07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2756 í B-deild Alþingistíðinda. (2227)

151. mál, saga íslenskra búnaðarhátta

Flm. (Helgi Seljan):

Herra forseti. Á þskj. 156 hef ég leyft mér að flytja svohljóðandi þáltill. ásamt hv. 5. þm. Vesturl. Davíð Aðalsteinssyni, hv. 4. þm. Norðurl. v. Eyjólfi Konráð Jónssyni, hv. 3. landsk. þm. Málmfríði Sigurðardóttur, hv. 8. landsk. þm. Kolbrúnu Jónsdóttur, hv. 5. landsk. þm. Eiði Guðnasyni og hv. 4. þm. Norðurl. e. Steingrími J. Sigfússyni:

„Alþingi ályktar að skora á ríkisstj. að hún beiti sér fyrir ráðstöfunum sem tryggi vísindalegar rannsóknir og ritun á sögu og þróun íslenskra búnaðarhátta.“

Till. þessi var flutt í nóv. s.l. Eftir það hafa fjárlög verið afgreidd og þar mun hafa verið komið til móts við þessa till. og því tryggt að þegar á þessu ári mun málið tekið upp og fagna ég því. Þar trúi ég að búnaðarþingsfulltrúinn, hv. 11. landsk. þm., hafi lagt sitt góða lóð á vogarskálarnar og tryggt að þetta þarfa mál náði fram á fjárlögum þess árs. Viljayfirlýsing Alþingis almennt um þetta mál væri þó engu að síður af hinu góða.

Þó ekki væri nema til að rekja aðdraganda málsins og uppistöðu er rétt að fylgja henni úr hlaði með nokkrum orðum. Með ályktunargreininni er prentuð sem fskj. samþykkt Búnaðarþings frá 1984, en sú samþykkt er í beinu framhaldi af umfjöllun Búnaðarþings um þetta mál og þá sérstaklega í framhaldi af erindi Árna Björnssonar þjóðháttafræðings á Búnaðarþingi um nauðsyn þessa verks. Ég læt nægja hér að vitna til þess erindis og þarf ekki fleiri orð þar um.

Árni rakti í erindi sínu gagnmerkt starf Lúðvíks Kristjánssonar og rit hans Íslenska sjávarhætti, tilurð þess verks og stuðnings Alþingis við það. Orðrétt segir Árni svo í framhaldi af því og ég tek aðeins hluta af hans erindi, með leyfi hæstv. forseta:

„Landbúnaður og sjávarútvegur, eða nánar tiltekið kvikfjárrækt og fiskveiðar, eru hinar hefðbundnu atvinnugreinar okkar Íslendinga. Bændum og fiskimönnum hefur hins vegar farið mjög fækkandi á þessari öld miðað við aðra atvinnuhópa og áfram virðist stefna í þá átt með síaukinni tækni. Nú skal þeirri spurningu varpað fram hvort fulltrúum bænda og bændum almennt þyki ekki við hæfi að við eignumst með tímanum og áður en það verður um seinan sambærilegt ritverk um íslenska búnaðarhætti og nú er svo gott sem orðið veruleiki varðandi íslenska sjávarhætti.

Það ætti að vera vel gerlegt og tiltölulega auðvelt að hrinda þessu í framkvæmd ef vilji er til og skipulega að verki staðið. Það bráðliggur á að hefjast handa meðan enn eru til menn sem þekkja gamla búskaparhætti af eigin raun og þurfa því ekki að lesa sér til um sjálfsögðustu hluti af bókum, en eru þó enn í nægu fjöri til að vinna verkið á næstu einum til tveim áratugum.

