07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2758 í B-deild Alþingistíðinda. (2229)

202. mál, skóg- og trjárækt á Suðurnesjum

Flm. (Geir Gunnarsson):

Herra forseti. Ásamt hv. 4. þm. Reykn. Salome Þorkelsdóttur, hv. 6. landsk. þm. Karli Steinari Guðnasyni, hv. 4. landsk. þm. Guðmundi Einarssyni og hv. 7. landsk. þm. Kristínu Halldórsdóttur flyt ég á þskj. 706 svohljóðandi þáltill. um könnun á möguleikum á skóg- og trjárækt á Suðurnesjum, með leyfi hæstv. forseta:

„Alþingi ályktar að fela Skógrækt ríkisins í samráði við sveitarfélög og félagssamtök á Suðurnesjum að kanna hvaða landsvæði í eigu þessara aðila eru hæf til ræktunar trjágróðurs. Ef slík svæði reynast hæf til skóg- og trjáræktar leiti Skógræktin eftir samningum við þau sveitarfélög og félagasamtök á þessum slóðum um sérstakt átak til slíkrar ræktunar þar sem aðstæður eru bestar.“

Á undanförnum árum hefur mjög vaxið áhugi fólks á því að fegra umhverfi bústaða sinna með gróðri. Sveitarfélög hafa breytt um svip frá því sem áður var með stórauknu ræktunarstarfi, bæði á íbúðarlóðum einstaklinga og vegna framkvæmda sveitarstjórna við almenningssvæði í þorpum og bæjum. Víst er að margur maðurinn telur að nánasta umhverfi þess sveitarfélags sem hann býr í sé talsverður hluti af öllu því sem hann metur sem jákvæða eða neikvæða þætti varðandi búsetu á viðkomandi stað. Víða hagar svo til að umgjörð byggðar í næsta nágrenni er svo frá náttúrunnar hendi að ekki þarf úr að bæta. Ekki er annars þörf en að vernda umhverfið fyrir of miklum ágangi búfjár og tryggja að athafnasemi manna, bygging mannvirkja, spilli ekki svæðinu.

En jafnvel hér umhverfis höfuðborgina og næstu byggðarlög, þar sem er Heiðmörk og víður Reykjanesfólkvangurinn allur, hefur þó verið talin ástæða til þess að bæta um betur með verulegu átaki í skóg- og trjárækt. Sér þess rækilega merki þegar vel viðrar til útivistar að íbúar á þessu svæði kunna vel að meta það sem gert hefur verið og æ fleiri leita um helgar og í frítímum á vit þessara gróðursvæða, helst þangað sem trjágróðurinn er.

En það hagar ekki alls staðar eins um vistlegt umhverfi hið næsta mannabyggð. Á Suðurnesjum, sem þessi þáltill. fjallar um, þykir mörgum umhverfi byggðarlaga berangurslegt og nakið og ýmsir kunna að telja að þar sé í öfugu hlutfalli annars vegar þörfin á aðgerðum til að bæta úr því sem á skortir í þessu efni frá náttúrunnar hendi og á hinn bóginn möguleikarnir á því að úr verði bætt með tilstyrk ræktunar.

Í Árbók Ferðafélags Íslands 1984 segir Hörður Kristinsson prófessor m.a. svo um gróðurskilyrði á Reykjanesskaga, með leyfi hæstv. forseta:

„Loftslagið er dæmigert úthafsloftslag eins og það gerist hvað mest hér á landi. Það hefur þá kosti að vera fremur milt ef litið er á árið allt og meðalhiti nokkuð hár. Einkum eru veturnir mildir og vaxtartími verður því lengri vor og haust en víða gerist annars staðar á landinu og er það ýmsum plöntum í hag. Hins vegar eru heitir og sólríkir sumardagar fáir og vindurinn sem fylgir þessu loftslagi rýrir skilyrðin verulega.“

Í grein Harðar eru raktar breytingar sem orðið hafa á gróðri á þessu svæði vegna viðartöku og kolagerðar. En í úttektarskýrslu, sem birt er í áliti um landgræðsluáætlun 1974–1978, kemur fram að um mikla lyng- og hrístekju hefur verið að ræða í mið- og vesturhluta Gullbringusýslu allt fram á árið 1918.

Á síðari árum hefur margt verið gert til þess að snúa þróuninni við. Frá árinu 1968 hafa sveitarfélög á Suðurnesjum ásamt félagssamtökum þar grætt upp örfoka land svo að skiptir hundruðum hektara. Í upphafi háði það starfinu að erfitt var að verja þessi svæði ágangi sauðfjár, en eftir að landið sunnan Voga á Vatnsleysuströnd og vestan Grindavíkur, um 35 þús. hektara, var girt árið 1977 og friðað fyrir sauðfjárbeit hefur ræktunarstarfið skilað miklum árangri og landið breytt um svip á stóru svæði. En á því landi, sem nú hefur veríð friðað fyrir ágangi sauðfjár, voru veturinn 1971–1972 ríflega 3600 fjár á fóðrum. Hafa Suðurnesjamenn þannig gert mjög raunhæfar og árangursríkar ráðstafanir til landverndar og landgræðslu.

