06.02.1985
Neðri deild: 39. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2694 í B-deild Alþingistíðinda. (2175)

267. mál, stjórn efnahagsmála

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég þakka þær góðu undirtektir sem þetta frv. hefur fengið hér. Það hefur greinilega komið fram mikill vilji hjá flestum þeim þm. sem talað hafa til að leiðrétta það vandamál sem reynt er að leiðrétta með þessu frv. Má segja að þm. allra flokka hafi tekið undir þetta og lýst yfir stuðningi, flestir hverjir, við þá leið sem hér er lögð til. Því ber líka sérstaklega að fagna að margir þeirra sem fjölluðu um þetta frv. þegar það var til umr. á þingi 1982 og vissulega höfðu þá skilning á þessu vandamáli, en töldu þó ekki fært að fara löggjafarleiðina, hafa nú breytt um skoðun og telja nauðsynlegt að fara þá leið að gera þetta með lögum.

Hér verður ekki komist hjá því, herra forseti, að gera nokkuð að umtalsefni ræður tveggja hv. þm. sem hér hafa talað, þ.e. hv. þm. Friðriks Sophussonar sem talaði hér á mánudaginn þegar þetta frv. var til umr. og ekki síst að gera athugasemdir við ýmislegt af því sem fram kom hjá hv. þm. Svavari Gestssyni áðan.

Mér fannst á máli hv. 2. þm. Reykv. Friðriks Sophussonar að hann slægi nokkuð úr og í í þessu máli. Annað veifið talar hann um að óeðlilegt væri að fara löggjafarleiðina í þessu máli og sérstaklega að því er lífeyrissjóðina varðar og nefndi hann þá sérstaklega, en í hinu orðinu viðurkenndi hann reyndar vandamálið og sagði að koma yrði til móts við þá sem harðast verða úti og sérstaklega þegar litið er til langs tíma.

Að því er lífeyrissjóðina varðar, og hv. þm. nefndi þá sérstaklega, tel ég að það sé ekkert óeðlilegra að skuldbinda lífeyrissjóðina með þessum hætti, sem hér er lagt til, og verð ég að segja að þessar skuldbindingar, sem hér eru lagðar til, eru lífeyrissjóðunum örugglega léttbærari en þær skuldbindingar sem t.a.m. hv. 2. þm. Reykv. hefur staðið að, þ.e. að skuldbinda lífeyrissjóðina til að binda stóran hluta af sínu fjármagni til skuldabréfakaupa. Ef ég man rétt eru það um 1400 millj. á þessu ári. Að því er varðar lífeyrissjóðina er það einmitt tekið fram í grg. með þessu frv. og vil ég vitna í það, með leyfi forseta:

„Hvað lífeyrissjóðina snertir þá eru innlánsskuldbindingar þeirra í raun verðtryggðar samkvæmt kaupgreiðsluvísitölu og því ætti frv. ekki að hafa nein áhrif á greiðslugetu þeirra við útborgun lífeyrisgreiðslna.“

Hv. 2. þm. Reykv. og reyndar einnig hv. þm. Svavar Gestsson komu því ítrekað til skila að það væri Alþfl. sem hefði knúið fram verðtryggingarákvæðin í Ólafslögunum og mátti ráða af orðum þeirra að ófremdarástandið hjá húsbyggjendum væri af þeim sökum Alþfl. að kenna og því ekki skrýtið að Alþfl. mundi bera fram slíkt frv.

