11.02.1985
Efri deild: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2766 í B-deild Alþingistíðinda. (2243)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Helgi Seljan:

Virðulegi forseti. Þetta verða ekki mörg orð af minni hálfu, aðeins nokkrar athugasemdir og spurningar um leið til hæstv. fjmrh. Ég minnti á það hér á dögunum að eðlilegt væri að umfjöllun um þessi mál við 1. umr. færi fram eftir að hæstv. ríkisstj. hefði sýnt sínar víðtæku efnahagsráðstafanir, sem hún hefur nú gert, en mönnum reyndar ekki veist ýkja langur tími til að skoða og kanna í hverju eru fólgnar. Hafði ég því jafnvel vænst þess að menn fengju betra ráðrúm til að kynna sér þær, einmitt í tengslum við þessa lánsfjáráætlun, lengra ráðrúm til þess en hefur þegar gefist, áður en 1. umr. um þessi mál færi fram. Hins vegar eru nokkur atriði, sem hafa komið fram í þessari tilkynningu ríkisstj. sem hefur verið kynnt stjórnarandstöðuflokkunum, sem kalla á spurningar einmitt nátengdar þessu máli.

Talsmaður Alþb. í þessum málum, hv. þm. Ragnar Arnalds, er nú fjarri. Hann á sæti í þeirri nefnd sem um málið fjallar og mun fá það þar til meðferðar. Málið fær svo frekari umr. hér við 2. umr. þegar einnig liggur ljóst fyrir hvernig á hinum einstöku þáttum muni verða tekið.

Vitanlega er hér um eitt stærsta mál hvers þings að ræða, þar sem eru fjárfestingar ríkisins og lántökur til þeirra og því full þörf á að hafa um það vandaðri umr. en a.m.k. ég er þess umkominn að hafa á þessu stigi.

Annars vegar er rétt að gera athugun nokkra á þeim skerðingarákvæðum, sem í frv. felast, en við vitum að þau eru þegar í fjárlögum. Fjárlög hafa þegar ákveðið þessi skerðingarákvæði, þ.e. ekki lögfest þau. Þau þarf að lögfesta með þessum hætti, en það er greinilegt að þegar er búið að ganga frá í fjárlögum framlögum til hinna ýmsu málaflokka sem skipta mjög miklu máli. Hv. 3. þm. Norðurl. v., Þórður Skúlason, kom hér á dögunum inn á þau ákvæði t.d. sem snerta sérstaklega sveitarfélögin og þarf ég ekki neinu þar við að bæta.

Í raun og veru væru öll þau atriði umhugsunarverð og umræðuverð. En ég vék hér í stuttu framhjáhlaupi á dögunum að Kvikmyndasjóði og það mál er vissulega nú í sviðsljósinu í þess orðs fyllstu merkingu og fullyrðingar um frekari framlög í Kvikmyndasjóð ganga þar nokkuð á víxl. Hæstv. fjmrh. aftók hins vegar í stuttu svari að það mál væri á borðum ríkisstj., Alþingi hefði tekið sína ákvörðun. Það er rétt. Alþingi hefur tekið sína ákvörðun um framlag í Kvikmyndasjóð. Hins vegar ganga yfirlýsingar annarra ráðherra nokkuð á víxl miðað við þessa fullyrðingu og það er haft eftir ýmsum mönnum, sem þar eru innst í búri, að von sé nú á frekari framlögum með aukafjárveitingum í Kvikmyndasjóð til þess m.a. að mæta þeim brýnu verkefnum sem þar bíða og koma eitthvað til móts við nýsamþykkt lög um þennan sjóð. En það virðast sem sagt ekki allir ráðherrar vera á sama máli því að öðru hverju er verið að ýja að þessu. Hins vegar trúi ég alveg hæstv. fjmrh. þegar hann segir að málið sé hreinlega ekki til meðferðar hjá hæstv. ríkisstj. og ekkert á döfinni um að bæta úr hneykslanlegri ákvörðun Alþingis nú fyrir jólin. Ég trúi hæstv. ráðh. í þessu efni og reikna með að hitt sé bara gert til að friða ákveðnar sálir og segja þeim rangt til um hver sannleikurinn í málinu sé og upphæðin muni verða óbreytt eins og hæstv. fjmrh. hefur hér fullyrt.

