11.02.1985
Efri deild: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2770 í B-deild Alþingistíðinda. (2246)

245. mál, lánsfjárlög 1985

Fjmrh. (Albert Guðmundsson):

Virðulegi forseti. Ég vil fyrst reyna að svara hv. 2. þm. Austurl. örlítið og þá byrja á því að harma það að hann hlustar meira á fregnir eftir ýmsum mönnum úti í bæ um Kvikmyndasjóð og frekara framlag til hans en fjmrh. (HS: Ég tók hann trúanlegan.) Ég veit ekki hvaða ýmsir menn þetta eru úti í bæ, en oft hef ég undrast það hvað skrifað er á reikning fjmrh. Mér finnst stundum eins og margir fjmrh. séu að verki hingað og þangað um bæinn. En í þessu tifelli er vitnað í mín orð, svo að ég held mig við þau. En ég verð að segja það alveg eins og er að eins og fjármálum þjóðarinnar er komið og við erum í þrengingum með, stöndum uppi með 700 millj. kr. halla á fjárlögum, þá finnst mér óverjandi að taka einn sérstakan lið út úr, lið sem er þó tiltölulega nýr og hækka hann verulega, hvað sem líður fjárfestingum einstaklinga úti í bæ og hinum ýmsu nýju atvinnutækifærum sem virðast vera að skapast. Ég á eftir að sjá Alþingi samþykkja slík gríðarleg stökk í fjárveitingu. En ég mun ekki leggja það til, það hef ég sagt úti í bæ og ég mun standa við það.

Aftur á móti hef ég vissan áhuga á þeirri till. sem hv. 2. þm. Austurl. boðaði að hann mundi flytja hér og varðar Þroskahjálp. Ég hef miklu meiri tilhneigingu til að standa vel að því verki en að stórauka framlög til Kvikmyndasjóðs.

Við erum nýbúnir að eignast nýja afreksmenn í handknattleik. Það er atvinnugrein. Íþróttir eru atvinnugrein víðast hvar í heiminum. Ég veit ekki betur en atvinnuíþróttir séu einhver stærsta tekjulind heims. Ekki nokkur atvinnugrein dregur eins mikið að. En það hefur engum dottið í hug að stórauka framlag til að búa til slíkt aðdráttarafl fyrir Ísland. Hitt er annað mál að við skulum standa vel að kvikmyndum og öðrum nýatvinnugreinum eins og okkur ber skylda til að gera. En sem sagt, þessi brtt. sem hv. 2. þm. Austurl. boðaði hefur miklu meiri hljómgrunn í mínum eyrum. Hvort hægt er að verða við þeirri ósk eða ekki verður að koma í ljós þegar nefndin hefur fjallað um þessa till. eins og aðrar góðar till. af velvilja.

Virðulegur þm. gerði að umræðuefni þær 1000 millj. sem stendur til að skera niður á fjárlögum, bæði A- og B-hluta. Ég er ekki með lista yfir það sem á skera niður, hvorki þær 250 eða 350 millj., hvort sem verður, frá Landsvirkjun né heldur mismuninn sem þarf að ná þar til að ná 1000 millj. Ef þeirri nefnd sem starfar undir forustu ríkisendurskoðanda og annarra fagmanna í fjmrn. tekst eins vel til 1985 og 1984, sem ég vona, þá tel ég að hægt verði að taka minna erlent lán á A-hluta árið 1985. En árið 1984 voru erlendar lántökur 600 millj. minni en ætlað var við endurskoðun á fjárlögum í maí 1984. Þessu til viðbótar hefur mjög breytt meðhöndlun á tollafgreiðslum flýtt tekjuinnstreymi í gegnum tollþjónustuna. Þar hefur verið komið á svokallaðri hraðbraut fyrir stærstu viðskiptavinina og hefur það skapað tolltekjur ríkissjóðs miklu fyrr og með meiri hraða en áður var. Því til viðbótar höfum við tekið mjög alvarlega ábendingar og tillögur stjórnarandstöðunnar og lagt mjög mikla áherslu á hert skattaeftirlit. Það er nú talað um að flýta dómsmálum á því sviði og við reiknum með að það gefi bæði betri skil og hraðari tekjur til ríkissjóðs. Þetta samanlagt reikna ég með að nægi til að mæta þessum 1000 millj.

Þá talaði hv. þm. um þær 200 millj. sem ætlaðar hafa verið frá nýbyggingum í húsnæðiskerfinu til þeirra sem eru í greiðsluvanda. Ég lít á þessa hugmynd sem eins konar varatillögu við þá hugmynd að skaffa peninga annars staðar frá og gera aðrar ráðstafanir til að hlaupa undir bagga með þeim sem eru í greiðsluvandræðum og hafa fengið lán hjá húsnæðismálastjórn á ákveðnu tímabili, og það sé þá með lengingu lána. En það veit hver maður sem fengið hefur lán að lenging lána getur bjargað mjög miklu í greiðsluerfiðleikum. Eins er með samstarfið við aðra aðila, t.d. Seðlabankann. Það hefur a.m.k. verið mín hugmynd og ég mun leggja á það áherslu áfram að reyna að færa bindifé úr Seðlabankanum yfir til húsnæðismálastjórnarinnar, þannig að nýtt fé leysi þann vanda en ekki verði tekið frá nýjum lánum til húsbyggjenda sem byggja í fyrsta sinn og binda vonir sínar við fyrirgreiðslu hins opinbera.

Þá spurði hv. þm. um hverjar lántökur yrðu í lok ársins. Það er á bls. 6 sem fylgiskjal I í frv., það kemur þar fram og einnig heildarlántökurnar sundurliðaðar. Ég sé ekki ástæðu til að tefja tímann við að lesa það upp. En hitt er svo annað mál að hver skuldaprósentan verður af þjóðarframleiðslu í lok ársins er mér ómögulegt að segja. Ég held að það verði erfitt að fá þá tölu frá Þjóðhagsstofnun með nokkurri vissu um að hún geti verið rétt. (Gripið fram í.) Jú, en ég vil í mínum eigin fyrirtækjum frekar fara eftir því sem ég hef nokkuð örugglega á milli handanna en ágiskun fram í tímann. (Gripið fram í: Það er rétt.) Og þar af leiðandi hef ég heldur hliðrað mér við að fara mjög nákvæmlega eftir spám sem koma allt of víða að og fáar þeirra eru eins.

Þetta er það sem ég hef að segja. Eins er það með lánsfjárþörfina á árinu, hún kemur fram á bls. 7, svo að ég ætla ekki að tefja tímann með frekari upptalningu á því.

Ég sé ekki þörf á að gera að umræðuefni þær ráðstafanir sem ríkisstj. er nú að hrinda af stað. En það er rétt sem kom fram hjá hv. 5. landsk. þm. og fleirum að þessi lánsfjárlög, eða drög að þeim, koma fram áður en nýjar ráðstafanir eru ræddar í ríkisstj. þó þær hafi verið kynntar. Og það er eðlilegt að við málsmeðferð og í nefnd komi fram brtt. til nánari skoðunar en venja er til við afgreiðslu á slíku máli. Ég er sem sagt opinn fyrir því að skoða hvaða till. sem fram kynnu að koma og eru til bóta, til sparnaðar og til að draga úr erlendum lántökum. En það er eitt af því sem ríkisstj. stefnir hvað ákveðnast að.