07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2711 í B-deild Alþingistíðinda. (2188)

113. mál, samanburður á launakjörum launafólks á Íslandi

Jón Kristjánsson:

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um samanburð á launakjörum og lífskjörum launafólks á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum. 1. flm. till. var Tómas Árnason og mæli ég fyrir till. í hans stað, en aðrir flm. eru hv. þm. Gunnar G. Schram, Geir Gunnarsson, Eiður Guðnason, Guðrún Agnarsdóttir og Stefán Benediktsson. Till. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. og aðilum vinnumarkaðarins að gera samanburð á launakjörum og lífskjörum launafólks á Íslandi og annars staðar á Norðurlöndum. Niðurstöður verði birtar opinberlega. Kostnaður af athugun þessari verði greiddur úr ríkissjóði.“

Eins og getið er um í grg. með till. er altítt að bera saman lífskjör hér og í öðrum löndum í umr. um kjaramál, þótt slíkur samanburður hljóti að byggjast á hæpnum forsendum ef engin skipuleg könnun liggur þar að baki. Með samþykkt þessarar till. og framkvæmd hennar mætti gera hlutlægan samanburð á launakjörum og nærtækt er að miða við Norðurlandaþjóðir þegar lífskjör eru metin vegna líkrar þjóðfélagsgerðar. Þess má og geta að lífskjör Norðurlandaþjóða eru talin ein þau bestu sem um getur í veröldinni svo að ekki er ráðist á garðinn þar sem hann er lægstur þegar samanburður er gerður.

Í grg. er bent á ýmsa þætti sem þörf væri á að skoða sérstaklega. Segir þar svo, með leyfi forseta:

„Það eru margir þættir þessa máls sem þörf væri að skoða nánar. Fyrst er að nefna samanburð á þjóðartekjum á mann, þá hlutfall launa af þjóðartekjum og hlut launafólks í hreinum þjóðartekjum og þjóðarframleiðslu. Við slíkan samanburð þarf að athuga og bera saman, ef unnt er, tekjur af eigin atvinnurekstri, þ.e. aðrar atvinnutekjur en laun sem launamenn bera úr býtum. Fróðlegur er og samanburður á hlutfalli neyslu, einkaneyslu og samneyslu, og fjármunamyndun. Þá þarf að bera saman hve lengi launafólk er að vinna fyrir launum sínum, þ.e. vinnutíma og orlof, svo og hlunnindi sem ekki teljast til beinna peningalauna. Í þessu sambandi þarf og vel að huga að mismunandi neyslumynstrum í ýmsum löndum og mismunandi skattkerfum. Atvinnuöryggi er einn allra þýðingarmesti þáttur velferðarþjóðfélags. Skattar hafa afgerandi áhrif á tekjur og lífskjör og því eðlilegt að bera þá saman, m.a. hlutfall beinna skatta og þjóðarframleiðslu og hlutfali beinna skatta heimilanna og brúttótekjur þeirra, miðað við greiðsluár.

Þá er og ýmislegt í nútímaþjóðfélagi sem fróðlegt er að gera samanburð á og gefur vísbendingar um hvernig lífskjörin eru raunverulega. Nefna má stærð íbúðarhúsnæðis, bílafjölda, sjónvarp, myndbönd, síma og e.t.v. fleiri ábendingar um lífskjörin.“

Það er fullvíst að sú kjararannsókn, sem hér er lagt til að fari fram, getur verið gagnleg, bæði fyrir atvinnurekendur, launafólk og ríkisvald. Niðurstöður þessa samanburðar mundu bregða ljósi á hvaða lífskjör við búum okkar fólki miðað við þær þjóðir sem við berum okkur saman við oftast og höfum við nánast samstarf. Geta má þess að mjög algengt er að Íslendingar stundi vinnu og búi á Norðurlöndum um lengri eða skemmri tíma. Slík könnun væri gagnleg fyrir það fólk, gæfi upplýsingar um að hverju það gengi ef það tekur þá afdrifaríku ákvörðun að flytja sig í annað land og setjast þar að um lengri eða skemmri tíma.

Ég tel af því sem að framan er sagt og kemur fram í grg. með till. að hér sé um gott mál að ræða og vona að það fái greiðan framgang hér á hv. Alþingi.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til allshn.