12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2817 í B-deild Alþingistíðinda. (2278)

228. mál, ríkisstyrkir Norðmanna til sjávarútvegs

Viðskrh. (Matthías Á. Mathiesen):

Herra forseti. Hv. 6. landsk. þm. hefur komið með fsp. um ríkisstyrki Norðmanna til sjávarútvegs:

„1. Er engin vörn í fríverslunarsamningi EFTA-ríkjanna gegn stórfelldum ríkisstyrkjum Norðmanna til sjávarútvegs?

2. Hvað hyggst ríkisstj. gera til að koma í veg fyrir þessa aðför að íslenskum sjávarútvegi?

3. Kemur norrænt samstarf Íslendingum að engu gagni í þessum efnum?“

Varðandi 1. fsp.:

Samningurinn um stofnun Fríverslunarsamtaka Evrópu, EFTA, frá 1960, sem Íslendingar gerðust aðilar að árið 1970, tekur aðallega til iðnaðarvara. Í samningnum er þó gert ráð fyrir fríverslun með nokkrar tegundir sjávarafurða, t.d. fryst fiskflök. Þegar Fríverslunarsamtökin voru stofnuð árið 1960 gerðu Norðmenn þann fyrirvara að þeir gætu haldið áfram að veita ríkisstyrki til sjávarútvegsins. Þótt Norðmenn hafi gert þennan ákveðna fyrirvara við samninginn hafa Íslendingar ævinlega og við fjölmörg tækifæri mótmælt hinum víðtæku styrktaraðgerðum Norðmanna til sjávarútvegs og vísað þá m.a. til almennra ákvæða í EFTA-samningum og þeirra sjónarmiða sem liggja til grundvallar ákvæðum samningsins um ríkisstyrki og samkeppnishömlur.

Þetta mál hefur verið tekið upp á fundum viðskrh. Íslands og Noregs og þar hef ég mótmælt þessu. Forsrh. Íslands hefur á fundum með forsrh. Norðurlanda vikið að þessu og látið sína skoðun þar í ljós og mótmælt. Og sjútvrh. hefur þar sem hann hefur haft tækifæri í viðræðum við sinn norska starfsbróður og annars staðar látið sína skoðun í ljós og mótmælt þessu.

Þá hefur verið fjallað um málið á vettvangi EFTA, á ráðherrafundum samtakanna þar sem viðskrh. mæta, og þar hefur þessu verið mótmælt. Mótmælum Íslendinga hafa Norðmenn svarað á þá lund að ríkisstyrkjum sé fyrst og fremst ætlað að styrkja atvinnulíf í Norður-Noregi, sem byggist aðallega á sjávarútvegi, og koma þannig í veg fyrir byggðaröskun og, að þeir segja, fólksflótta.

Svar við nr. 2:

Það kemur fram í svari við 1. fsp., eins og ég gerði grein fyrir áðan, að við öll hugsanleg tækifæri hefur verið borin fram gagnrýni og mótmælt vegna ríkisstyrkja Norðmanna til sjávarútvegs og því verið haldið fram, enda þótt of sterkt sé e.t.v. til orða tekið, að hér sé um aðför að íslenskum sjávarútvegi að ræða. Þeim hefur verið gerð grein fyrir því að það skipti ekki máli hvort um niðurgreiðslu sé að ræða á frumstigi eða á lokastigi í sambandi við vöruframleiðslu.

Sem svar við nr. 3:

Á norrænum vettvangi hafa íslenskir fulltrúar, hvort heldur það eru ráðherrar eða alþingismenn, mótmælt styrktaraðgerðum Norðmanna. Ég er sammála hv. þm. um að á því þingi Norðurlandanna sem í hönd fer er sjálfsagt að láta til sín heyra, hvort sem það eru þar ráðherrar eða þm., því að við erum að sjálfsögðu sammála um að hér er ekki þannig að farið að við viljum láta við það sitja.