06.02.1985
Neðri deild: 39. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2701 í B-deild Alþingistíðinda. (2178)

267. mál, stjórn efnahagsmála

Þorsteinn Pálsson:

Herra forseti. Þessar umr. hafa um margt verið athyglisverðar og fróðlegar, ekki síst fyrir þá sök að meginhluti þeirra hefur snúist um karp á milli tveggja stjórnarandstöðuflokka um núverandi stefnu þeirra og viðhorf og ekki síst um fyrri sambúð þeirra í ríkisstj.

Í annan stað hefur þessi umr. verið athyglisverð fyrir það að hún hefur gripið á mjög mörgum þáttum, húsnæðismálum almennt og peningamálastjórn í þjóðfélaginu. Það frv. sem hér er til umr. sýnist mér fjalla um sjálfvirkar skuldbreytingar á verðtryggðum lánum, bæði að því er varðar lán í bankakerfi, hjá lífeyrissjóðum og húsnæðislán. Ég tel ekki óeðlilegt að í þessu efni skoði menn sérstaklega hina einstöku lánaflokka.

Hv. 5. þm. Reykv. vék að því í ræðu fyrr við þessa umr. að frv. fjallaði einvörðungu um húsnæðismál og ekkert annað. Í sjálfu sér er það miklu víðtækara og hefur enda gefið tilefni til almennra umr. um peningamál. Ég held að það sé hins vegar full ástæða til að ræða í fullri alvöru um stöðu húsnæðismálanna í þjóðfélaginu og tek á margan hátt undir þau ummæli sem hv. þm. Ellert B. Schram viðhafði hér um þau efni og nauðsyn frumkvæðis í því að koma fram breytingum á skipan þeirra mála.

Það er grundvallaratriði í hverju þjóðfélagi að um það sé séð að fólk geti komið sér í húsnæði. Frá mínum bæjardyrum séð er æskilegast að búa svo um hnútana að velflestir geti komið sér eigin þaki yfir höfuðið. Ég held að sjálfseignarstefnan í þessu efni sé farsæl. Við höfum sýnt það. Reynsla íslensku þjóðarinnar sýnir að hún er farsæl.

Það sem hins vegar skiptir máli er að gera mönnum kleift að eignast eigin íbúðir. Ég held að við getum ekki hvikað frá því marki, sem mjög almenn samstaða hefur orðið um, að veita 80% lán til íbúðarkaupa, en þá skiptir máli á hvaða grundvelli það markmið yrði reist. Því verður ekki á móti mælt að framlög til húsnæðismála hafa verið stóraukin og tvöfölduð á þessu ári. Það sem skiptir máli og ræður úrslitum um í hvaða horfi húsnæðismálin eru er hvernig þetta fjármagn er nýtt, eftir hvaða reglum því er veitt út. Þar er á misbrestur að mínu mati. Ég held að nú þegar sé nauðsynlegt, eins og áform hafa verið uppi um, að setja takmörk á íbúðarstærð við lán, jafnvel takmörk á endurlán, og nota það fjármagn sem þannig vinnst til þess að hjálpa því fólki sem nú á sannarlega í miklum erfiðleikum varðandi greiðslur afborgana og vaxta af húsnæðislánum. Það er frumskylda stjórnvalda við þessar aðstæður að rétta þessu fólki hjálparhönd og það er unnt að gera með þessum hætti.

Ég held að það verði einnig unnt að ná 80% lánamarkmiðinu til þeirra sem eru að kaupa í fyrsta sinn ef viðmiðunarreglur eru miðaðar við hóflega íbúð og sama mark er ekki sett gagnvart endurkaupum. Í því efni verðum við einnig að hugleiða hvort og með hvaða hætti væri unnt að samtengja húsnæðislánakerfið og lán lífeyrissjóðanna sjálfra til húsnæðismála.