Nú gengur hæstv. menntmrh. í salinn og ég veit að frá hennar embættismönnum hafa komið yfirlýsingar um að Kvikmyndasjóður mundi fá meira fé. En hæstv. fjmrh. upplýsti það hér úr þessum ræðustól að Alþingi hefði tekið sína ákvörðun og málið um Kvikmyndasjóð væri ekki á borðum ríkisstj. eða til afgreiðslu þar. Og meðan annað kemur ekki fram hlýt ég að taka þau orð trúanleg enda hæstv. fjmrh. óvanur því að fara með fleipur.

Ég vildi aðeins gera 16. gr. þessa frv. að umræðuefni, ekki þó löngu, vegna þess að frv. hefur þegar verið rætt það ítarlega á Alþingi að þess gerist ekki þörf. Það varðar framlögin til Framkvæmdasjóðs fatlaðra. Það segir að vísu ekki nema hluta af því dæmi vegna þess að við fjárlagaafgreiðsluna var framlaginu nokkuð breytt varðandi Erfðafjársjóð, en framlög til Erfðafjársjóðs af erfðafjárskatti voru hækkuð úr 19 í 25 millj. við afgreiðslu fjárlaga enda eðlilegt að allur erfðafjárskatturinn sé látinn renna til þessa verkefnis svo sem lög segja til um.

Það var upplýst fyrir jólin, skv. því sem landssamtökin Þroskahjálp höfðu gefið frá sér, að framlagið á fjárlögum nú væri aðeins um 48% þess sem lögákveðið væri að því er þeir best sæju. Ég efa ekki að þessar tölur séu nokkuð réttar, enda hef ég ekki séð þeim mótmælt og ég veit að vandi þeirrar stjórnarnefndar sem nú er að úthluta úr Framkvæmdasjóði fatlaðra er gífurlegur. Þar er mér sagt af stjórnarmönnum að vandinn mundi verða miklu minni eða ekki verða eins áberandi mikill og ekki kæmi til niðurskurðar eins og útlit er fyrir nú ef þarna fengjust 15–20 millj. kr. til viðbótar þeim 65 millj. kr., sem samtals eru til ráðstöfunar. Hér er eingöngu um að ræða framhald verkefna sem þegar eru í gangi, því það er rétt að á vegum sjóðsins er ekki gert ráð fyrir neinum nýjum framkvæmdum. Til þess er ekki fé og við skulum taka það gott og gilt að ekki séu hafnar nýjar framkvæmdir í þessum brýna málaflokki meðan efnahagsástand er ekki gott. Engu að síður verður að ætlast til þess að séð verði fyrir því að hægt sé að halda áfram við þær framkvæmdir, sem þegar eru í gangi. Ég hef því leyft mér að bera fram brtt. við 16. gr. frv. um að í stað 40 millj., sem þar eru ákvæði um, verði 60 millj. Ég reikna með því að þær 20 millj. sem þar mundu bætast við — og þá með aukafjárveitingu eftir að fjárlög hafa verið afgreidd, með því móti mundi stjórnarnefndin geta nokkurn veginn séð um brýnasta fé í þær framkvæmdir sem eru í gangi.

En aðalumræðuefnið, sem ætti nú að vera, er nátengt þeim yfirlýsingum sem hæstv. ríkisstj. hefur gefið frá sér um væntanlegar efnahagsráðstafanir. Þar er talað um 1000 millj. kr. niðurskurð á erlendu lánsfé, sem tilkynnt var um helgina. Við vitum að eftir þann darraðardans sem hefur verið í kringum þá ágætu stofnun Landsvirkjun, sem að undanförnu hefur verið mest í umræðum manna, hefur áætlun þeirrar stofnunar verið skorin niður um 200–250 eða jafnvel 350 millj., segja sumir, frá því sem ráð er fyrir gert í þessari lánsfjáráætlun. Ef við reiknum með 250 millj. sem líklegri tölu, þá standa eftir 750 millj. Ég spyr hæstv. ráðh.: Hvað er það sem ríkisstj. hyggst helst skera í framhaldi af þessu? Eru það Rafmagnsveitur ríkisins? Ég á von á því að þær séu inni í þessari mynd. Eða hvaða liðir aðrir eiga að fylla þessa býsna stóru tölu sem þarna vantar upp á þegar Landsvirkjun er reiknuð frá með 250 millj. kr. lækkun? Hvar á helst af að taka?

