07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2733 í B-deild Alþingistíðinda. (2201)

158. mál, rekstrargrundvöllur sláturhúsa

Flm. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Ég þarf ekki miklu við að bæta. Ég þakka undirtektir við þessa till. Hún er flutt til að reka á eftir þessum málum og fá fram viljayfirlýsingu frá Alþingi um að þm. vilji taka á og setja í gang athugun. Það er rík hefð í þessum atvinnuvegi og það tekur nokkurn tíma að það verði breytingar á.

Í máli síðasta ræðumanns kom fram sú skoðun að uppgjör við bændurna yrði að breytast. Ég get verið sammála þessu. Það verður að finna leiðir til að bændur geti fengið sín laun greidd strax eins og aðrar stéttir í landinu. En hér er um fjármögnunarvanda að ræða og ég hef ekki trú á því að það sé svo mikil óráðsía í rekstri sláturhúsa að hagræðing í rekstri þeirra og vinnu þar mundi ein laga þennan vanda. Hér verður að koma til lánakerfið í landinu til að gera þetta kleift, en vissulega get ég verið sammála hv. 11. landsk. þm. í því efni að höfuðnauðsyn er að bændur fái sína framleiðslu greidda um leið og hún kemur til vinnslustaðar.

Hv. 11. landsk. þm. kom inn á það að vinnuafl hefði ekki minnkað í slátrun í samræmi við fækkun á sláturfé. (Gripið fram í: Það hefur aukist um helming.) Það kann vel að vera. Ég held ég hafi tekið rétt eftir að ræðumaður hafi talað um kjötvinnslu í þessu sambandi. Kjötvinnslan hefur vissulega aukist. En þar sem ég þekki til í slátrun hefur tíminn við slátrun styst eftir því sem fénu hefur fækkað. Það hefur verið hætt að slátra á laugardögum, þannig að slátrunin hefur verið ódýrari en ella. Þar sem ég þekki til hagar þannig til að bændurnir slátra að langmestu leyti sjálfir, vinna þessi verk. Á þeim brennur að þetta sé gert á sem ódýrastan og hagkvæmastan hátt. Hins vegar er víða slátrað í gömlum og óhagkvæmum sláturhúsum og það eykur kostnaðinn við slátrunina og gerir hana óhagkvæmari. En bygging nýrra húsa, miðað við svo stuttan nýtingartíma eins og er á þessum mannvirkjum, er ókleif miðað við þann fjármagnskostnað sem nú er í landinu.

Það mætti lengja umr. mjög og fara út í fleiri atriði þessara mála því þau eru margslungin og flókin. Ég ætla ekki að gera það á þessu stigi málsins. Það gefst kannske síðar tækifæri til þess.