06.02.1985
Efri deild: 41. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2680 í B-deild Alþingistíðinda. (2165)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Þórður Skúlason:

Virðulegi forseti. Ég þakka fyrir að mér skuli vera leyft að segja örfá orð um þetta mál. Í sjálfu sér ætla ég ekki að hafa neitt á móti því að þessari umr. sé frestað. Mér finnst sjálfsagt að gefa mönnum betri tíma til að gaumgæfa þetta mál. En af því að ég mun ekki eiga þess kost að taka þátt í umr. um þetta síðar vegna þess að ég fer af þinginu á morgun finnst mér að ég geti ekki látið hjá líða að segja hérna örfá orð út af II. kafla frv. sem felur í sér skerðingarákvæði á allmörgum lagabálkum og þ. á m. lögum sem snerta sveitarfélögin verulega. Það eru einkum þrjú atriði í sambandi við það sem ég vildi gera að umtalsefni.

Það er þá í fyrsta lagi skerðingin á framlagi ríkissjóðs til Hafnabótasjóðs, en greint er frá því að framlag til Hafnabótasjóðs skuli ekki fara fram úr tiltekinni upphæð þrátt fyrir ákvæði laga sem fela í sér annað. Mig langar í því sambandi til að gera grein fyrir því að skv. núgildandi fjárlögum, nýsamþykktum, er gert ráð fyrir að fé til hafnarframkvæmda stórminnki frá því sem var á árinu áður. Mér býður í grun að sú skerðing sé upp í um það bil helming af umfangi framkvæmda. Til marks um það má geta þess að í mínu kjördæmi verður sennilega ekki um að ræða hafnarframkvæmd nema á einum þéttbýlisstað. Hér er um óviðunandi ástand að ræða vegna þess að hafnarsamgöngurnar eru þýðingarmikill þáttur sem þarf að huga vel að og framkvæmdir þurfa stöðugt að vera í gangi við hafnir.

Í öðru lagi langar mig til að nefna hérna ákvæðið um skerðingu á Jöfnunarsjóði sveitarfélaga sem raunverulega er einu verðtryggðu tekjurnar sem sveitarfélögin hafa. Að öðru leyti hafa sveitarfélögin tekjur sínar af t.d. útsvörum sem miðast þá við tekjur fyrra árs. Við vitum að eins og þetta er nú hafa launatekjur verulega lækkað hlutfallslega og þar af leiðandi verða tekjur sveitarfélaganna af útsvörum mun lægri á þessu ári en nemur t.d. þeim verðbólguvexti sem verður í ár. Sömuleiðis hygg ég að fari um fasteignagjöldin. Mig minnir að þau hækki milli ára um 25%, en manni sýnist allt benda til þess að verðbólgan geti orðið verulega hærri. Þessi skerðing á Jöfnunarsjóðnum kom fyrst til framkvæmda í fyrra og þá var okkur fulltrúum sveitarfélaganna sagt að hún yrði tímabundin og ekki til frambúðar, það yrði aðeins fyrir árið 1984, en hérna sé ég að gert er ráð fyrir að þessi skerðingarákvæði gildi líka fyrir árið 1985 þrátt fyrir hörð mótmæli sveitarstjórna. Á þessu vil ég hér með vekja athygli.

Í 22. gr. sé ég að gert er ráð fyrir skerðingu á framlagi til þjóðvega í þéttbýli. Ég hygg að það sé í fyrsta skipti sem það skerðingarákvæði er í frv. til lánsfjárlaga. Ég held að það hafi ekki verið áður. Hér er einnig um mjög alvarlegt mál að ræða. Ég held að það sé athyglisvert fyrir þm. að velta því fyrir sér hvernig ástandi gatnakerfisins í þéttbýli, sérstaklega í hinum minni þéttbýlisstöðum, er háttað. Það hafa m.a. komið til mín útlendingar sem voru ákaflega hissa á því að þegar ekið er um sveitina sem er rétt innan við þorpið á Hvammstanga er ekinn vegur með bundnu slitlagi, en í þorpinu eru nær allar götur ófrágengnar. Það eru ekki nema 17% af gatnakerfinu í mínum þéttbýlisstað með bundnu slitlagi. Þarna vaða menn forina og súpa rykið eftir því hvernig veðurfari er háttað. Ég hef sérstaklega orðið var við að fólk sem hefur verið mikið erlendis og útlendingar eru mjög hissa á því hvernig þessum málum er fyrir komið í þéttbýlinu, hversu gatnakerfið er langt á eftir þar.

Ég vildi nota þetta tækifæri, sem mér gefst hérna, til að vekja athygli á öllu þessu, en það eru allt saman ákvæði sem Samband sveitarfélaga hefur mótmælt harðlega. Ég þakka fyrir það tækifæri sem hæstv. forseti gaf mér til að koma á framfæri þessum ábendingum.