11.02.1985
Neðri deild: 40. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2792 í B-deild Alþingistíðinda. (2260)

289. mál, Landmælingar Íslands

Kjartan Jóhannsson:

Herra forseti. Ég tel mjög til bóta að lögfesta með þessum hætti starfsgrundvöll þessarar merku stofnunar sem hér hefur starfað um þó nokkurt árabil og á sér merka forsögu í höndum Dana eins og hér hefur verið rakið. Mér sýnist frv. vera í meginatriðum gott. Það er einfalt og tekur til þeirra meginatriða sem eðlilegt er að binda í lögum án þess að flækja sig í smáatriðum eins og gjarnt er í sambandi við lög af þessu tagi. Ég held að það hljóti líka að vera styrkur fyrir stofnunina að gera verkefnaáætlanir eins og hér er gert ráð fyrir og þá muni athygli Alþingis beinast betur að því að hvers konar verkefnum þarna er verið að vinna og hversu mikils virði þau eru.

Það er sjálfsagt rétt og æskilegt og nauðsynlegt að treysta betur fjárhagsgrundvöll þessarar stofnunar en hefur verið gert á undanförnum árum eða beinlínis kemur fram í lagafrv. sem hér er lagt fram. Lagafrv. hindrar hins vegar ekki með neinum hætti að það verði gert, stendur síst af öllu í vegi fyrir því, en getur hins vegar með kynningum á verkefnaáætlunum orðið til þess áð auka skilning á nauðsyn þess að efla fjárhagsgrundvöll hennar. Að hinu leytinu trúi ég að það hafi stundum reynst þessari stofnun erfitt, eins og sumum öðrum ríkisstofnunum, að halda í mannskap vegna þess að hinn frjálsi markaður býður gjarnan langtum betri launakjör en opinber stofnun eins og þessi hefur í raun og veru getað gert. Það er í sjálfu sér íhugunarefni, en fyrir utan það mál sem hér er til umfjöllunar þó það tengist því með vissum hætti, að þegar menn ræða um fjárhagsgrundvöll, vöxt eða viðgang stofnunar hljóta menn að líta til þess hvaða atriði það eru sem ráða úrslitum um það hvernig stofnanir vaxa eða með hvaða hætti þær geta dafnað. Ég skal ekki fjölyrða um þetta, en eins og ég sagði í upphafi líst mér vel á frv. og er reiðubúinn að greiða götu þess.