Þær deilur sem staðið hafa um leiguhúsnæði og eigin húsnæði eða sjálfseignarstefnu hafa auðvitað mikla þýðingu í þessu efni. Frá mínum bæjardyrum séð skiptir mestu máli að aðstaða manna sé jöfn í þessu efni. Þær kröfur sem fram hafa komið um lánafyrirgreiðslu til þeirra sem vilja búa í leiguhúsnæði og eiga þann valkost hafa lotið að því að veita því íbúðarformi sérstakan forgang umfram önnur lán. Því er ég andvígur. Ég tel að þarna eigi sömu reglur að gilda, það kosti jafnmikið að byggja hús hvort heldur sem menn eiga þá íbúð eða leigja hana. Við eigum að stefna að því að ná því marki að geta lánað 80% til kaupa á íbúð og þá gildir auðvitað einu hvort menn vilja eignast íbúðina eða komast í leiguhúsnæði. Þá er hægt að koma við sömu reglu hvort heldur menn vilja búa í eigin húsnæði eða leiguhúsnæði. Það er það markmið sem við eigum að setja okkur. Við getum hins vegar ekki gengist undir það að leiguíbúðum eða byggingu leiguíbúða verði veittur sérstakur forgangur eða forréttindi í lánakerfinu.

Hér hefur verið vikið að tveimur mikilvægum málum varðandi peningamálin, bæði vísitölubindingu og vöxtum. Vísitalan hefur meginþýðingu á tveimur samningssviðum, þ.e. annars vegar í launasamningum og hins vegar að því er varðar fjárskuldbindingar. Það er athyglisvert hversu háværar raddir og mikið fylgi hefur verið við það á Íslandi í áratugi að koma á vísitölutengingu. Helsti fræðimaður og frömuður um vísitölutengingu, áhugamaður og baráttumaður um það efni, heitir Milton Friedman. Hann er aðalbaráttumaður fyrir því að koma á vísitölutengingu á öllum sviðum, hvort heldur er á launum, launakjarasamningum eða á fjárskuldbindingum. En svo vill til að sterkustu fylgismenn þessa hagspekings eru einmitt hér uppi á Íslandi í röðum sósíalista sem annars vegar hafa barist fyrir því að viðhalda vísitölutengingu á launum og nú hin síðari ár, eftir að Alþfl. eða íslenskir sósíaldemókratar urðu helstu forsvarsmenn þess að hafa vísitölutengingu á fjárskuldbindingum. Fyrir ýmissa hluta sakir er það nokkuð skondið að íslenskir sósíalistar skuli með þessum hætti hafa gerst aðaltalsmenn einnar meginkenningar hagfræðingsins Miltons Friedmans.

Það kom hins vegar fram í ræðu hv. 7. þm. Reykv. fyrr við þessa umr. að hann vildi ekki taka afstöðu til þess hvort koma ætti á gamla vísitölukerfinu aftur að því er varðaði kjarasamninga. Það er mjög athyglisvert viðhorf að þessi einn helsti forustumaður verkalýðshreyfingarinnar skuli komast þannig að orði og viðurkenna með þeim hætti að æskilegt er að fara nýjar leiðir í þeim efnum að treysta og vernda kaupmátt launafólksins í landinu. Og auðvitað er það unnt. Með því að viðhalda stöðugleika í efnahagsmálum er unnt að varðveita og auka kaupmátt með miklu áhrifameiri hætti en gamla vísitölukerfið gerði.

Ég held líka að í fullu samræmi við þetta sé eðlilegt að afnema vísitölutengingu, a.m.k. á skammtíma fjárskuldbindingum til þriggja eða fimm ára. Það er í fullu samræmi við það að laun eru ekki vísitölutengd. Auðvitað er erfiðara um vik að því er varðar langtíma fjárskuldbindingar, sérstaklega meðan vissa um áframhaldandi verðlagsþróun er ekki meiri en raun ber vitni, fyrst og fremst fyrir þá sök að við höfum einsett okkur að verðtryggja ellilífeyri, en ein meginuppspretta fjármagns til að mynda í húsnæðiskerfinu er úr lífeyrissjóðakerfinu og ég geri ekki ráð fyrir að nokkrum manni detti í hug að raska þeirri verðtryggingu á lífeyri sem nú er komin á með því að afnema verðtryggingu á langtíma fjárskuldbindingum. Þar eru hagsmunir lífeyrisþega svo yfirgnæfandi að í því efni væri mjög varhugavert að rasa um ráð fram.

