12.02.1985
Sameinað þing: 47. fundur, 107. löggjafarþing.
Sjá dálk 2818 í B-deild Alþingistíðinda. (2280)

228. mál, ríkisstyrkir Norðmanna til sjávarútvegs

Sjútvrh. (Halldór Ásgrímsson):

Herra forseti. Það má að sjálfsögðu alltaf deila um það hvernig sé best að vinna að okkar brýnustu hagsmunamálum á alþjóðavettvangi. Ég held að það sé ekki rétt að við förum að ásaka hver annan um það að illa hafi verið staðið að málum í sambandi við þetta að ég vil telja brýnasta hagsmunamál landsins, vegna þess að þessir styrkir hafa orðið þess valdandi að lífskjör eru hér verri en ella hefðu orðið. Og ef þeir verða áfram við lýði munu lífskjör á Íslandi vart batna þannig að hér er að því leytinu til um langbrýnasta hagsmunamál okkar að ræða fyrir utan fiskistofnana sjálfa og markaðsmálin að öðru leyti.

Ég tek undir það að Norðmenn hafa lítið gert til hins betra í þessu máli. En það er ekki vegna þess að þeir geri sér ekki fulla grein fyrir mótmælum okkar og viti ekki um afstöðu okkar. Málið hefur verið tekið fyrir nánast á hverjum einasta fundi sem að ég hef setið bæði sem þm. í Norðurlandaráði og síðar sem ráðh. Þannig er alltaf verið að ræða um þetta mál og notað hvert tækifæri til þess. Hins vegar hafa Norðmenn ekki breytt þessu og þeir bera því við að þeir nái ekki saman samningum við sjómenn og útvegsmenn nema ganga til þessara styrkja. Það er að sjálfsögðu mjög alvarlegt.

Sjútvrn. hefur nýlega falið Þjóðhagsstofnun og síðar Þjóðhagsstofnun í samvinnu við utanrrn. að safna nákvæmum upplýsingum um þessa styrkjastarfsemi í Bandaríkjunum, Kanada, Færeyjum, Danmörku, Bretlandi og Noregi. Jafnvel þó við vitum nokkurn veginn hverjir þessir styrkir eru þyrftu að liggja fyrir betri upplýsingar um þá. Við höfum einnig notað tækifærið í alþjóðastofnunum, t.d. á hinum árlegu fundum með fulltrúum Alþjóðagjaldeyrissjóðsins, sem koma á hverju ári til að yfirheyra Íslendinga. Lagði ég á það mjög mikla áherslu á þeim fundi sem ég átti með þeim mönnum að þetta yrði tekið upp innan Alþjóðagjaldeyrissjóðsins. Það var gert. Þeir tóku það upp í viðræðum við Norðmenn. Norðmenn komu með sín venjulegu andsvör.

Noregur er ríkt land sem getur leyft sér ýmislegt í viðskiptum og alþjóðasamstarfi og þeir hafa ekki tekið tillit til okkar í þessu sambandi, en ég vil halda því fram að það sé ekki vegna þess að ekki hafi verið eðlilega að málinu unnið af okkar hálfu innanlands. Við getum því miður ekki, jafnvel þó að við gerum mikið og segjum mikið, reiknað með því að það sé trygging fyrir því að önnur þjóð fallist á kröfur okkar. Það veit hv. þm. Hjörleifur Guttormsson jafnvel og ég.

Ég skal ekki hafa fleiri orð um þetta. Það er einnig nauðsynlegt að við tökum upp viðræður við Kanadamenn í þessu sambandi. Við höfum ekki átt nægilegar viðræður við þá um þessi mál að mínu mati. Og það er mjög nauðsynlegt að halda fast á þessu máli á næstunni. En ég er þeirrar skoðunar að það sé ekki því um að kenna að illa hafi verið haldið á málinu af hálfu íslenskra stjórnvalda.