11.02.1985
Neðri deild: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2789 í B-deild Alþingistíðinda. (2256)

274. mál, ávana- og fíkniefni

Landbrh. (Jón Helgason):

Herra forseti. Hv. 2. landsk. þm. hefur óskað eftir frekari upplýsingum um umfjöllun þessara mála hjá dómsmrn. og heilbrrn. Eins og fram kom í máli fyrirspyrjanda var skipaður starfshópur milli lögsagnarumdæma til þess að reyna að samræma vinnubrögð. Sá hópur heldur áfram starfi sínu, heldur fundi alltaf öðru hvoru og reynir að samræma aðgerðir og beina þeim á þann veg sem árangursríkastar eru. Alþingi veitti 1 millj. kr. í þessu skyni, það hefur ekki enn þá verið tekin endanleg ákvörðun um það hvernig þeirri upphæð verður varið, en um það verður fjallað af þessum hóp og starfsmönnum rn.

Vissulega er það svo að alltaf er hægt að gera meira eftir því sem meira fjármagn er fyrir hendi og þess vegna hlýtur það alltaf að takmarka eitthvað þessi umsvif. En ég vænti þess að það verði farið af stað með þær aðgerðir sem vænlegastar þykja. Ef síðan kemur í ljós að þetta fjármagn, þessi eina millj. kr., hrekkur hvergi nærri til mun síðar á árinu verða leitað eftir meiru ef fjárskortur er talinn standa í vegi fyrir brýnum aðgerðum.

Fyrir utan þennan starfshóp, sem skipaður var í fyrra, hafa átt sér stað viðræður milli heilbrrh. og mín og heilbrrn. og dómsmrn. og reyndar fleiri aðila, borgarinnar líka. Það hefur verið ákveðið að mynda hóp til að gefa ábendingar í þessum efnum, kannske fyrst og fremst í sambandi við aðgerðir fyrir þá sem að einhverju leyti eru orðnir háðir þessum efnum. Ég hef reynt að ýta á það að þessi vinna færi af stað og ég vænti þess að hún geri það nú innan fárra daga. Það er samstaða á milli okkar heilbrrh. um að þarna sé nauðsynlegt að gera allt sem mönnum sýnist tiltækt, auðvitað fyrst og fremst að fyrirbyggja það að eftirspurn verði eftir þessum efnum hér í landinu — því að vitanlega er það eftirspurnin sem veldur því að menn freistast til að flytja þetta inn og hagnast á því í því skyni — og síðan að reyna að hjálpa þeim sem eru svo gæfulitlir að ánetjast þessum efnum.