Hv. 3. þm. Reykv. vék að því í sinni ræðu hvort vísitölutenging og vextir hefðu ekki átt snaran þátt í því sem hann kallar að stuðla að meiri ójöfnuði í tekjuskiptingu en verið hefur áður í okkar þjóðfélagi. Í því sambandi er rétt að rifja upp að einmitt þegar vísitölutengingin var sett á fjárskuldbindingar, sennilega að réttu fyrir frumkvæði Alþfl. þá í ríkisstj., var hv. þm. bankamálaráðh. Sem bankamálaráðh. lét hann það yfir sig ganga að þessi vísitölutenging yrði sett á fjárskuldbindingar. Hann hefur a.m.k. metið aðstæður með þeim hætti að það væri meira virði að sitja áfram í þeirri ríkisstj. en nota afl sitt til að koma í veg fyrir að þau áform Alþfl. næðu fram að ganga.

Í þessu sambandi er einnig vert að hafa í huga að stærsti hluti sparnaðarins í bankakerfinu er á vegum einstaklinga. Atvinnufyrirtækin í landinu eru hins vegar með meginhlutann af útlánunum. Ein aðaluppspretta sparnaðar í þjóðfélaginu er svo í lífeyrissjóðakerfinu. Þann sparnað eiga launþegar. Meginhluti alls sparnaðar í þjóðfélaginu er m.ö.o. á vegum launafólksins sjálfs. Ef við hefðum hér neikvæða raunvexti værum við að flytja fjármagn frá eigendum sparifjárins í lífeyrissjóðum og bönkum yfir til þeirra sem skulda, sem að stærstum hluta til eru atvinnufyrirtæki. Raunvextir, hvort heldur þeir eru með vísitölutengingu eða nafnvaxtaákvörðunum, tryggja því hagsmuni þessara sparenda í þjóðfélaginu, hvort sem er í bönkum eða lífeyrissjóðum, og koma í veg fyrir að fjármagn sé flutt frá launafólki yfir til atvinnufyrirtækja í stórum stíl, eins og gerðist meðan vextir voru hér neikvæðir árum saman. Þess vegna held ég að svarið við fsp. hv. þm. í þessu efni sé afar einfalt og skýrt. Hann hefur enda staðið hér að flutningi frv. um verndun kaupmáttar á þessu þingi þar sem gert er ráð fyrir að vextir séu jákvæðir. Ágreiningurinn getur svo staðið um það hversu háir raunvextir eiga að vera og við getum sjálfsagt, allir alþm., tekið undir að vaxtastig er býsna hátt. En af hverju stafar það? Þá verðum við að huga að því að við höfum í mörg undangengin ár staðið þannig að stjórn okkar mála að helmingurinn af öllu lánsfjármagni í landinu á nú uppruna sinn erlendis. Þjóð sem komin er í þá stöðu að helmingurinn af öllu lánsfjármagni, sem hún hefur úr að spila, á sér uppruna erlendis er háð vaxtastigi á erlendum fjármagnsmörkuðum. Í ákaflega mörg ár hefur ríkissjóður Íslands verið einn harðasti samkeppnisaðili um sparifé. Það fer auðvitað fyrir okkur eins og öllum öðrum þjóðum sem þannig er ástatt um að slík samkeppni af hálfu ríkissjóðs um spariféð hækkar vaxtastigið í landinu. Leiðin til þess að ná vöxtum niður, en halda þó raunvöxtum, er því fyrst og fremst sú að reyna að takmarka erlendar lántökur og draga úr ásókn ríkissjóðs á hverjum tíma í þetta sparifé. Það eru leiðirnar að þessu markmiði og ég hygg að við ættum að vera nokkuð sammála um að það eru markmið og aðgerðir sem æskilegt er að stefna að.

