07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2741 í B-deild Alþingistíðinda. (2213)

271. mál, varnir gegn fisksjúkdómum

Flm. (Vigfús B. Jónsson):

Herra forseti. Ég leyfi mér hér með að flytja till. til þál. um varnir gegn fisksjúkdómum í fiskeldisstöðvum og vötnum. Meðflm. mínir eru alþm. Eyjólfur Konráð Jónsson, Davíð Aðalsteinsson og Gunnar G. Schram. Þáltill. er á þskj. 449 og svohljóðandi, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að gera nú þegar gangskör að því að varnir gegn fisksjúkdómum verði stórefldar og ráðið verði hæft starfsfólk til að fylgjast með fiskeldisstöðvum og aðstoða í baráttunni gegn fisksjúkdómum bæði í stöðvunum og hinum dýrmætu veiðivötnum landsins.“

Fiskirækt er tiltölulega ung atvinnugrein hér á landi og má segja um hana að við hana séu miklar vonir tengdar. Það er ekki ágreiningur um það að ef vel tekst til eigi hún eftir að verða styrk stoð í atvinnu- og efnahagslífi okkar Íslendinga í náinni framtíð. Það er enginn ágreiningur um það að miðað við margar aðrar þjóðir, sem fiskirækt stunda, er aðstaða okkar Íslendinga afburða góð svo að miðað sé við landkosti. Á ég þá einkum við heita vatnið sem við notum til að hraða vexti fiskjarins.

Það er margt gott gert í sambandi við fiskirækt hér á landi, m.a. það að við höfum flutt inn erlenda þekkingu og við höfum líka eignast þekkingu af eigin reynslu. Hins vegar höfum við líka gert mistök í okkar fiskirækt sem minna okkur á það að í þessum efnum þarf að standa vel að verki.

Fiskirækt er viðkvæm og vandasöm atvinnugrein sem krefst bæði vísindalegrar þekkingar og reynslu. Það er því ekkert undarlegt þótt þessi tiltölulega unga og vaxandi atvinnugrein hafi auknar kröfur og þarfir í sambandi við faglega þekkingu og vísindalega aðstoð. Í hinum hefðbundnu landbúnaðargreinum höfum við Íslendingar byggt upp kerfisbundið heilbrigðiseftirlit og heilbrigðisþjónustu. Mér er sem ég sjái hvar þessar greinar stæðu án þeirrar þjónustu. Það er ábyggilega ekki ofsagt að þörfin fyrir kerfisbundna heilbrigðisþjónustu í fiskirækt er jafnbrýn og í hinum hefðbundnu landbúnaðargreinum. Við höfum nú þegar beiska reynslu af ýmsum uppákomum í sambandi við fisksjúkdóma. Við höfum líka reynslu af því hversu mikilvægt það er að fisksjúkdómar uppgötvist sem fyrst svo að hægt sé að einangra þá og eyða þeim. Svo er líka hitt, að koma í veg fyrir það að sýktum fiski sé dreift milli fiskeldisstöðva og út í hin dýrmætu veiðivötn landsins. Það er því aðkallandi nauðsyn að koma upp kerfisbundnu heilbrigðiseftirliti í eldisstöðvunum og hafa í frammi viðeigandi aðgerðir gegn fisksjúkdómum, bæði í stöðvunum og í veiðivötnunum. Þörfin fyrir slíkar aðgerðir er þeim mun brýnni fyrir það að nú fara fleiri og fleiri út í fiskeldi og má því ætla að sums staðar skorti nokkuð á að nægileg þekking og reynsla sé fyrir hendi.

Á undangengnum árum hefur aðeins einn fisksjúkdómafræðingur verið starfandi hér á landi og þótt hann sé mikill ágætismaður hefur hann bæði skort aðstoð og aðstöðu til þess að því verkefni yrði valdið sem hér um ræðir.

Það er ekki mitt að segja um það hvernig þær sjúkdómavarnir, sem hér um ræðir, verði best upp byggðar. Það hlýtur að koma til kasta sérfróðra manna. Hins vegar get ég fullyrt að þeir sem að fiskirækt vinna geti verið mér sammála um það að stórauknar varnir gegn fisksjúkdómum eru ein af meginforsendum fyrir velferð fiskiræktarinnar í landinu.

Ég sé reyndar ekki ástæðu til að vera að fjölyrða meira um þetta að sinni. Ég leyfi mér að vona að hv. alþm. sjái hina miklu nauðsyn sem hér er á og veiti þessu máli góðan framgang.

Herra forseti. Ég vil að lokum óska þess að þessari till. verði vísað til atvmn.