Nú á 9. tug 20. aldar hlýtur slíkur maður nánast að vera kominn um sextugt a.m.k. og sé gert ráð fyrir álíka meðgöngutíma og var um sjávarhættina þyrfti sá maður helst að enda um áttrætt. Rétt er þó að gera sér ljóst að sennilega þyrfti höfundur vísindarits um íslenska búnaðarhætti ekki að eyða jafnlöngum tíma í könnun frumheimilda og Lúðvík Kristjánsson þurfti. Það er a.m.k. miklu meira prentað mál til á víð og dreif um íslenska búnaðarhætti en sjávarhætti allar götur frá bókum Björns í Sauðlauksdal og ritum Lærdómslistafélagsins á 18. öld til búnaðarritanna og bændablaðanna á 19. og 20. öld. Og íslenskir bændur hafa að jafnaði skrifað meira um eigin hagi en sjómenn hvað sem veldur.

Þá er þess að geta að á síðasta aldarfjórðungi hefur þjóðháttadeild Þjóðminjasafns Íslands fengið þúsundir af svörum við tugum sérstakra spurningalista um vinnubrögð í sveitum frá mörgum hundruðum heimildarmanna hvaðanæva af landinu. Blaðsíðufjöldi þessara heimilda skiptir þegar mörgum tugum þúsunda, en helstu heimildarmennirnir voru fæddir laust eftir 1870.

Kristján Eldjárn þjóðminjavörður hratt þessari heimildasöfnun af stað á sínum tíma en Þórður Tómasson safnvörður í Skógum undir Eyjafjöllum hefur samið flestar spurningaskrárnar frá upphafi enda mun leitun að núlifandi manni sem hefur eins alhliða þekkingu á öllum sviðum verklegrar og andlegrar bændamenningar á Íslandi og er jafnframt eins fær um að gera öðrum þessa þekkingu auðskiljanlega. Það liggur því þegar fyrir geysimikið efni sem mest á eftir að vinna úr og væntanlegur höfundur hefði nokkurt forskot þar sem búið er að inna af hendi talsvert af undirbúningsstarfi sem vinna þurfti frá grunni varðandi sjávarhættina. En það er áreiðanlega eins gott að unnið sé úr þessum heimildum af manni sem skilur það tungumál og þau orðtök sem heimildarbændurnir nota í svörum sínum. Þrátt fyrir mikið efni á víð og dreif eru enn margar eyður sem fylla þarf í af manni sem skilur og veit hvar þessar eyður eru. Það er nefnilega óvíst að menn geri sér þær eyður ljósar eftir fáeina áratugi. Svo gersamlega geta einstakir tímabundnir atvinnuhættir og vinnubrögð fallið í gleymsku með sinni kynslóð.“

Síðan segir Árni Björnsson hér í lokin: „Hér er ekki lagt til að bændasamtökin sjálf ráði mann á borð við Þórð Tómasson til að semja slíkt vísindarit á næstu áratugum þótt út af fyrir sig væri þeim ekki nema sómi að því. Það voru heldur ekki samtök sjómanna og útgerðarmanna sem endanlega réðu mann til að skrifa vísindarit um sjávarhætti. Það gerði Alþingi sjálft, enda er ekki nema sanngjarnt að öll þjóðin fjármagni slík stórvirki um þá undirstöðuatvinnuvegi sem allt líf þjóðarinnar hefur verið reist á í 1000 ár. Því er löngu orðið tímabært að Alþingi veiti fræðimanni sams konar rannsóknaraðstöðu vegna íslenskra búnaðarhátta og gert var varðandi íslenska sjávarhætti fyrir tveim áratugum. Þótt mikið sé kvartað um slæmt ástand í þjóðarbúskapnum nú um stundir eins og ævinlega þurfa menn ekki að vera langminnugir til að glöggva sig á að það var líka kveinað sáran yfir ástandi þjóðarskútunnar árið 1964. Það er hins vegar óyggjandi að þrátt fyrir allt eru Íslendingar enn auðugri nú en þá.“

Við þetta er engu að bæta öðru en því að fagna á ný afgreiðslu fjvn. og Alþingis í fjárlögum þessa árs. Samþykkt slíkrar till. sem þessarar væri þá enn frekari árétting og áherðing þessa og því eðlilegt að hún fái þinglega meðferð og verði vísað að loknum þessum hluta umr. til hv. fjvn.