Mér fannst það nokkuð furðulegt sem fram kom í máli hv. þm. Svavars Gestssonar og ég hélt reyndar að þær raddir væru þagnaðar sem draga í efa réttmæti verðtryggingarstefnunnar og halda því raunar fram, eins og mér fannst hv. þm. gera hér, að verðtryggingarstefna væri röng og þetta væri vitlausasta ákvörðun í efnahagsmálum á umliðnum árum. Það eru aldeilis furðuleg ummæli sem fram koma í þessu máli. Þegar verið er að fjalla um verðtrygginguna og þau áhrif sem hún hefur haft á efnahagslífið m.a. með því að koma nokkuð í veg fyrir óarðbærar fjárfestingar og brask, þá er Alþfl. yfirleitt ekki nefndur. Þegar talað er um galla verðtryggingarstefnunnar, sem snúa að húsbyggjendum, fylgir því gjarnan að eigna Alþfl. þessa stefnu. En þegar kemur að kostunum er auðvitað ekki minnst á Alþfl.

Það er alveg rétt að Alþfl. barðist fyrir þeirri stefnu að koma á verðtryggingu fjárskuldbindinga hér á landi. Alþfl. er enn þeirrar skoðunar að það hafi verið rétt stefna. En það sem brást þegar verðtryggingarstefnunni var komið á var að ekki fylgdu þær ráðstafanir sem þurfti að gera til að létta hag húsbyggjenda, t.d. lenging lánstímans og hækkað lánshlutfall. Þar ber hv. þm. Svavar Gestsson töluverða ábyrgð. Hann hafði með að gera húsnæðismálin sem ráðh. í þrjú ár þannig að hann hafði valdið til að breyta lögunum, lengja lánstímann og skapa húsnæðiskerfinu það fjármagn sem til þarf til að hækka lánshlutfallið. Þar brást hv. þm. Svavar Gestsson. Vitaskuld varð ljóst þegar verðtryggingarákvæðin komu til sögunnar að þær ráðstafanir yrðu að fylgja með. Og það vil ég taka skýrt fram að á það lagði Alþfl. áherslu og fylgdi því eftir með ítrekuðum tillöguflutningi hér á hv. Alþingi.

Hv. þm. Friðrik Sophusson var að mörgu leyti sanngjarnari í sínu máli en hv. þm. Svavar Gestsson þegar hann fjallaði um verðtryggingarstefnuna og kenndi þó Alþfl. að nokkru um að því er húsbyggjendur varðar. En hann var þó það sanngjarn, og það var nokkuð merkilegt við hans ræðu, að í lok ræðunnar tók hv. þm. Friðrik Sophusson upp á því að hrósa verðtryggingarákvæðunum sem hann fyrr í ræðu sinni reyndi að koma höggi á Alþfl. fyrir gagnvart húsbyggjendum. Í ræðu sinni talaði hann til að mynda um að á Íslandi ríkti meiri jöfnuður varðandi eignir en annars staðar og auðnum hér á landi væri verulega jafn dreift miðað við okkar nágrannaþjóðir. Nú er ég ekki sammála þessum ummælum hv. þm. Það er ljóst að misréttið í eigna- og tekjuskiptingunni hefur farið verulega vaxandi. En hv. þm. sagði að jöfnun í eigna- og tekjuskiptingunni mætti að verulegu leyti rekja til þeirrar stefnu sem tekin var upp á sínum tíma þegar útlán voru verðtryggð. Þar með hefði fótunum verið kippt undan því að þeir sem væru skuldakóngar gætu tekið lán og borgað niður með krónum sem voru minna virði. Það er kannske það sem hv. þm. Svavar Gestsson hefur viljað halda áfram, að lofa skuldakóngunum og þeim sem geta braskað með fjármagn og haft aðgang að fjármagninu að valsa áfram og öðlast stóreignir fyrir niðurgreitt fé. Það er kannske það sem hv. þm. meinar þegar hann talar um að þetta sé vitlausasta ákvörðun í efnahagsmálum sem tekin hafi verið.