Hv. 3. þm. Reykv. og hv. 1. flm. þess frv. sem hér er til umr. viku aðeins að till. sem fram kom af minni hálfu fyrr á þessu þingi um að sett yrði á fót sérstök nefnd til að kanna þróun tekjuskiptingar í þjóðfélaginu þannig að stjórnarflokkar og stjórnarandstaða ásamt með hagsmunaaðilum á vinnumarkaði gætu fylgst með slíku starfi og fjallað um þetta mál á grundvelli þeirra upplýsinga og þeirrar þekkingar sem út úr slíkri vinnu kæmi. Ég hef beint þessari till. til ríkisstj. Hún hefur haft hana til meðferðar að undanförnu ásamt ýmsum öðrum þáttum sem hún hefur fjallað um og ég geri ráð fyrir því að af þessari nefndarskipun verði alveg næstu daga og ríkisstj. taki á þann veg undir þessa till. og komi henni í framkvæmd, enda held ég að það sé mikilvægt fyrir þá umræðu sem nú fer fram um þessi efni og jafnframt fyrir þær umræður sem væntanlega hefjast innan ekki langs tíma og leiða eiga til lausnar á kjarasamningum á þessu ári.

Það hefur verið að því vikið í þessum umr. að eitt meginatriðið til þess að stuðla að auknum jöfnuði í þjóðfélaginu, til þess að fá fjármagn til að standa undir átaki í húsnæðismálum sé að stórauka eignarskatta. Alþfl. hefur haft frumkvæðið um tillöguflutning um þetta efni sem gerir ráð fyrir því að þrefalda eignarskatt frá því sem nú er á þann veg að fólk sem á meðaleign verði áfram eignarskattsfrjálst, en síðan komi stighækkun eignarskatts þar til þreföldun eignarskattstekna hefur verið náð. Í fljótu bragði kann kannske ýmsum að sýnast að hér sé einföld lausn á ferðinni sem muni leiða til aukins jafnræðis milli borgaranna í þessu landi. Þegar betur er að gáð er þetta auðvitað hin mesta firra.

Það er ljóst, miðað við núverandi skattleysismörk til eignarskatts, sem eru nálægt 2 millj. kr., að eignarskattshækkun af þessu tagi mundi ná til svo til allra fjölskyldna sem í dag greiða eignarskatt. Ef þessi hækkun ætti að koma jafnt niður á alla þyrfti að hækka þennan skatt um nálega 300%. Hann þyrfti að verða nálega 3%. Fjölskylda sem á eign upp á um það bil 3.5 millj. kr., góða íbúð og bíl, sem greiðir í dag um 15 þús. kr. í eignarskatt, þyrfti eftir þetta að borga um 45 þús. kr. Skatthækkunin er nálægt 30 þús. kr. á þessa venjulegu fjölskyldu. Till. Alþfl. gengur sem sagt út á að þessi venjulega fjölskylda, sem á þessa venjulegu eign, þyrfti að borga sem samsvarar góðum mánaðarlaunum til hv. þm. Jóns Baldvins Hannibalssonar ef hann fengi að ráða. Það er sú viðbótarskattheimta sem hér er verið að leggja til á hina venjulegu fjölskyldu í landinu. Ég hygg að þegar málið er brotið til mergjar með þessum hætti verði flestum ljóst að þessi leið leiðir ekki til mikillar lausnar á þeim vanda sem við er að etja. Og ef við horfum nú á atvinnufyrirtækin, sem ýmsum sýnist að sé hinn eðlilegi aðili til þess að borga aukna skatta, skulum við athuga á hvaða fyrirtækjum þessi skattbyrði mundi lenda með mestum þunga. Ef hér yrði um stighækkandi skatt að ræða þyrfti eignarskattur á atvinnufyrirtæki væntanlega að vera um 5%, þannig að eignir manna sem lentu í hæsta skattþrepi yrðu með öllu gerðar upptækar á 20 árum.

