07.02.1985
Sameinað þing: 46. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2761 í B-deild Alþingistíðinda. (2231)

215. mál, almannafé til tækifærisgjafa

Flm. (Jóhanna Sigurðardóttir):

Herra forseti. Ég mæli hér fyrir till. til þál. um reglur um notkun almannafjár til tækifærisgjafa, sem ég flyt ásamt hv. þm. Guðrúnu Helgadóttur, Eiði Guðnasyni og Kristínu Halldórsdóttur. Till. hljóðar svo, með leyfi forseta:

„Alþingi ályktar að fela ríkisstj. að setja reglur sem kveða á um að takmarka notkun almannafjár til tækifærisgjafa hjá stofnunum í eigu ríkisins.“

Till. þessi var lögð fram á síðasta þingi en komst þá aldrei til umr. Tilefni hennar þegar hún var lögð fram var að opinberum embættismanni hafði þá nýlega verið gefin afmælisgjöf sem greidd var af opinberu fé sem lætur nærri að þá hafi numið um 4–5 árslaunum verkafólks fyrir dagvinnu. Þegar slíkt er upplýst hlýtur það að vera orðið tímabært að settar séu reglur um notkun almannafjár til tækifærisgjafa.

Til upplýsinga fyrir nefndina, sem fær þetta mál til meðferðar og hv. þm., fylgir nú með í grg. hvernig með slíkar gjafir er farið í Noregi og Danmörku, en eins og þar kemur fram eru tækifærisgjöfum þar settar mjög þröngar skorður og ákveðinn rammi og má segja, að slíkar gjafir séu að jafnaði ekki meiri að verðmæti en frá 1–5 þús. ísl. kr. Þar þekkist líka víða að settar eru reglur sem banna embættismönnum og stjórnmálamönnum að þiggja gjafir frá viðskipta- og hagsmunaaðilum í tengslum við störf sín. Þó að það sé ekki lagt til í þessari till. er þetta sett hér fram til ábendinga og umhugsunar fyrir þá nefnd sem málið fær til meðferðar.

Herra forseti. Ég sé ekki ástæðu til þess að hafa fleiri orð um þessa till. Það liggur ljóst fyrir og kemur skýrt fram, hvert tilefnið er með flutningi þessarar till. og legg ég til að að lokinni þessari umr. verði till. vísað til hv. allshn.