07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2734 í B-deild Alþingistíðinda. (2202)

158. mál, rekstrargrundvöllur sláturhúsa

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Ég ætla ekki að fara út í almenna landbúnaðarumr., en vil vekja athygli á örfáum atriðum.

Hv. 11. landsk. þm. talaði um að það hefði fjölgað við slátrun og kjötvinnslu og setti þetta í einn pakka. Þetta er í sjálfu sér mjög ónákvæmur málflutningur því það segir ekkert um það, sem er aðalatriðið, hvort fjölgað hefur við slátrunina sjálfa eða fækkað. Ég vona að við hv. 11. landsk. þm. séum sammála um að kjötvinnsluna sem slíka ber að efla. Það er vöruþróunin sem stuðlar að aukinni sölu á kjötinu. E.t.v. hefur það að einhverju leyti staðið kjötsölu fyrir þrifum að vöruþróunin hefur ekki verið jafnhröð á því sviði og t.d. í mjólkuriðnaði þó átt hafi sér stað miklar framfarir.

En ég vildi víkja nokkrum orðum að hv. 2. þm. Austurl. þar sem að hann gat þess að sláturhúsin væru engin óskaeign fyrir stofnlánadeildina eða Byggðasjóð. Það er samt svo að það er stofnlánadeildin sem gengur grimmast fram í því að láta bjóða þessi hús upp og hefur mjög svo þrjóskast við að vilja semja um að lánum sé skuldbreytt og menn fái ráðrúm til að breyta rekstri. Byggðasjóður hefur fylgst vel með þeim hugmyndum sem t.d. liggja fyrir á Patreksfirði og ætlunin er að framkvæma þar til að auka veltu þess fyrirtækis og reyna að tryggja að hægt sé að greiða þær skuldir til baka sem þarna eru. Aftur á móti hefur Byggðasjóður hikað við að líta á það sem sitt hlutverk að lána fjármuni til að greiða skuldir við stofnlánadeildina. Ég verð að segja eins og er að mér þætti æskilegra að þeir herrar sem þar eru athuguðu að Fiskveiðasjóður og ýmsir aðrir hliðstæðir stofnfjársjóðir hafa þurft að endurlána undir sumum kringumstæðum. Þegar þær aðstæður skapast eins og hafa skapast t.d. á Patreksfjarðarsvæðinu að sauðfé er skorið þar niður vegna riðu, þá hlýtur það að vera eðlileg krafa og réttlætanlegur grundvöllur fyrir því að hægt sé að fá framlengingu lána.

Byggðasjóður mun að sjálfsögðu vinna að hinu, eins og eðlilegt er, að reyna að stuðla að því að þarna sé hægt að koma á fjölbreyttari rekstri. Það er sjálfsagt mál, en mér þætti vænt um ef stofnlánadeildin hyrfi frá þeim hugsunarhætti að æskilegt væri fyrir hana að eignast sláturhúsin.