23.10.1984
Sameinað þing: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (221)

37. mál, fjárhagsstaða húsnæðislánakerfisins

Fyrirspyrjandi (Jón Baldvin Hannibalsson):

Herra forseti. Ég stóð í þeirri trú að ég hefði aðeins talað einu sinni, en það er víst talið að ég hafi talað þegar ég var að bera fram fsp. sjálfar. Ég reikna það hálfgert ómark, en sæti að sjálfsögðu úrskurði forseta.

Ég ætlaði aðeins að árétta að þegar sagt er að tekjustofnakerfi ríkisins sé hrunið er ég ekki að lýsa skoðun. Við erum einfaldlega að tala um staðreyndir. Það liggur alveg ljóst fyrir eftir svör hæstv. ráðh. að allar áætlanir um skyldusparnað, framlög Atvinnuleysistryggingasjóðs og lífeyrissjóða hafa ekki staðist og að í staðinn hefur orðið að grípa til erlendra lána. En með leyfi forseta vildi ég aðeins koma á framfæri örstuttum aths.

Þetta segir nefnilega minnst um það sem er að í þeirri húsnæðispólitík sem rekin er. Hún lýsir sér í verki í því að hér er sífellt verið að byggja fleiri og fleiri og stærri og stærri villur á sama tíma og því fólki fer sífellt fjölgandi sem þarf á að halda litlum ódýrum íbúðum í fjölbýli. Upp á þetta ástand getur hæstv. félmrh. ekki horft til lengdar án aðgerða. Það er alveg augljóst mál að brýn þörf er á aðgerðum af hálfu Alþingis og hæstv. ráðh. til að breyta þeim kjörum sem ríkja á hinum almenna fasteignamarkaði. M.ö.o.: t.d. með því að skilyrða lán til kaupa á eldra húsnæði með þeim hætti að það verði til þess að lækka útborgunarhlutfall og lengja greiðslu eftirstöðva. Eins og ástandið er núna blasir það við öllum öðrum en viðurkenndum skattsvikurum að fólk á Íslandi getur ekki lengur ráðið við það verkefni að byggja yfir sig og sína húsnæði sem miðast við eðlilegar þarfir, hvað þá heldur að það sé á kjörum sem mönnum eru bjóðandi.