11.02.1985
Efri deild: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2765 í B-deild Alþingistíðinda. (2235)

284. mál, veiting ríkisborgararéttar

umr. Landbrh. (Jón Helgason):

Hæstv. forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til l. um veitingu ríkisborgararéttar á þskj. 464. Í 1. gr. frv. eru talin upp nöfn 18 manna sem sótt hafa um íslenskan ríkisborgararétt og að mati rn. uppfylla þau skilyrði sem Alþingi hefur sett fyrir því á undanförnum árum.

Í fyrri mgr. 2. gr. eru sömu ákvæði um nafnabreytingar og gilt hafa síðustu árin, en í síðari mgr. 2. gr. er um nýmæli að ræða. Eftir að Alþingi hvarf frá skilyrðislausri kröfu um að taka upp íslenskt nafn hefur það vakið óánægju hjá nokkrum þeirra, sem áður höfðu verið skyldaðir til þess, sérstaklega hjá þeim sem haldið hafa áfram að nota sitt fyrra nafn og það jafnvel í opinberum skilríkjum. Hér er því sett fram till. um það að þeir, sem þess óska, geti fyrir lok þessa árs fengið nafni sínu breytt á ný og haldið sínu upphaflega nafni í samræmi við ákvæði fyrra málsliðar. Þess er varla að vænta að margir muni nýta sér þetta ákvæði, þó að lögum verði, en það er nokkrum einstaklingum mikið áhugamál að eiga kost á þessu.

Ég vænti þess að nefnd sú, sem fær málið til meðferðar, muni athuga þessa tillögu vel og hvort hún geti ekki fallist á það skammtímaákvæði sem hér er lagt til.

Enn fremur mun nefndin að venju fá margar umsóknir sem rn. hafa borist og ekki uppfylla öll þau skilyrði sem sett hafa verið fyrir veitingu ríkisborgararéttar. Í þeim hópi munu vera einhverjir sem orðnir eru hér rótgrónir og sótt er eftir að fá til starfa. Hlýtur því að koma til athugunar hjá nefndinni hvort fært sé að gera einhverjar breytingar á fyrri reglu.

Ég legg til að að lokinni þessari umr. verði málinu vísað til 2. umr. og hv. allshn.