07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2747 í B-deild Alþingistíðinda. (2219)

271. mál, varnir gegn fisksjúkdómum

Flm. (Vigfús B. Jónsson):

Herra forseti. Aðeins örfá orð. Það er bara út af því sem hv. þm. Stefán Valgeirsson sagði, að við hefðum ekki gert neitt nema tala. Þetta er nú ekki rétt — (Gripið fram í.) Nú, fyrirgefðu, það er misskilningur. Ég ætlaði bara að segja það að ef þú stendur í þeirri meiningu þá þyrftirðu að kynna þér þessi mál miklu betur, því að við eigum seiðaeldisstöðvar í landinu sem jafnast á við það albesta sem er til erlendis. Það hef ég heyrt erlenda menn segja og meira að segja er verið að sýna slíka stöð. Það er ekki lítið sem við höfum gert í lónunum í Kelduhverfi og það er ekki lítið sem við höfum flutt inn af erlendri þekkingu. Við erum nú þegar, eins og síðasti ræðumaður tók fram, að fá nýja og nýja menn sem eru lærðir. Þó að þeirra lærdómur passi kannske ekki alveg við okkar aðstæður er hann gífurlega mikils virði. Ég vil endilega taka undir það sem hér hefur verið sagt að þetta verður að byggja á þekkingu. Hún er nr. eitt, tvö og þrjú.