07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2736 í B-deild Alþingistíðinda. (2206)

158. mál, rekstrargrundvöllur sláturhúsa

Flm. (Jón Kristjánsson):

Herra forseti. Það er örstutt athugasemd. Ég er ekki viss um að við hv. 11. landsk. þm. höfum skilið algerlega hvor annan eða hvort við erum að tala um nákvæmlega það sama. Hann er að tala um að leggja niður það umboðssölukerfi á kjötinu sem nú er við lýði, en að sláturhúsin kaupi kjötið af bændum á ákveðnu verði að hausti og borgi þeim það út og síðan skeiki að sköpuðu um hvort þeim tekst að selja það og á hvaða verði, það sé þá þeirra áhætta. Ég er ekki búinn að sjá að þetta fyrirkomulag mundi skila bændum, þegar til lengri tíma er litið, betri kjörum en núna er og ég er ekki tilbúinn að skrifa undir það, án þess að ég fari þó að hefja umr. um þetta mál nú því að það er ekki beinlínis skylt því máli sem ég var að flytja.

Það kerfi sem nú er við lýði er þannig, að kjötið er í umboðssölu og bændum er skilað því verði sem fæst fyrir það. Ef það fæst meira en grundvallarverð er því skilað til bænda, en ef vantar upp á vantar upp á verðið til bænda. Ég ætla ekki að fara að setja á langar ræður um það núna hvort breyta eigi þessu fyrirkomulagi, en ég er ekki tilbúinn að skrifa undir það nú með hæstv. 11. landsk. þm.

Hann segir þær fréttir að mannaflaaukning í mjólkuriðnaði hafi verið helmingi minni en í kjötiðnaði, það sýnir kannske að það er hagkvæmni í mjólkuriðnaði og hann er kannske ekki eins alvondur og er að skilja á blöðum þar sem oft má lesa greinar um að þetta sé mesti óþurftariðnaður og óráðsía þar gífurlega mikil. Því ber ekki saman við upplýsingar sem við fáum nú frá hv. 11. landsk. þm.