23.10.1984
Sameinað þing: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 390 í B-deild Alþingistíðinda. (217)

37. mál, fjárhagsstaða húsnæðislánakerfisins

Fyrirspyrjandi (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Um leið og ég þakka hæstv. ráðh. fyrir svör hans verð ég að játa að það er ekki allt sem sýnist í þeim upplýsingum sem þarna komu fram. Ég vek athygli á því að tekjustofnakerfi húsnæðislánakerfisins er skv. svörum ráðh. gersamlega hrunið. Það þarf ekki að koma mönnum á óvart vegna þess að í umr. á s.l. vetri um húsnæðislagafrv. nýja og um lánsfjárlög, þá sögðum t.d. við hv. þm. Jóhanna Sigurðardóttir í grg. með brtt. Alþfl. fyrir um það að þessi fjáröflunarleið væri fyrirsjáanlega óraunsæ og mundi leiða til fjárvöntunar sem næmi á bilinu 400–500 millj. kr. Hæstv. ráðh. staðfesti það að áætlunin um tekjustofn skyldusparnaðar er út í hött. Það gat hann sagt sér sjálfur áður. Að áætlun um Atvinnuleysistryggingasjóð, 115 millj., var út í hött, það gat hann sagt sér áður vegna þess að svo var einnig á fyrra ári. Og að áætlunin um tekjustofna frá lífeyrissjóðunum, skuldabréfakaup var út í hött, vegna þess að hún byggist á 93% aukningu frá fyrra ári á sama tíma og aukning ráðstöfunarfjár lífeyrissjóðanna var innan við 10%, enda vantar hér meira en helming.

Þá er þess að geta að sérstök fjáröflun, sem var yfirlýst af hæstv. ráðh. að skyldi vera framlag úr ríkissjóði til lánakerfisins en ekki lán, að upphæð 200 millj. kr., var, þegar 9 mánuðir voru liðnir af árinu, einungis 40 millj. En nú hefur verið læðst bakdyramegin, eftir að þessar spurningar voru lagðar fram, og skrifað upp á gúmmítékka upp á 160 millj. M.ö.o., það liggur alveg ljóst fyrir að þetta fjáröflunarkerfi er hrunið. Það skilar ekki þeim tekjum sem til var ætlast. Og hvernig er brugðist við? Jú, með því að taka erlend lán að upphæð tæplega 200 millj. kr., nákvæmlega 190 millj. kr. erlend lán. Þetta nægir til þess að sýna að hv. Alþingi verður, ef það vill leggja hæstv. ráðh. lið í að standa við fyrirheitin þegar við hugsum fram í tímann, að taka til róttækrar endurskoðunar alla þessa löggjöf, vegna þess að tekjustofnakerfið er hrunið. Við hugsum til framtíðarinnar og ég spyr: Hafa hv. þm. gert sér grein fyrir því hvernig búið er að sökkva þessum byggingarsjóðum í erlend lán? Vita hv. þm. t.d. að nú hvíla á byggingarsjóðunum báðum alls um það bil 10 lán. Ég skal telja upp nokkur:

Auknar fjárveitingar vegna viðbótarlánanna, þ.e. 50% viðbótarlánanna vegna þess ástands sem núv. hæstv. félmrh. tók við af forvera sínum, voru brúaðar með láni sem var upp á 304 millj. kr. Síðan kemur hið erlenda lán, sem ég nefndi, 190 millj. kr. Þá kemur yfirdráttur í Seðlabanka Íslands upp á 196.5 millj. kr. Síðan er um að ræða hina sérstöku fjárveitingu upp á 200 millj. kr. sem er lán frá ríkissjóði á hæstu vöxtum. Því næst er um að ræða þrjú önnur eldri lán. Alls er hér um að ræða lán sem má áætla að nemi um 890–900 millj. kr.

Og þá skulu menn ræða vaxtamun, hæstv. ráðh., þegar við horfum fram í tímann vegna þess að þetta fé er fengið á hæstu vöxtum, yfirleitt á 9.3% vöxtum, til skamms tíma, 15 ára. Það er síðan lánað út ýmist á 1% vöxtum eða 3.5% vöxtum til 26 ára eða allt að 43 ára. Ég spurði um vaxtamun að gefnu tilefni og svörin voru engan veginn fullnægjandi vegna þess að það lá fyrir í athugunum Þjóðhagsstofnunar, þegar frv. lá fyrir á s.l. vetri, að ef fram fer sem horfir mun allt ráðstöfunarfé lífeyrissjóðanna á næstu árum ekki duga til þess að brúa þetta bil þó að það væri 2.5–3 milljarðar. Þetta kerfi er gersamlega sokkið upp fyrir haus í skuldum.

Þetta eru aðalatriði málsins. Tekjustofnakerfið er hrunið og fjárhagsstaða sjóðanna er orðin svo gersamlega vonlaus vegna áhvílandi lána og vegna afleiðinga fram í tímann af þessum vaxtamun. Upphafið að þessari ógæfuþróun allri varð í tíð fyrrv. ríkisstj. þegar fastur tekjustofn af launaskatti, sem var samningsatriði á sínum tíma við verkalýðshreyfinguna, var afnuminn.

Ég vek athygli á því, að við fluttum 26 brtt. við þetta hundónýta frv. á s.l. þingi og lögðum það m.a. til að byggingarlánakerfinu væru lagðar til af ríkissjóði 517 millj. kr. Ég held að þær upplýsingar sem nú liggja fyrir sanni ótvírætt að ekki hefði af veitt. En ég vil líka minna hv. þm. á að við lögðum fram tillögur um það hvaðan þetta fé skyldi fengið og hvað skyldi skorið niður á móti.

Ég held að þessar umr. sanni alveg ótvírætt að ekki aðeins tekjustofnakerfið, ekki aðeins fjárhagur sjóðanna, heldur sú stefna eða öllu heldur það stefnuleysi sem ríkjandi er í húsnæðismálum, við það verður ekki unað mikið lengur. Hér er þjóðfélagið í algerri upplausn út af kjarasamningum. Ein krafan sem þar er á borðum manna er auðvitað fyrst og fremst sú að gerðar verði gagngerðar ráðstafanir til þess að sú kynslóð sem nú hefur verið úthýst úr þessu þjóðfélagi og gert ókleift að koma sér upp þaki yfir höfuðið, fái einhverja lausn sinna mála. Það verður ekki gert nema með því að tryggja þessu lánakerfi og þá ekki síður hinu félagslega lánakerfi trausta tekjustofna. Það er eitt af stærstu réttlætismálum sem nú eru til umr. í þessu þjóðfélagi. — Ég þakka fyrir, herra forseti.