11.02.1985
Efri deild: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2766 í B-deild Alþingistíðinda. (2241)

129. mál, umferðarlög

Frsm. (Eiður Guðnason):

Virðulegi forseti. Þetta mál hefur áður borið á góma hér í þessari hv. deild. Það var á síðasta ári. Þá var það samþykkt hér en náði eigi fram að ganga í gegnum hv. Nd. Frv. var síðan endurflutt nú á haustdögum.

Allshn. hefur lokið sinni umfjöllun um það og er það samdóma álit nm. að mæla með því að frv. verði samþykkt. Það felur í sér í sem skemmstu máli að heimilt verði að beita sektarákvæðum láti menn í framsæti bifreiðar það undir höfuð leggjast að nota öryggisbelti.