23.10.1984
Sameinað þing: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 394 í B-deild Alþingistíðinda. (222)

43. mál, endurskoðun á ársreikningum ÍSALs 1983

Fyrirspyrjandi (Hjörleifur Guttormsson):

Herra forseti. Á árunum 1975–1981 reyndist Alusuisse, eigandi Íslenska álfélagsins h. f., hafa verðlagt aðföng til álbræðslunnar í Straumsvík of hátt sem svaraði til 31.5 millj. Bandaríkjadala að mati endurskoðunarfyrirtækisins Coopers & Lybrand. Að auki töldu endurskoðendurnir nauðsynlegt að leiðrétta reikninga ÍSALs vegna rangra afskrifta á árunum 1980 og 1981 um 4.4 millj. dollara eða samtals á þessum sjö árum sem nær 36 millj. dollara sem samsvarar rúmum 1200 millj. ísl. kr. á núverandi gengi. Á sama tímabili greiddi fyrirtækið ÍSAL til Landsvirkjunar rétt um 40 millj. dala, sem er álíka há upphæð og fyrirtækið hafði svikið undan skatti að mati endurskoðenda.

Krafa fjmrn. um viðbótargreiðslu á sköttum ÍSALs nam vegna þessara ára um 10 millj. dollara eða 340 millj. kr. að meðtöldum vöxtum á núverandi gengi.

Í fyrra upplýsti hæstv. iðnrh. aðspurður við umr. í Sþ. að niðurstöður Coopers & Lybrand vegna endurskoðunar á ársreikningum ÍSALs vegna ársins 1982 hafi leitt í ljós áframhaldandi yfirverð á aðföngum og að söluverð á áli frá verksmiðjunni hafi einnig verið of lágt upp gefið í ársreikningum. Þar við bættust allt of háar afskriftir að mati endurskoðendanna. Heildarleiðréttingin á ársreikningi ÍSALs, sem Coopers & Lybrand gerðu fyrir árið 1982, nam á þessu eina ári rúmum 13 millj. dollara eða 440 millj. ísl. kr. og er þá upphæðin sem við bætist hina fyrri orðin tæpar 50 millj. Bandaríkjadala.

Skv. aðalsamningi ríkisstj. og Alusuisse frá árinu 1966 á niðurstaða af alþjóðlegri endurskoðun ársreikninga, sé hennar óskað af íslenskum stjórnvöldum, að liggja fyrir í lok ágúst eða ekki síðar en 1. sept. og Alusuisse og ÍSAL að verða tilkynnt um niðurstöður endurskoðenda þá. Einhverra hluta vegna hefur hæstv. iðnrh. ekki kunngert niðurstöður af endurskoðun fyrir árið 1983, sem hann boðaði að fram mundi fara, þótt brátt séu liðnir tveir mánuðir frá því að slík niðurstaða átti að liggja fyrir. Þetta er álíka seinagangur og varð í fyrra þó að ekki sé að vísu kominn nóvembermánuður. Því hef ég leyft mér að beina eftirfarandi fsp. til hæstv. iðnrh.:

„Hverjar eru niðurstöður endurskoðenda Coopers & Lybrands varðandi ársreikninga Íslenska álfélagsins h.f. fyrir árið 1983?“