Að dómi okkar flm. þessarar þáltill., sem hér er til umr., þyrfti að fylgja þessum mikilsverðu aðgerðum eftir með tilraunum til þess að koma upp helst sem næst sjávarplássunum skjólbeltum, runnum eða öðrum trjágróðri sem gerði umhverfið hlýlegra og rækta upp trjágróður þar sem með tíð og tíma gæti orðið útivistarsvæði fyrir íbúana. Hér er án efa um erfitt verkefni að ræða vegna skjólleysis á þessu svæði og nálægðar við sjó. Þó var það svo að jafnvel á Miðnesheiði óx áður kjarr af víði og birki allt þar til hrís- og lyngtekja og ágangur sauðfjár eyddi þessum gróðri.

Nú er ástæða til að fylgja eftir þeim gróðurverndarstörfum sem þegar hafa verið unnin með friðun og sáningu og kanna hvar helst mætti bæta umhverfið enn með ræktun trjágróðurs. Þótt verkefnið kunni að vera erfitt eykur það bjartsýni að einstaklingum hefur tekist býsna vel að ná árangri í ræktunarstörfum á íbúðarhúsalóðum, jafnvel niður við sjóinn og kunnáttu í trjá- og skógrækt hefur fleygt fram hin síðustu ár. Til þess að árangurs sé að vænta þarf að standa skipulega að starfi og því leggjum við flm. til að Skógrækt ríkisins verði í samráði við sveitarfélög og félagssamtök á Suðurnesjum falið að kanna hvaða landssvæði í eigu þessara aðila eru hæf til ræktunar trjágróðurs. Ef könnunin ber árangur, þá leiti Skógræktin eftir samningum við sveitarfélög og félagssamtök um sameiginlegt átak til slíkrar ræktunar þar sem aðstæður reynast bestar.

Við teljum að því fjármagni, sem þjóðin ver til starfsemi Skógræktar ríkisins, eigi ekki hvað síst að verja til þess að bæta og fegra það umhverfi sem landsmenn eru í nánastri snertingu við í daglegu lífi, þ.e. að gera umhverfi bæja og þorpa hlýlegra og þá helst þar sem berangurinn er. Við teljum að á Suðurnesjum sé þörf á aðgerðum í þessum efnum og eðlilegt að komið sé til móts við aðila sem svo mikið hafa lagt af mörkum til landverndar sem gert hefur verið á Suðurnesjum með friðun 35 þús. hektara landsvæðis, sem áður var undirorpið eyðingu. Við teljum einnig að það mæli með aðgerðum að það land, sem kynni að reynast hæft til trjáræktar, er þegar afgirt fyrir sauðfé.

Það er vitað að hér yrði um erfitt verkefni að ræða, en von um árangur í starfi að fegrun næsta umhverfis sjávarplássa og hlýlegra umhverfi fyrir íbúana er þess virði að tilraun sé gerð til að sigrast á þeim erfiðleikum. Það er einnig ljóst að það tekur langan tíma að ná árangri, en þeim mun meiri ástæða er til að hefjast handa sem fyrst. Áratugur eða áratugir eru ekki langur tími í sögu sveitarfélaga. Aðalatriðið er í hvora áttina þróunin gengur, til eyðingar eða til uppgræðslu og fegrunar. Það þarf að hefjast handa um framkvæmdir sem tryggja að tíminn vinni ekki lengur með eyðingaröflunum, heldur gróðurvextinum og uppgræðslunni. Þann sama tíma, sem nú og á næstunni nýtist til gróðuraukningar á því stóra landssvæði sem friðað hefur verið á Suðurnesjum, þarf einnig um leið að nýta til þess að gera tilraun innan þessa girta svæðis til að koma upp trjágróðri til skjóls og prýði við sjávarplássið. Jafnframt því að bæta umhverfið og færa íbúunum vísi að útivistarsvæðum gæti plöntun og umhirða trjágróðurs að sumarlagi orðið nokkurt verkefni fyrir börn og unglinga á þessum slóðum. Einmitt slík ræktunarstörf eru mikilsverður þáttur í jákvæðu uppeldi svo sem mjög er þörf á um þessar mundir.

Herra forseti. Ég legg til að þessari þáltill. verði vísað til hv. allshn. Ég veit að þar hafnar hún í höndum góðra manna sem sjá til þess að hún hljóti afgreiðslu á þessu þingi.