07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2735 í B-deild Alþingistíðinda. (2204)

158. mál, rekstrargrundvöllur sláturhúsa

Egill Jónsson:

Herra forseti. Ég fagna því sem kom fram í ræðu hv. flm. áðan og leyfi mér að skilja það svo að hann haldi ekki eins við þær áherslur sem komu fram í framsöguræðu hans, að hægt sé að forsvara léleg skil til landbúnaðarins með því að það skorti grundvöll fyrir rekstur sláturhúsa. Ég tel að það sé mjög þýðingarmikið að menn geri upp við sig að þetta tvennt er ekki hægt að tengja saman. Það væri sjálfsagt ekki stór vandi í sjávarútvegi, iðnaði eða í öðrum atvinnugreinum hér á landi ef ekki þyrfti að standa skil á öðrum greiðslum en vinnulaunum. Það er afar þýðingarmikið að gera sér grein fyrir þessu og ekki síst vegna þess að það er ærið ofarlega í mörgum forsvarsmönnum, m.a. s. í landbúnaði, að þetta sé eðlilegt eins og það er þó það jafnvel vanti 2/3 hluta af laununum upp á eins og gerðist á s.l. ári.

Sú athugasemd kom fram hjá hv. þm. Ólafi Þórðarsyni að tölurnar sem ég vitnaði til, um tvöföldun mannafla á 20 árum í slátrun og kjötiðnaði, væru ónákvæmar. Ég veit ekki um neinar tölur þar sem þetta er aðgreint. Hv. þm. hafði líka orð á því að það hefði nú upp á síðkastið náðst góður árangur í sambandi við mjólkuriðnaðinn sem hefði m.a. orðið til þess að auka mjög sölu á mjólkurvörum. En þar er samt mannaflaaukning helmingi minni en í kjötinu og er það byggt á sömu heimildum.

Ég held því að menn eigi ekki að vera svo óskaplega viðkvæmir og rjúka alltaf upp til handa og fóta til varnar milliliðunum í landbúnaði þó á það sé minnst hvort huga þurfi að úrbótum og að þar sé skapað aðhald fram yfir það sem verið hefur.