23.10.1984
Sameinað þing: 8. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 397 í B-deild Alþingistíðinda. (225)

43. mál, endurskoðun á ársreikningum ÍSALs 1983

Iðnrh. (Sverrir Hermannsson):

Herra forseti. Að sjálfsögðu er það rétt hjá hv. þm. að skattgreiðslurnar og skattgreiðslureglurnar eru mjög mikilvægt atriði, en þó er það ekki stórt atriði á borð við sjálft orkuverðið, aðeins lítill hluti í samanburði við það.

Ég ætla ekki að hefja nú umr. um þessi gömlu þrætumál. Minni aðeins á í sambandi við þennan lið, um afskriftir 4.6 millj. Bandaríkjadala, að þar þrætast menn mjög á um afskriftarreglur. Það eru til íslenskir menn einnegin sem halda því fram að ÍSAL hafi leyfi til að afskrifa með þeim hraða sem þeir hafa gert. Menn þurfa ekki að undrast niðurstöður Coopers & Lybrands eins og þær liggja fyrir vegna þess að hvorugur aðili hefur horfið frá afstöðu sinni um túlkun á þeim reglum til að mynda varðandi afskriftarreglurnar, sem þeir frá upphafi hafa haldið við.

En ég hef haft í hyggju að leggja fyrir hið háa Alþingi skýrslu um framkvæmd bráðabirgðasamkomulagsins frá 23. sept. á liðnu ári og um gang samningaviðræðna frá þeim tíma og þær niðurstöður sem menn eru komnir að. Af ýmsum ástæðum, einnig vegna þess að ekki eru fullfrágengin öll atriði og niðurstöður fengnar í orðalagi til að mynda, einnegin vegna þess að í samningunum eru ákvæði um það að þeir skuli ekki birtir opinberlega nema báðir aðilar samþykki, þá dregst þetta eitthvað úr hömlu þannig að ekki verða tök á því enn um sinn að þessi skýrsla verði lögð fyrir hið háa Alþingi. Ég tek fram að mér er það mjög umhendis að leggja slíka skýrslu fram nema hægt sé að upplýsa öll atriði sem að málinu lúta í öllum smáatriðum, en um það atriði er gagnaðili ekki sammála enn sem komið er.

Ég vildi nota þetta tækifæri til að koma á framfæri skýringunum á því að ég hef ekki enn og er ekki enn tilbúinn til þess að gefa Alþingi þá skýrslu sem ég hafði í huga að gera fljótlega eftir samkomudag þess.