11.02.1985
Efri deild: 42. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2785 í B-deild Alþingistíðinda. (2252)

198. mál, útvarpslög

Stefán Benediktsson:

Virðulegi forseti. Ég ætla ekki að flytja hér langt mál og hef þó kannske eitt og annað um þetta frv. að segja. Þó er kannske eitt sem stendur öðru fremur upp úr í mínum huga. Lög eru náttúrlega býsna alvarlegur hlutur og setja þá menn sem nota eiga lögin í ákveðinn vanda þegar þeir eiga að skilgreina þau í meðförum sínum.

Ég held að þetta frv. útheimti það að höfundar þess eða einhverjir aðrir góðir menn sem treystandi er til skilgreini orðið menning. Og ég meina þetta í fúlustu alvöru. Hér byrjar grg. þessa frv. á því að sagt er: „Hin öra tækniþróun, sem átt hefur sér stað í dreifingu hljóðvarps- og útvarpsefnis, hefur skapað margvíslega möguleika til móttöku erlends efnis. Það má þó aldrei verða stefna Íslendinga að nota tæknina tækninnar vegna og verða þannig þrælar hennar heldur ber að taka tæknina í þjónustu íslenskrar menningar.“ Og þá spyr ég: Hvað er átt við? Hvað er að taka einhverja hluti í þjónustu íslenskrar menningar? Er það að taka hluti í þjónustu fólks eða er það að taka hlutina, tæknina í þjónustu þess sem kallað er hér í grg. „samræmd fjölmiðla- og menningarstefna sem hafi úrslitaþýðingu fyrir okkur sem þjóð og einstaklinga og beri að hafa í hug þegar sett eru útvarpslög?“ Erum við Íslendingar virkilega svo langt komnir í stjórnáhuga okkar að við ætlum að fara að setja lög um það í þessu landi hvað sé menning og hvað sé ekki menning?

Við vitum það að til eru lönd hér í þessum heimi sem ákveða það með lögum hvað hafi menningarlegt gildi og hvað ekki. Ég hélt og held enn, trúi því og mun berjast fyrir því að slík lög verði aldrei sett á þessu landi sem kveða á um það hvað sé menning og hvað sé ekki menning.

Hér er fullyrt m.a.: „Ef allar gáttir eru látnar standa opnar í þessum efnum“ — þ.e. þróun tækninnar —„gefur auga leið að íslenskri menningu og tungu er hætta búin.“ Ég vil leyfa mér að spyrja: Á hvaða forsendum er svona fullyrðing sett fram? Tölum við Íslendingar verri íslensku í dag en við töluðum fyrir 100 árum síðan? Ég efa það. Ég held t.d. að sú íslenska sem við töluðum fyrir 100 árum síðan almennt upp til hópa hafi verið ólíkt meira dönskuskotin en hún er í dag. Flámælgi og latmælgi var svo mikil hér á landi í byrjun þessarar aldar að skólastefnan beindist eingöngu að því í raun og veru að reyna að útrýma þessum vanköntum í íslensku máli.

Menn hafa hafið hlutverk Ríkisútvarpsins hátt í þróun íslenskrar tungu og víst er um það að mjög margir þættir, sem sendir hafa verið út á vegum Ríkisútvarpsins, hafa fjallað um íslenskt mál og íslenska tungu, fróðlegir margir hverjir. En ég held að menn séu líka sammála um það að óholl áhrif Ríkisútvarpsins hvað tungu og málfar snertir geti verið alveg jafnmikil. Ég er alls ekki jafnsannfærður um það eins og höfundar þessa frv. að menning Íslands standi og falli eingöngu með Ríkisútvarpinu. „Það er hagur allra landsmanna,“ segir hér í frv., „að menning og tunga þjóðarinnar sé varðveitt.“ Það er líka fullyrðing sem mér finnst þurfa að sanna. Ég er ekkert viss um að það sé hagur íslenskrar þjóðar að menning hennar og tunga séu varðveitt og maður þurfi að samþykkja um það lög. Var það ekki hagur íslenskrar þjóðar að við köstuðum burt okkar menningu og tungu nánast, og fluttum frá Noregi til Íslands? Eða vilja menn hverfa til baka og snúa þeirri þróun við? Hver segir að við værum ekki alveg eins vel komnir að tala Swahili hér á Íslandi?

Það er örugglega góð meining í þessu frv., ég efa það ekki. En mér óar við frösum eins og þeim að menningarstefna á lýðræðislegum grunni sé eitthvað sem sé svona nokkurs konar skapadægur í lífi íslenskrar þjóðar. Ég held að þegar fjöldinn er farinn að ákveða hvað sé menning, þá fari einstaklingnum, hinum skapandi einstaklingi að verða æði mikil hætta búin. Öll framþróun í listum, hvort sem það er myndlist, bókmenntir, tónlist eða eitthvað annað, verður til yfirleitt fyrir tilstilli manna sem brjótast undan hefðum og oki samfélagsins hvað skoðanamyndun snertir, brjótast út og skapa þann grundvöll til nýrrar hugsunar og nýrra hugsjóna. Þessum mönnum væri engin þægð í því að lýðurinn ákvæði í eitt skipti fyrir öll hvað sé menning.

Höfundar frv. tala af mikilli lítilsvirðingu um frelsi án ábyrgðar. Það er þó nokkuð í tísku hér í sölum að frelsi og ábyrgð fari saman. Ég get að vissu leyti verið sammála slíkri hugsun. En ábyrgðarlaust frelsi hefur samt sem áður verið ákveðin uppspretta menningar alla tíð, þ.e. frelsi þeirra einstaklinga sem viðurkenndu ekki þá ábyrgð sem aðrir menn ákvæðu að ætti að vera. Þetta voru menn sem ruddust oft og tíðum með kannske allhrottalegum hætti út úr viðjum hefðar og fast mótaðra skoðana til nýrra átta. Við metum þessa menn í dag mjög mikils og heiðrum þá sem nokkurs konar höfunda að því þjóðfélagi og þeirri menningu sem við búum við í dag. Þetta á t.d. við um flestalla þá menn sem við teljum hafa lagt grunn að því þjóðskipulagi sem við búum við í dag, lýðræði og mannréttindum. Að þessu leyti finnst mér kveða við dálítið óheppilegan tón í allri röksemdafærslu sem lögð hefur verið til grundvallar við samningu þessa frv. enda kemur það líka í ljós þegar frv. er skoðað nánar að það breytir í raun afskaplega litlu. Það eina sem raunverulega hefur breyst fyrir manninn sem kveikir eða slekkur á útvarpinu sínu úti í bæ er það að það hefur hugsanlega opnast ein rás í viðbót hjá þessu fyrirtæki. Búið spil, það er allt og sumt. Jú, jú, það er eitthvað ruglað saman reytum í sambandi við valdaspil innan þessarar stofnunar en það er á stundum sett fram með svo klaufalegum hætti að það gleymist t.d. að taka fram hver á að gera hvað. Það er t.d. talað hér um ákveðið úrtak fólks sem á að mynda það sem mundi vera kallað útvarpsráð í dag en er kallað notendaráð í þessu frv. Það gleymist t.d. að segja hver á að taka það úrtak. Hver á að gera það? Það er hvergi tekið fram.

Ég hirði ekki að svara hv. 5. landsk. þm., hann er farinn úr salnum, en hann var eitthvað að rugla um hugmyndir Bandalags jafnaðarmanna í útvarpsmálum. Hann hefur greinilega ekki lesið sér til enn þá svo að það þýðir ekkert að vera að rökræða það við hann. Ég hef lokið máli mínu.