07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2737 í B-deild Alþingistíðinda. (2208)

158. mál, rekstrargrundvöllur sláturhúsa

Helgi Seljan:

Herra forseti. Ég fagna því að heyra það hjá hv. 5. þm. Vestf. að tekin hafi verið ákvörðun um nýja starfsemi í sláturhúsinu á Patreksfirði. Það er nokkuð sem ég hef ekki heyrt. Ég vissi að það stóð til, og það var einmitt fulltrúi frá Stofnlánadeild landbúnaðarins sem tók þátt í viðræðum við heimamenn þar ásamt fulltrúa frá Framkvæmdastofnun ríkisins um að kanna leiðir til nýrra verkefna þar, alveg eins og eystra. Ég fagna því að það hefur verið gert. En hinu er ekki að leyna að stofnlánadeildin er vissulega í miklum vanda, og það veit ég að hv. þm. Stefán Valgeirsson getur staðfest enn betur á eftir, þegar um svo stórkostlega skuld er að ræða eins og þarna er á ferðinni og lausaskuldir þar að auki við fjölmarga aðila sem enginn veit hvernig út úr á að sjá.

Ég vil taka það fram að ég minntist aldrei á það í minni ræðu að þessi hús væru komin undir hamarinn, en ég sagði að þau væru komin að gjaldþrotastigi og þar hafa þau verið lengi. Stofnlánadeildin hefur sannast sagna, miðað við þessar háu skuldir og þessi miklu vanskil, sýnt geysimikla biðlund við þessa aðila af eðlilegum ástæðum og vegna þeirra aðstæðna sem þarna hafa skapast. Þetta eru ekki vanskil bara núna eða eitthvað sem er nýtilkomið, heldur eru margra ára vanskil, eins og hv. þm. veit, á ferðinni þarna.