhersla hefur verið lögð á snjóflóðavarnir. Með bréfi samgrn. frá 11. maí 1978 er Veðurstofunni falið að annast starfsemi sem lýtur að þessum málum. Um þennan mikilsverða þátt eru engin ákvæði í lögum, en full ástæða þykir til að svo sé, sbr. 7. lið 3. gr. þar sem segir að verkefni Veðurstofunnar sé að annast mælingar á snjóalögum og rannsóknir á þeim með sérstöku tilliti til snjóflóðaliættu, gefa út aðvaranir um snjóflóðahættu og að vera stjórnvöldum til ráðuneytis um takmörkun mannvirkjagerðar á hættusvæðum snjóflóða.

Í 4. gr. frv. er ráðh. gefin heimild til að ákveða með gjaldskrá þau gjöld sem greiða ber Veðurstofu Íslands fyrir þjónustu sína. Hér er átt við ýmsa sérþjónustu. Sem dæmi má nefna að veðurstofur víða í Evrópu fá sérstaka greiðslu vegna flugveðurþjónustu og t.d. fær sænska veðurstofan greiðslu frá sænsku vegamálastjórninni og ríkisútvarpinu fyrir sérstakar veðurspár. Því þykir rétt að hafa þessa gjaldtökuheimild í frv.

Ekki þarf á þessum vettvangi að fjölyrða um þá mikilsverðu þjónustu sem Veðurstofa Íslands veitir öllum landsmönnum og raunar ekki aðeins þeim heldur er starfsemi stofnunarinnar einnig ómissandi hlekkur í veðurspárkerfi fjölmargra annarra þjóða. Höfuðatvinnuvegir landsmanna hafa haft bein not af þessari þjónustu, þ.e. sjávarútvegur og landbúnaður, en auk þess felur starfsemin í sér víðtækan öryggisþátt sem kemur öllum landsmönnum jafnt að gagni. Það er því nauðsynlegt að stofnunin hafi örugga og nútímalega löggjöf um starfsemi sína og að því er stefnt með framlagningu þessa frv.

Virðulegi forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði frv. vísað til 2. umr. og hv. samgn.