23.10.1984
Sameinað þing: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 391 í B-deild Alþingistíðinda. (218)

37. mál, fjárhagsstaða húsnæðislánakerfisins

Svavar Gestsson:

Herra forseti. Mér finnst ástæða til að þakka hv. fyrirspyrjanda fyrir að hafa lagt þetta mál hér fyrir og sömuleiðis síðasta fyrirspyrjanda, hv. 8. landsk. þm, því að hér er um að ræða stórt mál. En mér finnst að í þessu sé samt nokkrum spurningum ósvarað sem er býsna mikilvægt að fá yfirlit yfir.

Hæstv. félmrh. nefndi það ekki að sú nýlunda er uppi á árinu 1984 að iðnrn. láni félmrn. eða Byggingarsjóði ríkisins peninga, ég hygg að það hafi verið 17 millj. kr., til orkusparnaðaraðgerða. Af þeim peningum eru farnir út skv. upplýsingum hæstv. félmrh. hér áðan 12.9 millj. kr. Ég vil inna hæstv. ráðh. eftir því hvort það er ekki rétt að hér sé um að ræða nýjan tekjustofn fyrir Byggingarsjóð ríkisins, að hann sæki fjármuni með þessum hætti í iðnrn., en ég tel út af fyrir sig fagnaðarefni að þessi ráðuneyti taki sig saman um aðgerðir til orkusparnaðar.

Í annan stað er vert að vekja athygli á því að á s.l. ári sagði hæstv. félmrh. aftur og aftur að framlagið til Byggingarsjóðsins úr ríkissjóði væri framlag. Nú hefur hins vegar verið upplýst að Seðlabankinn hefur skuldfært Byggingarsjóð ríkisins fyrir þessari tölu, upp á líklega um 300 millj. kr. (Félmrh.: 195 millj.) 195 millj. þetta lán, en 300 millj. kr. heildarskuldin við Seðlabankann. (Félmrh.: 195.) Sú tala kom hér fram í máli hv. 5. þm. Reykv. áðan. En allt um það, hér var Byggingarsjóði ríkisins lofað peningum, framlagi. Núna er búið að skuldfæra Byggingarsjóðinn fyrir þessari upphæð. Þegar hæstv. ráðh. ákvað að hækka lánin á s.l. ári hefði auðvitað um leið þurft að tryggja tekjustofna á móti, því að það er góður siður stjórnmálamanna, ekki síst ráðh., að ákvörðun um aukin útgjöld fylgi ákvörðun um auknar tekjur í sama skyni. Það sást hæstv. ráðh. hins vegar, yfir. Tekjurnar voru ekki tryggðar, bara útgjöldin. Útgjöldin voru tryggð, það má segja það út af fyrir sig, og í framhaldi af því hljóp ríkissjóður undir bagga. Seðlabankinn hefur nú breytt þeirri aðstoð við Byggingarsjóð ríkisins í lán upp á tæplega 200 millj. kr. Það er sem sagt ljóst að ekkert var til fyrir hækkununum sem ákveðnar voru. Seðlabankinn hefur núna lánað Byggingarsjóðnum fyrir þeim. (Forseti hringir.)

Ég ætla ekki, herra forseti, að reyna á þolinmæði forsetans og teygja mig hér yfir fyrirskipaðan ræðutíma. En ég bendi á eitt að lokum. Svarið við fjórðu spurningu hv. 5. þm. Reykv., Jóns Baldvins Hannibalssonar: Hversu margar umsóknir um lán til kaupa á eldri íbúðum liggja óafgreiddar? skildi ég svo að þar væri um að ræða seinkun á lánum, samtals annars vegar 850–900 lánum, sem hefðu átt að koma til útborgunar í október, og hins vegar 470 lánum, sem hefðu átt að koma til útborgunar í des. Samtals er hér um að ræða seinkun á 1320 lánum til fólks sem hefur treyst á þessa greiðslu, fólks sem hefur lent í vanskilum í þjóðfélaginu vegna þess að ríkisstj. hefur ekki staðið við loforð sem gefin voru, og er auðvitað stór spurning hvort þetta fólk getur ekki farið í skaðabótamál við ríkisstj. vegna þessarar framkomu.