07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2736 í B-deild Alþingistíðinda. (2207)

158. mál, rekstrargrundvöllur sláturhúsa

Þórður Skúlason:

Herra forseti. Hér er um hið athyglisverðasta mál að ræða sem er auðvitað fyrst og fremst byggðamál og landbúnaðarmál, enda hefur umr. þróast þannig að menn hafa farið að ræða landbúnaðarmál almennt, m.a. útborgun á afurðum bænda. Ég ætla ekki að hætta mér mikið út í þá umr., heldur nota tækifærið til að lýsa yfir stuðningi mínum við efnisinnihald þeirrar till. sem hér liggur fyrir um að gerð verði könnun á uppbyggingu og rekstrargrundvelli sláturhúsa.

Eins og allir vita hefur á undanförnum árum verið gert mikið af því að byggja dýr og vönduð sláturhús vítt um landið, sem svo sannarlega var full nauðsyn á, a.m.k. í mörgum tilfellum, en grundvöllur fyrir rekstri þessara sláturhúsa er mjög hæpin sökum þess að nýtingartíminn á þessum dýru húsum er mjög stuttur og það hvíla á þessu þungar greiðslubyrðar í afborgunum og vöxtum. Sláturkostnaðurinn er þar af leiðandi gífurlega hár vegna lélegrar nýtingar þessara húsa.

Það er fróðlegt að velta því fyrir sér hvern þátt mikill sláturkostnaður á í þeim erfiðleikum sem landbúnaðurinn glímir við um þessar mundir. Það kemur upp í hugann í þessu sambandi hvað hefur verið að gerast í milliliðastarfseminni í landbúnaðinum í höfuðborginni að undanförnu. Eins og við munum kom það upp í umr. á dögunum að það væri fyrirhugað að byggja hér í Reykjavík 100 þús. rúmmetra hús þar sem ætti að fara fram úrvinnsla á kjöti. Þetta var kölluð kjöthöll og ekki að ástæðulausu vegna þess að hér er um gríðarlega stórt mannvirki að ræða. Þetta 100 þús. rúmmetra hús svarar til þess að ef lofthæð væri þar um 4 m, sem er kannske ekki óeðlileg stærð í iðnaðarhúsnæði, væri flatarmálið líklega um 2.5 hektari hvorki meira né minna. Þetta kostar auðvitað fleiri hundruð milljóna króna. Í þessu sambandi er fróðlegt að rifja upp hvað hefur gerst fleira hérna á svæðinu, eins og t.d. bygging á húsnæði Osta- og smjörsölunnar og bygging Mjólkursamsölunnar hérna uppi á hálsi. Mér skilst að hérna séu bændur einnig að byggja gríðarlega stórt hótel. Svo á að koma kjöthöll til viðbótar. Auðvitað hlýtur þetta að hafa einhver áhrif á afkomu landbúnaðarins, ég held að það geti ekki hjá því farið, eða á verðið til neytenda. Mér finnst ólíklegt annað. Hins vegar hefur maður heyrt þau svör hjá þeim sem standa fyrir þessum framkvæmdum, sem eru raunar sömu svörin og maður heyrir frá Seðlabankanum í sambandi við byggingu hans, að þessar byggingar séu hvorki borgaðar af neytendum né þeim sem framleiða vörurnar. Peningarnir hreinlega detta niður úr loftinu og það er engin sem borgar þetta. Þetta hefur maður heyrt, en auðvitað getur það ekki verið rétt. Þetta hlýtur að hafa einhver áhrif á afkomu landbúnaðarins og einnig hlýtur það að hafa áhrif á verð landbúnaðarvaranna til neytenda.

Ég held að þessi till. sé mjög þörf að því leyti til að þarna verði skoðuð nýtingin á fjárfestingunni í sláturhúsunum og þá líka því húsnæði sem landbúnaðarvörurnar eru unnar í. Í því sambandi held ég að full þörf sé á að athuga einmitt þessa fyrirhuguðu kjöthöll og nauðsyn þess að reisa hana hér. Ég held raunar að það sé algerlega óþarft því það sé nóg húsnæði vítt og breitt um landið í sláturhúsunum, sem eru vannýtt, sem væri hægt að nota til að vinna kjötvörur og auðvitað miklu eðlilegra að gera það á því svæði þar sem landbúnaðarframleiðslan á sér stað að öðru leyti.