Mér fannst eitt furðulegt sem fram kom í ræðu hv. þm. Friðriks Sophussonar. Hann taldi að það væri mikilvægt að gera sem flesta að eignamönnum í þjóðfélaginu. Maður spyr: Hvað er orðið um frelsi það sem Sjálfstfl. berst fyrir, frelsi fyrir fólkið til þess að velja og hafna? Er það til að mynda í anda stefnu Sjálfstfl. að pína fólk nauðugt viljugt til þess að eignast húsnæði, hvort sem það vill eða ekki, hvort sem það er í stakk búið til þess að taka á sig þær drápsklyfjar sem því fylgir eða ekki? Nei, sannleikurinn er nefnilega sá að fjöldi heimila í landinu er að leysast upp vegna þeirrar stefnu sem rekin hefur verið í húsnæðismálum, vegna þess að fólk hefur ekkert frelsi og á enga valkosti í húsnæðismálum. Það er athyglisvert að bera t.d. saman eignaríbúðahlutfallið hér á landi og annars staðar á Norðurlöndum. Hér á landi er eignaíbúðahlutfallið, miðað við landsmeðaltal, um 90% á meðan það er að meðaltali á hinum Norðurlöndunum um 40–50%. Á hinum Norðurlöndunum hefur fólk nefnilega valfrelsi í húsnæðismálum sem ungt fólk hefur ekki hérna. Það hefur miklu meiri möguleika á hinum Norðurlöndunum til að ákvarða sjálft hvaða húsnæðisform það velur sér og þar eru lánakjörin miklu viðráðanlegri en þau eru hér á landi.

Herra forseti. Ég sé út af fyrir sig ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um þetta frv. Ég ítreka þakkir mínar til þeirra þm. sem hér hafa talað og tekið undir það frv. sem hér er til umr. Ég vil þó ekki fara hér úr ræðustólnum án þess að fara nokkrum orðum um það sem hv. 3. þm. Reykv. nefndi í sinni ræðu, en það er tekjuskiptingin í þjóðfélaginu og hve nauðsynlegt væri að kanna og gera úttekt á tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu. Hann beindi orðum sínum sérstaklega til hv. þm. Þorsteins Pálssonar, formanns Sjálfstfl., og spurðist fyrir um hvenær hv. þm. mundi standa við orð sín um að koma á þeirri nefnd sem hann hafði hug á til þess að gera þessa úttekt á tekjuskiptingunni og launakjörum í þjóðfélaginu. Þetta er mál sem ég hef margsinnis hreyft hér í þingsölum, og með ítrekuðum tillöguflutningi einnig, um að kannanir yrðu gerðar á tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu. Svo vill til að það liggur fyrir vilji Alþingis í þessu máli, um að það verði gerð úttekt og könnun á tekjuskiptingu í þjóðfélaginu. Sú till. var samþykkt 28. apríl 1980 og er í 15 töluliðum og fjallar um ýmsa þætti sem nauðsynlegt er að fá fram í dagsljósið til að fá upp á borðið hina raunverulegu tekjuskiptingu í þjóðfélaginu.

Hv. þm. Svavar Gestsson er nú að leita eftir því að hv. þm. Þorsteinn Pálsson standi við það loforð sem hann gaf fyrir örfáum vikum og telur að hann dragi ansi mikið lappirnar í því og það taki langan tíma að koma þessu í framkvæmd, en það furðulega er að hv. þm. Svavar Gestsson var félmrh. þegar till. var samþykkt um að fara skyldi fram úttekt á tekjuskiptingu og launakjörum í þjóðfélaginu. Hv. þm. var félmrh. frá 1980–1983 og þessi till. er samþykkt eins og ég sagði á árinu 1980. Hvers vegna notaði hv. þm. ekki sína ráðherratíð, þegar hann hafði valdið, til að gera úttekt á tekjuskiptingunni í þjóðfélaginu? Ég margspurði hann að þessu með fsp., en ég fékk alltaf loðin svör. Það var greinilegt að þáltill. var vísað til hans rn. til framkvæmda. Ég tel að nauðsynlegt sé að þetta sé upplýst hér þegar hv. þm. setur sig á háan hest í þessu máli. Hann hafði öll tækifæri til að láta þessa úttekt fara fram á sínum tíma og fara að vilja Alþingis í þessu efni.