07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2709 í B-deild Alþingistíðinda. (2184)

101. mál, afvopnun og takmörkun vígbúnaðar

Páll Pétursson:

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Þessi till. er út af fyrir sig góðra gjalda verð. Fyrri hlutinn er sjálfsagður og jafnvel seinni hlutinn líka en þó vantar e.t.v. ofurlítið meira kjöt á beinin. Það er mjög víðtækt verkefni sem þarna er lagt til að ráðist verði í og e.t.v. væri heppilegra að einbeita sér fremur að ákveðnum þáttum verkefnisins og leggja meiri áherslu á einhver einstök atriði. Þetta er mál sem menn mega ekki sýna tómlæti og ég held að ástæða sé til fyrir Alþingi að ræða meira og oftar en gert hefur verið. Þegar hefur verið getið um till. til þál. á þskj. 232 um kjarnorkuvopnalaust svæði á Norðurlöndum sem við flytjum, þm. úr öllum flokkum, og ég vona að náist um víðtæk samstaða. Ég sé ekkert á móti því að þessi till. verði sem sagt samþykkt og ástæða til þess að styðja þessa till. þeirra sjálfstæðismanna á þskj. 105 svo langt sem hún nær.