07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2729 í B-deild Alþingistíðinda. (2198)

158. mál, rekstrargrundvöllur sláturhúsa

Flm. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir þáltill. um könnun á uppbyggingu og rekstrargrundvelli sláturhúsa. Till. er svohljóðandi:

„Alþingi ályktar að fela landbrh. að skipa fimm manna nefnd er hafi það hlutverk að kanna framtíðaruppbyggingu, endurbætur og rekstrargrundvöll sláturhúsa í landinu.

Störf nefndarinnar beinist m.a. að eftirtöldum atriðum:

1. Gera till. um byggingu nýrra sláturhúsa og sameiningu þeirra sem fyrir eru þar sem landfræðilegar og félagslegar aðstæður leyfa.

2. Kanna áhrif hugsanlegrar svæðaskiptingar í framleiðslu og uppbyggingu sláturhúsa.

3. Kanna aukna nýtingu, tæknivæðingu sláturhúsa og hugsanleg ný verkefni.

4. Gera till. um hvernig fjármögnun skuli háttað við byggingu nýrra sláturhúsa.

Nefndin ljúki störfum fyrir árslok 1985.“

Það má spyrja hver sé tilgangur með skipun nefndar sem hér um ræðir í ljósi þess að á síðustu tíu árum hafa tvær nefndir starfað að athugun þessara mála, sú fyrri árið 1974, en hin síðari frá árinu 1979 til ársins 1980 er hún skilaði ítarlegu áliti 13. júní, prentuðu sem fskj. með þáltill. sem hér er flutt. Ástæðan fyrir þessum tillöguflutningi er sú að á þeim tíma sem liðinn er frá árinu 1980, síðustu fjórum árum, hafa aðstæður í sauðfjárbúskap gjörbreyst hér á landi. Teknar hafa verið upp beinar stjórnunaraðgerðir í framleiðslu sem hafa haft þau áhrif á kindakjötsframleiðsluna að á árunum 1979–1983 minnkaði hún um 15.3% eða 2399 tonn og fjárstofninn minnkaði um 22%. Sama þróun hélst áfram árið 1984. Skv. tölum sem upplýsingaþjónusta landbúnaðarins gaf út í nóvember s.l. fækkaði sláturfé um 67 880 dilka og um 20 þús. af fullorðnu fé frá síðasta ári og kjötframleiðslan minnkaði um 413 tonn þrátt fyrir að aukinn fallþungi vegna betra árferðis á þessu ári skilaði 529 tonnum af kjöti. Segja má að kjötframleiðslan nálgist það að framleitt sé rúmlega

fyrir innanlandsþarfir, en þá stefnumörkun hafa samtök bænda sett fram, m.a. í ályktun aðalfundar Stéttarsambands bænda frá s.l. hausti þar sem segir svo, með leyfi forseta:

„Framleiðsla landbúnaðarvara skal fullnægja, eftir því sem tök eru á, þörfum innanlands, bæði er varðar landbúnaðarafurðir til manneldis og iðnaðarframleiðslu. Framleiðsla umfram það verði í samræmi við aðstæður á erlendum mörkuðum.“

Það er því ljóst að mjög breyttar aðstæður eru varðandi rekstur og uppbyggingu sláturhúsa og full ástæða er til að fram fari könnun á málefnum þeirra þar sem tekið er mið af þessum aðstæðum sem fyrirsjáanlegt er að verði í sauðfjárframleiðslunni á næstu árum. Ástandið í málefnum sláturhúsanna er þannig að uppbygging þeirra hefur stöðvast og þau hús sem byggð hafa verið eða endurnýjuð frá árinu 1980 eiga í mjög miklum erfiðleikum og nægir að vitna þar í blaðafréttir sem voru síðla á árinu 1984 um möguleika á uppboðum á tveimur nýlegum sláturhúsum sem ókleift hefur reynst að reka sökum fækkunar sláturfjár og mikils fjármagnskostnaðar. Þannig hagar til víða um land, einkum þó á Austurlandi og Vestfjörðum, að það þarf að endurbyggja sláturhús og endurnýja þau að meira eða minna leyti. Fjöldi sláturhúsa starfar á undanþágum sem yfirdýralæknir veitir og er það ástand alls óviðunandi til lengdar. Því er nauðsynlegt að gerð sé athugun og tillögur um það hvernig að uppbyggingunni skuli staðið og hvort sameining sláturhúsa, þar sem aðstæður leyfa það, geti reynst hagkvæm. Við þessa athugun þarf að huga mjög að því hverjir möguleikar eru á því að sláturhúsin hafi verkefni sem stuðli að betri nýtingu þeirra. Við það þarf að taka mið af hugsanlegri svæðaskiptingu í framleiðslu og hvort um ný verkefni, t.d. í sambandi við nýjar búgreinar eða aukna vinnslu fyrir innanlandsmarkað, getur verið að ræða. Þá ber að kanna hvort ný tækni eða aukin tæknivæðing sláturhúsanna geti létt rekstur þeirra.

Síðast en ekki síst þarf nefndin að leggja vinnu í það verkefni að kanna með hvaða hætti fjármagnskostnaður nýrra sláturhúsa og reyndar alls þorra sláturhúsanna í landinu verði borinn uppi án þess hann komi niður á verðinu til bænda því að slíkt er alls óviðunandi. Ástandið er þannig hjá þorra sláturhúsa í landinu að þau ná ekki saman endum í rekstri sínum og er fjármagnskostnaðurinn þar höfuðorsökin, einkum í nýrri húsunum. Nýbyggingar sláturhúsa við óbreyttar aðstæður, hvað þetta varðar, eru óframkvæmanlegar. Það er full ástæða til að stjórnvöld hugi að þessum vanda.

Rekstur sláturhúsanna hefur bein áhrif á afkomu bænda, enda eru þau rekin af þeim og á ábyrgð þeirra við núverandi fyrirkomulag. Bændur hafa gert stórátak í því að minnka framleiðsluna, eins og hér hefur verið rakið. Því fylgir tekjumissir svo mikill að víða um land eiga bændur í miklum fjárhagserfiðleikum um þessar mundir. Þeir mega því ekki við tekjuskerðingu til viðbótar vegna fjármagnskostnaðar af byggingu og rekstri sláturhúsa. Þau málefni verða ekki leyst án heildarskipulags.

Þess má geta að það er einnig í þágu neytenda að góðar og vel útbúnar vinnslustöðvar landbúnaðarafurða séu í landinu. Framtíð íslensks landbúnaðar byggist á því öðru fremur að bjóða fjölbreytta gæðavöru á innanlandsmarkaði og góð meðferð varanna frá upphafi er algjör forsenda fyrir gæðum framleiðslunnar. Hér fara hagsmunir framleiðenda og neytenda því algjörlega saman.

Því er þessi till. flutt hér á hv. Alþingi að flm. finnst eðlilegt að hér sé fjallað um þessi mál og Alþingi standi að baki landbrh. í þeirri ákvörðun að láta hefja vinnu við þessi mál. Samþykkt þáltill. væri viljayfirlýsing Alþingis í þá átt að taka beri á þessum þætti landbúnaðarmálanna og uppbyggingu skuli haldið áfram og þannig að henni staðið að hún sé hagkvæm og hún sé búskap og byggð í sveitum landsins til styrktar.

Herra forseti. Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til atvmn.