Þessi skattheimta mundi koma með mestum þunga niður á þeim fyrirtækjum sem þurfa að fjárfesta mest í hlutfalli af veltu sinni. Það eru framleiðslufyrirtækin í landinu. Það eru fiskvinnslan, útgerðin, landbúnaðurinn og iðnaðurinn. Hún mundi hins vegar koma léttast niður á versluninni, sem þarf að fjárfesta minnst í hlutfalli af veltu og tekjum. Eitt meginvandamál sjávarútvegsins á Íslandi í dag er það að eiginfjárstaða atvinnufyrirtækja í þeirri grein er léleg. Það er eitt meginvandamálið. Ein meginástæðan fyrir þeim erfiðleikum sem sjávarútvegurinn á í á Suðurnesjum, sem hér var gert að umtalsefni fyrir skömmu á hinu háa Alþingi, er sú að atvinnufyrirtæki þar hafa ekki nægilega góða eiginfjárstöðu. Og SÍS vakir auðvitað yfir slíkum atvinnufyrirtækjum á Suðurnesjum eins og víða annars staðar og veldur ótta og ógn hjá mörgum í þessu þjóðfélagi. (Gripið fram í: Þú ert ekki hræddur við það. ) Það er þessi aðstaða sem er fyrir hendi og það eru þessi fyrirtæki sem eiga að bera hita og þunga af þessu. Hvað ætli verði um atvinnuhagsmuni fólks á Suðurnesjum eða á Ísafirði, í næsta nágrenni við Alþýðuhúsið sem sjálfur leiðtoginn fæddist í?

Ég er ansi hræddur um að þegar þessi till. er skoðuð og brotin með þessum hætti til mergjar komi í ljós að hún leysir engan vanda. Hún mundi auka svo á vanda þeirra fyrirtækja sem skapa verðmætin sem við lifum á að í mörgum tilvikum mundi það leiða til rekstrarstöðvunar. Vandi þeirra nú er sá að leiðrétta eiginfjárstöðuna, bæta eiginfjárstöðu sína. Það er eitt meginatriðið í framleiðsluatvinnugreinum landsmanna. Gegn þessu snýst tillöguflutningur Alþfl. Nú geri ég ekki ráð fyrir að það sé markmið Alþfl. í þessu efni, alveg af og frá að ég haldi að það sé stefna Alþfl., að vega með þessum hætti að þessum mikilvægu atvinnufyrirtækjum. Þeir Alþfl.-menn hafa einungis sett fram till. að óathuguðu máli af því að það er unnt að nota hana í lýðskrumi á málfundum ef ekki er skyggnst undir yfirborðið. Hér þarf því að fara aðrar leiðir en þessar hugmyndir gera ráð fyrir.

Það frv. sem hér er hins vegar til umr. um sjálfvirka skuldbreytingu á lánum er athyglisvert fyrir margra hluta sakir. Ég geri ráð fyrir að það eigi sérstaklega við um húsnæðislán og teldi að það þyrfti að gera verulegan greinarmun á því hvers konar lán um er að ræða. Ég held að í fullri alvöru sé svo mikils átaks þörf nú í húsnæðismálum, til þess m.a. að viðhalda hér séreignastefnu og möguleikum fólks til þess að eignast sitt eigið húsnæði, að aðgerðir af þessu tagi í húsnæðislánakerfinu séu mjög mikilvægar og brýnar. Að því leyti tek ég undir þær hugmyndir sem hér eru uppi þó að auðvitað þurfi að kanna með ýmsum hætti tæknilegar hliðar þess máls. Hitt er svo annað mál, að hve miklu leyti eða hvort réttlætanlegt er að slík sjálfvirk skuldbreyting eigi sér stað á öðrum sviðum á fjármagnsmarkaðinum. Það þarf sjálfstæðrar athugunar við. Hitt er meginatriði að huga nú að þeim þætti er lýtur að húsnæðismálum.