06.02.1985
Efri deild: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2674 í B-deild Alþingistíðinda. (2158)

243. mál, Veðurstofa Íslands

Haraldur Ólafsson:

Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frv. Ég held að hér sé stigið merkilegt skref í þá átt að safna saman á einn stað ýmsum mjög þarflegum upplýsingum. Hæstv. ráðh. nefndi 6. og 7. liðinn og hv. 2. þm. Austurl. tók undir með honum. Ég held að þar sé farið inn á ákaflega merkilega braut og vonandi heillaríka. En í þessu sambandi vildi ég bera upp núna í upphafi örfáar spurningar til hæstv. samgrh.

Í fyrsta lagi stendur hér í 4. gr.:

„Ráðherra ákveður í gjaldskrá þau gjöld sem greiða ber Veðurstofu Íslands fyrir þá þjónustu sem hún veitir.“

Ég vildi forvitnast um hvort þetta næði t.d. til almennra veðurfregna, sem fluttar eru í ríkisútvarpi og -sjónvarpi, hvort beri að líta svo á að þær séu efni sem stofnunin sækist eftir eða hvort hér er ekki um að ræða part af eðlilegri skyldu Veðurstofunnar. Það er í aths. vitnað til þess að ríkisútvarpið í Svíþjóð, Sveriges Radio, greiði fyrir sérstakar veðurspár. Ég held að rétt væri að fá upplýst hvernig þetta mál er hugsað.

Í öðru lagi: Ef hér rísa aðrar útvarpsstöðvar, kannske margar, sem keppa um hylli hlustenda, er þá gert ráð fyrir einhvers konar skyldu þeirra til að birta áríðandi upplýsingar frá Veðurstofunni sem geta snert almannaheill?

Hvað varðar starfsemi Veðurstofunnar, eins og hún er rakin í 3. gr., er ljóst að hún snertir fjölmargt í daglegu lífi manna. A.m.k. veit ég það frá því að ég var meira háður só1 og regni að veðurfregnirnar voru oft og tíðum það efni sem maður kannske heyrði eitt langtímum saman, en fylgdist þeim mun betur með.

Þá er það loks atriði sem skiptir e.t.v. ekki hvað minnstu máli. Þau auknu verkefni, sem mér virðist að hér séu lögð á Veðurstofuna, krefjast óhjákvæmilega meiri mannafla þótt með lögum sé að einhverju leyti verið að lögfesta ríkjandi starfsemi. Hefur rn. lagt niður fyrir sér hve mikið þarf að auka starfsemina, hve mörgu starfsfólki þarf að bæta við og hvað það muni kosta? Og sömuleiðis: Á hvaða hátt verður gengið frá ráðningarkjörum sérfræðinga og vísindamanna sem þarna er sýnilega gerð krafa um? Hvaða sérfræðingar eru það einkum sem þarna verður leitað til? Eru það veðurfræðingar, jarðeðlisfræðingar, jarðskjálftafræðingar og mengunarfræðingar eða hvað?

Þessi örfáu atriði vildi ég spyrja um í upphafi umr.