07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2736 í B-deild Alþingistíðinda. (2205)

158. mál, rekstrargrundvöllur sláturhúsa

Ólafur Þ. Þórðarson:

Herra forseti. Hv. 2. þm. Austurl. nafngreindi tvö sláturhús sem væru undir hamrinum. Hvort sem hann hefur samþykkt það í stofnlánadeild eða ekki hefur honum verið fullkunnugt um að leitað hefur verið eftir uppboðum. Ella hefði hann ekki vitað að þau væru undir hamrinum. Það kom einnig fram í hans máli að þessi mál hefðu verið rædd í sumar. Ég undirstrika að mér vitanlega liggja ekki fyrir áætlanir um hvaða starfsemi hægt væri að taka upp í sláturhúsinu fyrir austan til að auka þar veltu og umsvif. Það verður að sjálfsögðu að skoða og ég er sannfærður um að Byggðasjóður telur það sitt hlutverk að lána til slíkrar uppbyggingar eftir að hugmyndir eru fram komnar um hvað hægt væri að gera í því sambandi.

Hins vegar liggur fyrir að búið er að taka ákvarðanir um hvað æskilegt væri að gera á Patreksfirði. Engu að síður hefur stofnlánadeildin allt til þessa ekki viljað ganga að samningum um framlengingu lánanna. Þetta var það sem ég fullyrti hér áðan og þetta vil ég standa við.