23.10.1984
Sameinað þing: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 395 í B-deild Alþingistíðinda. (223)

43. mál, endurskoðun á ársreikningum ÍSALs 1983

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Sem svar við fsp. hv. 5. þm. Austurl. skal upplýst að í byrjun sept. s.l. barst rn. skýrsla breska endurskoðendafyrirtækisins Coopers & Lybrands vegna endurskoðunar á niðurstöðu ársreikninga Íslenska álfélagsins fyrir árið 1983. Niðurstöðukafli skýrslunnar hafði áður verið sendur Alusuisse, ÍSAL og ríkisstj. hinn 31. ágúst s.l. í samræmi við ákvæði aðalsamningsins milli ríkisstjórnar Íslands og Alusuisse þar um. Meginniðurstöður Coopers & Lybrands eru eftirfarandi:

1. Um söluverð á áli frá ÍSAL. Coopers & Lybrand komast að þeirri niðurstöðu í skýrslu sinni, m.a. með hliðsjón af innflutningsverði á áli til Evrópu árið 1983, að eðlilegt afurðaverð hefði átt að vera um 36 Bandaríkjadölum á tonn hærra en Alusuisse greiddi ÍSAI. umrætt ár. Byggist þessi niðurstaða endurskoðendafyrirtækisins fyrst og fremst á samanburði við álverð á mörkuðum í Þýskalandi árið 1983. Árið 1983 seldi ÍSAL rúmlega 82 þús. tonn af áli. Coopers & Lybrand telja því að leiðrétta beri ársreikning ÍSALs 1983 vegna of lágs afurðaverðs um samtals rúmlega 3 millj. Bandaríkjadala.

2. Að því er snertir verð á súráli. Coopers & Lybrand komast að þeirri niðurstöðu að eðlilegt súrálsverð til ÍSALs hefði átt að vera rúmlega 10 Bandaríkjadölum lægra en ÍSAL greiddi fyrir súrál umrætt ár. Styðjast endurskoðendurnir í því sambandi sem fyrr við meðalverð á sölu frá Alcoa í Ástralíu til óskyldra aðila.

Árið 1983 keypti ÍSAL 140 þús. tonn af súráli frá Alusuisse. Að teknu tilliti til afturvirkrar leiðréttingar vegna þess súráls sem keypt var inn 1982 og notað árið 1983 komast Coopers & Lybrand að þeirri niðurstöðu að leiðrétta beri súrálsverðið til ÍSALs á árinu 1983 um samtals 1.8 millj. Bandaríkjadala.

3. Rafskautaverð. Coopers & Lybrand telja ekki ástæðu til að gera athugasemdir við rafskautaverðið til ÍSALs á árinu 1983 og mun það vera nokkur nýlunda.

4. Um afskriftir. Coopers & Lybrand gera sömu athugasemdir vegna afskrifta ÍSALs árið 1983 og þeir hafa gert vegna endurskoðunar áranna 1980, 1981 og 1982. Aðalágreiningurinn snýst sem fyrr um afskriftir af gengistapi ÍSALs og um afskriftir af mengunarvarnarbúnaði verksmiðjunnar. Fjárhæð leiðréttingar sem Coopers & Lybrand leggja til að gerðar verði á ársreikningi ÍSALs vegna afskrifta er um 4.8 millj. Bandaríkjadala. Og þá komum við að heildarfjárhæð leiðréttinganna á ársreikningum ÍSALs sem Coopers & Lybrand leggja til að nemi því samtals um 9.6 millj. Bandaríkjadala.

Bókfært tap ÍSALs árið 1983 var um 11.5 millj. Bandaríkjadala. Coopers & Lybrand taka því fram í skýrslunni að ofangreindar leiðréttingar hefðu ekki haft áhrif á skattskyldu ÍSALs vegna ársins 1983.

Ég vil taka það fram vegna orða hv. fyrirspyrjanda að upplýsingar um þessar niðurstöður hafa verið öllum aðgengilegar frá því sem þær bárust rn. í hendur í byrjun septembermánaðar. Ég hef ekki séð ástæðu til og veit enda eigi með hvaða hætti ástæða hefði verið til að kunngera þessar niðurstöður nema eins og hér er gert með þessu svari á hinu háa Alþingi.