Lánsfjáráætlunin gerir ráð fyrir 708 millj. kr. í F-lán Húsnæðisstofnunar og veitir sjálfsagt ekki af. Tilkynnt er nú að veita eigi 150–200 millj. kr., að mér skilst, til að bjarga þeim sem hafa verið að byggja hús sín á undanförnum árum, 150–200 millj. kr. til G-lánakerfisins til kaupa á eldri íbúðum alveg sérstaklega, ef ég hef skilið rétt. Það hlýtur að þýða að mínu mati, að lántökurnar, 708 millj. í F-lán Húsnæðisstofnunar, muni lækka að sama skapi um þessa upphæð, og að það verði þeim mun minna fjármagn til ráðstöfunar í þann lánaflokk, þ.e. í ný lán. Um þetta væri líka fróðlegt að fá upplýsingar án þess að ég ætli að fara út í neina efnislega umr. um húsnæðismálin í heild sinni.

En þegar ríkisstj. hefur nú verið að fjalla um þessi mál svo ítarlega sem hún hefur gert og fengið til sín færustu ráðgjafa, þá eru örugglega nokkrar tölur sem er mjög auðvelt fyrir hæstv. fjmrh. að gera grein fyrir við þessa umr. T.d. hverjar verða hinar erlendu skuldir í lok ársins að mati ríkisstj., að gerðum þessum ráðstöfunum sem nú eru boðaðar. Og þá spyr ég í fyrsta lagi: Hvað verða þær mikið hlutfall af þjóðarframleiðslu í lok ársins? Og hve mikill hluti lækkunarinnar í hlutfalli stafar af því að loðnuveiðin verður meiri? Því að í þessu efni er afgerandi hið mikla gjaldeyrismagn sem fæst fyrir loðnuafurðir en þær verða greinilega miklu meiri en gert var ráð fyrir í upphafi ársins og við afgreiðslu fjárlaga. Og þá er spurt í framhaldi af því hver upphæð erlendra skulda muni verða í lok ársins. Þannig mætti áfram spyrja einnig um gjaldeyriseignina. Hvað áætlar ríkisstj. að gjaldeyriseignin verði mikil í lok ársins eftir að hún hefur gert þessar ráðstafanir? Þær tölur eru örugglega á hraðbergi hjá hæstv. ráðh. og þá alveg sérstaklega hver hún er núna í upphafi ársins. Um það hef ég ekki heldur tölur.

Þessar spurningar og margar fleiri vakna við lestur þeirra tilkynninga sem við höfum fengið, þó aðallega í gegnum fjölmiðlana, frá hæstv. ríkisstj., vegna þess að ég er ekki viss um að þessar ráðstafanir í heild sinni séu enn þá það opinberar að menn megi fara með þær hér í ræðustól. A.m.k. þegar ég er með plagg sem á stendur Trúnaðarmál, þá reikna ég með að það sé enn þá svo og ætla þess vegna ekki að vitna í það beint, þó að vel kunni að vera að innsiglið hafi verið rofið um leið og hæstv. ráðherrar gerðu grein fyrir þeim á fréttamannafundi. Þá væri full ástæða til að fara ofan í ótalmarga hluti sem í því plaggi standa. En það verður geymt til seinni tíma. En við þessum spurningum væri öllum hollt að fá svör við núna í upphafi þessarar umr., áður en málið fer til nefndar og fær sína umfjöllun, og þær frekari tillögur sem hæstv. ríkisstj. hlýtur að ætla að gera um meðferð þessa máls. Því að eins og það liggur fyrir okkur núna getur varla nokkur tala verið marktæk. Það hlýtur að eiga eftir að endurskoða flestar eða allar tölur sem í þessari lánsfjáráætlun eru og lækka þær til samræmis við það sem boðað hefur verið. Því hefði ég talið að heppilegt hefði verið fyrir þingheim allan, bæði stjórn og stjórnarandstöðu, að ríkisstj. hefði getað lagt fram plagg um fyrirætlanir sínar úr því að hún er búin að vinna svo vel í þessu máli sem raun ber vitni á undanförnum dögum og hefur náð svo ágætu samkomulagi um það sem gera skal, fullkomnu samkomulagi allra stjórnarþm. að manni skilst. Að hún hefði lagt fram skrá um það hvað ætti að breytast í frv. og í þeirri lánsfjáráætlun sem við erum nú að fjalla um við 1. umr. en vitum í raun og veru ekki um hvað fjallar fyrr en þær upplýsingar liggja fyrir.